Hagnaður bankanna

Er þörf á frekari skýringum?

Kannski væri nærri lagi að Kauphöllin setti reglur um framsetningu ársreikninga þar sem farið væri fram á nánari sundurliðun kostnaðar og tekna til að endurspegla sem best mismunandi starfsemi bankanna?

Eins og flestum er kunnugt skiluðu stóru bankarnir þrír methagnaði á fyrsta ársfjórðungi ársins eða samtals um 11,4 milljörðum króna. Þar af skilaði Íslandsbanki um 4,6 milljörðum, Landsbankinn um 4,1 milljarði og KB banki um 2,7 milljörðum, allt eftir skatta. Í framhaldi af því hafa ýmsir spurt sig hvort þetta væri ekki of mikill hagnaður.

Sigurjón Árnason Landsbankastjóri, sagði aðspurður að það væri ekkert til sem væri of mikill hagnaður. Það er að vissu leyti rétt og virðingarvert ef mönnum tekst að hagnast mikið á því að kaupa og selja fyrirtæki með hagnaði eins og fjárfestingarbankastarfsemin gengur að mestu leyti út á. Á slíkri starfsemi er líklega aldrei hægt að græða of mikið, fari menn eftir settum reglum. Flest bendir einnig til þess að meginhluti hagnaðar Íslandsbanka og Landsbanka á fyrsta ársfjórðungi hafi átt rætur sínar í þeirri starfsemi. Þar skiluðu sala og leikfléttur Landsbankans annars vegar með Burðarás og Íslandsbanka hins vegar með Straum mjög góðum arði.

Það eru þó ekki allir sammála Sigurjóni og mörgum hefur blöskrað þessi mikli hagnaður bankanna. Þeir hinir sömu saka þá um okurþjónustugjöld og of háan vaxtamun sem almenningur í landinu þarf að sætta sig við. Séu þessar ásakanir réttar, þ.e. að í skjóli fákeppni og stærðar séu bankarnir að hagnast um of, að þá vissulega hefur Sigurjón rangt fyrir sér – bankarnir eru þá að græða of mikið. Sér til varnar benda bankarnir á að hagnaðurinn myndist í fjárfestingabankastarfseminni en ekki viðskiptabankastarfseminni og vísa í ársreikninga því til staðfestingar. En er það rétt?

Það er ákaflega erfitt að segja til um það og líklega vita vonlaust fyrir leikmann, eins og mig, að meta það. Framsetning ársreikninga bankanna er á þann veg að enginn skil eru milli fjárfestingabanka- og viðskiptabankastarfsemi. Tekjuhliðin er sundurliðuð í hreinar vaxtatekjur og svo aðrar tekjur sem samanstanda yfirleitt af gengishagnaði, þjónustutekjum og ýmsum tekjum. Gjaldahliðin er einfaldari, þar eru yfirleitt bara tveir liðir: laun og tengd gjöld og annar rekstrarkostnaður.

Það er því gjörsamlega ómögulegt að lesa út úr þessum árshlutareikningum hver raunverulegur hagnaður af viðskiptabankastarfseminni er samanborið við fjárfestingabankastarfsemina. Kannski væri nærri lagi að Kauphöllin setti reglur um framsetningu ársreikninga þar sem farið væri fram á nánari sundurliðun kostnaðar og tekna til að endurspegla sem best mismunandi starfsemi bankanna?

Þetta myndi auðvelda fjárfestum að meta mismunandi fjárfestingarkosti og greina á milli vel rekinna og illa rekinna fjármálastofnanna. Enn fremur er það mikilvægt fyrir fjárfesta að átta sig á því hvar tekjurnar myndast og á móti hvar kostnaðurinn liggur. Að lokum myndu slíkar reglur, hafi bankarnir rétt fyrir sér eins og flest bendir til, sefa þær raddir sem benda á óhemju mikinn hagnað bankanna og kenna um of háum vaxtamun og þjónustutekjum.



Árshlutauppgjör KB banka

Árshlutauppgjör Landsbankans

Árshlutauppgjör Íslandsbanka

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)