Frjáls fjallamennska

HerðubreiðHvort sem lagt er af stað í göngu á Hvannadalshnjúk snemma morguns eða gengið upp á Esju eftir lok vinnudags er náttúran ótæmandi brunnur af skemmtilegum upplifunum. Náttúruna má nálgast með ýmsum hætti.

HerðubreiðMargir nýta sumarið til fjallamennsku, gönguferða og tjaldferðalaga. Áhugi fólks á hverskyns útivist fer vaxandi. Sumarið er sá tími sem náttúran er aðgengilegust enda veðrið þá yfirleitt hagstæðara til útivistar. Lega landsins gerir það þó að verkum að aðstæður geta verið krefjandi allt árið um kring. Ákveðna fyrirhyggju þarf þegar haldið er til óbyggða. Ekki er hægt að treysta á það sem sjálfsagt þykir í byggð.

Mikilvægt er að velja sér verkefni við hæfi og tryggja að hægt sé að ráða við óvænt og ófyrirséð vandamál. Bera þarf virðingu fyrir veðrinu, landslagi og eigin getu. Sé það gert er hættulítið að ganga á fjöll en neyð getur skapast á fjöllum eins og annars staðar. Slíkri neyð sinnir þjóðfélagið fúslega, þeim sem þurfa hjálp að kostnaðarlausu. Á móti er gerð sú krafa að menn séu vel útbúnir, hafi sýnt fyrirhyggju og valið sér verkefni við hæfi.

Margar þjóðir hafa farið þá leið að skylda menn til þess að kaupa sér björgunartryggingar eða beita fjársektum komi til björgunar. Slíkar leiðir eru afar óheppilegar en hugsanlega er óhjákvæmilegt að beita einhverjum slíkum ráðum sýni menn ekki eðlilega varkárni.

Stór partur af fjallamennsku er það frelsi sem felst í því að geta ferðast um landið án takmarkanna. Leiðinlegt væri ef skerða þyrfti þetta frelsi og skylda fólk til þess að kaupa björgunartryggingar. Frelsinu fylgir ábyrgð. Ábyrgðina verður útivistarfólk að axla með því að koma sér ekki í aðstæður sem krefjast björgunar vegna óskynsemi, fífldirfsku eða kunnáttuleysis svo að ekki þurfi að koma til slíkra frelsiskerðandi aðgerða hér á landi.

Landslag á Íslandi er afar fjölbreytt enda landið ungt og enn í mótun. Víða má sjá miklar andstæður. Það sem gerir íslenska náttúru svo spennandi er fyrst og fremst það að náttúran er enn víða ósnortin og varla hægt að sjá nein ummerki manna. Þessi ákveðna sérstaða kann þó að vera að breytast með aukinni sókn manna á viðkvæm svæði ásamt glórulausar eyðileggingar vegna raforkuframleiðslu.

Það dylst eflaust engum að umtalsverð verðmæti og ávísun á aukin lífsgæði felast í enn ósnortinni náttúru landsins sem okkur ber siðferðisleg skylda til að varðveita. Siðfræði fjallamannsins felur í sér að ganga um landið með það að markmiði að hafa sem allra minnst áhrif á náttúruna. Sú hugmyndafræði felur meðal annars í sér að skilja ekki eftir sig rusl, skemma ekki mosa og annan viðkvæman gróður í því skyni að komandi kynslóðir geti hrifist af landinu á sama hátt og við getum í dag.

Víða er unnið óeigingjarnt starf sem gerir fólki kleift að njóta náttúrunnar. Skálar hafa verið reistir á fjöllum fyrir göngufólk og greinargóðar og gagnlegar leiðarlýsingar hafa verið gefnar út svo eitthvað sé nefnt. Ný útkomin bók Gengið um óbyggðir landsins eftir Jón Gauta Jónsson er góð lesning fyrir þá sem ætla á fjöll í sumar en hún er vönduð handbók með hagnýtum fróðleik fyrir þá sem vilja ferðast utan alfaraleiðar.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)