Plott Davíðs

Nú hefur hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar verið samþykkt. Þjóðin bíður í ofvæni eftir ákvörðun forsetans, mun hann samþykkja frumvarpið eða mun hann synja því?

Nú hefur hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar verið samþykkt. Þjóðin bíður í ofvæni eftir ákvörðun forsetans, mun hann samþykkja frumvarpið eða mun hann synja því?

Fjölmiðlasambandið stóð fyrir undirskriftarsöfnun gegn lögum um eignarhald á fjölmiðlum á www.askorun.is og skrifuðu tæplega 32 þúsund manns undir lista sem var afhentur forseta Íslands. Ósk þeirra sem skrifuðu undir er að þjóðin fái notið þess lýðræðislega réttar að kjósa um lögin eins og kveðið sé á um í 26. grein stjórnarskrár Íslands.

Fjölmiðlafrumvarpið var samþykkt síðastliðinn mánudag en það tekur yfirleitt fimm til tíu daga að koma því í hendur forseta. Stjórnarandstaðan vill að afgreiðslu þessa frumvarps verði sérstaklega hraðað og það sent forseta fyrir þinglok. Þetta frumvarp sé þess eðlis, andstaðan í þjóðfélaginu hafi verið það mikil og áhöld uppi um hvort það stenst stjórnarskrá. En allt lítur út fyrir að þingið verði sent heim um helgina, áður en forsetinn fær frumvarpið til undirritunar.

Davíð Oddsson segir hins vegar að lögin fari með venjulegum hætti til forseta og um þau gildi ekki aðrar reglur en önnur lög sem bíða staðfestingar.

Staðan er því þannig að allt lítur út fyrir að þingið ljúki störfum um helgina, áður en að forsetinn hefur haft tækifæri til þess að skrifa undir fjölmiðlalögun, eða synja þeim staðfestingar. Þar með stendur forseti Íslands eftir einn með ábyrgðina og sá pólitíski stuðningur sem hann hefur á Alþingi farinn í frí. Ef forsetinn ákveður að synja lögunum þegar þau berast honum þá þarf að kalla saman Alþingi á ný til þess að semja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur, þar sem að ekki eru til sérstök lög um þær. Björg Thorarenssen lagaprófessor segir að án slíkra laga sé ekki hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, því enginn fordæmi eru fyrir hendi um framkvæmdina, til dæmis þarf að ákveða hvort eitthvað ákveðið lágmark atkvæðisbærra manna þarf að taka þátt og líka hvort einfaldur meirihluti ráði.

Ef forsetinn skrifar ekki undir, þarf því að kalla þing saman og það tekur sinn tíma, Davíð er því búinn að stilla bæði forsetanum og stjórnarandstöðunni upp að vegg og hefur gert forsetanum enn erfiðara að beita synjunarvaldinu. Þess vegna er nokkuð ljóst að erfitt verður að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarpið samhliða forsetakosningunum í lok júní. Þetta er plott Davíðs.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.