Lekur öryggisventill

Margir hafa sagt málskotsrétt forseta vera mikilvægan öryggisventil. Ekki skal neita því að þörf er á tækjum til sem vernda eiga þjóðir gegn ofríki þingmeirihluta. Núverandi fyrirkomulag er því miður ófrágengið og því ólíklegt að það mundi vernda okkur gegn ógnarstjórn, ef til þess kæmi.

Mörg ríki, sama hve þingræðisleg þau eru, hafa einhvers konar tæki sem hindrað geta, eða a.m.k. frestað gildistöku laga. Kjörtímabil löggjafarsamkunda eru nefnilega löng, oft 4-5 ár og á þessum tíma getur jafnvel „lýðræðislega kjörið“ þing framkvæmt slíkan ófögnuð að ekki verður aftur snúið. Víða hafa menn því komið fyrir ýmsum aukastoðum: efri deild,neitunarvaldi forseta, þjóðatkvæðagreiðslu eða frestunarvaldi dómara. Þetta gera menn minnugir þess að jafnvel Hitler náði völdum með því að tryggja sér meirihluta á lýðræðislega kjörnu þingi.

Í slíkum aukastoðum felst engin ógn við lýðræðið. Þvert á móti. Þær öryggisstofnanir sem hér voru nefndar eiga sjaldnast sjálfar að eiga frumkvæði að lagasetningu, Þeirra hlutverk er einungis að koma í veg fyrir gildistöku laga sem þær telja hættuleg. Enda væri það óþægilegt að vita að einfaldur meirihluti nægði til að segja skilið við hina frjálslyndu stjórnarhætti og koma á fasistastjórn.

Vissulega getur það gerst að slíkir öryggisventlar séu ekki aðeins notaðir til að standa vörð um lýðræði og frjálslyndi heldur einnig í popúlískum og pólitískum tilgangi. Þetta getur til dæmis leitt til þess að nauðsynleg en óvinsæl frumvörp nái ekki fram að ganga. En ókostirnir eru smávægilegir í samanburði við þá aukavörn gegn einræði og kúgun sem öryggisventlarnir veita.

Þannig hafa höfundar flestra lýðræðislegra stjórnarskráa, þar á meðal hinnar íslensku, metið það; og ég er sammála þeim.

En algjörlega án tillits til hve vond eða slæm nýsett fjölmiðlalög eru og hversu vel eða illa neitunarvaldsleikfangið henti til að vera prófað á þeim þá sýnir umræðan undanfarna daga að núverandi fyrirkomulag á neitunarvaldi forsetans mundi veita okkur afar lítið skjól gegn þingmeirihluta sem vildi þjóðinni illt.

Sleppum nú aðeins öllu samsæriskjaftæði og áttum okkur á einu: Núverandi ríkisstjórn Íslands er ekki harðstjórn. Ríkisstjórn Íslands mundi ekki reyna að falsa kosningar sér í vil eða fangelsa stjórnarandstæðinga fyrir skoðanir þeirra.“Valdþreyta. Pirringur. Óvönduð vinnubrögð.“ Allt í lagi. Segi hver það sem honum finnst. En Ríkisstjórn Íslands er ekki harðstjórn.

Jafnvel hin fullkomlega löglega og ótýraníska Ríkisstjórn Íslands dregur í efa að forsetinn hafi yfir höfuð neitunarvald. Því hefur verið haldið fram að valdið sé hjá ráðherra. Hve auðvelt yrði það þá meirihlutastjórn Fasistaflokksins og Rasistaflokksins að halda slíku fram? Þyrfti þá ekki að kalla saman Landsdóm til að dæma viðkomandi ráðherra fyrir brot á Stjórnarskránni? Og hver á að gera það? Þingið!

Jafnvel ef Fasistaflokkurinn og Rasistaflokkurinn féllust á að málskotsrétturinn væri gildur þá mundi það lenda á þeim að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem framundan væri. Einnig má sjá að orðalagið „eins fljótt og auðið er“, gefur nú alveg færi á misnotkun.

Alveg óháð hver niðurstaða alls þessa hasars verður þá er nauðsynlegt að skýra þetta atriði. Annað hvort þarf að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur í kjölfar neitunar forseta eða setja inn annan öryggisventil í staðinn fyrir þann sem nú er.

Það er nefnilega óheppilegt að neitunarvaldið skyldi vera háð geðþótta og duttlungum þess sem verið er beita því gegn.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.