Hálsbindabakteríur

Þegar kemur að bakteríusýkingum erum við næsta varnarlaus. Þær eru alls staðar, alltaf. Það er engu að síður heldur ógeðfelld tilhugsun að vita til þess að í 50% tilvika má finna gróðrastíu sjúkdómsvaldandi baktería í hálsbindum lækna.

Þegar kemur að bakteríum erum við með öllu varnarlaus. Við sjáum þær ekki, skynjum þær ekki nema í gegnum veikindi af þeirra völdum, og þær eru bókstaflega allsstaðar. Með þessa vitneskju horfir maður engu að síður helst til sjúkrahúsa sem ,hreinna’ umhverfis en gengur og gerist og gerir ráð fyrir að húsnæði og starfslið sé allt að því dauðhreinsað.

En það er öðru nær. Á sjúkrahúsi í New York kviknaði hjá nokkrum læknanemum í stofugangi hugmynd eftir að þeir sáu ítrekað hálsbindi læknanna strjúkast utan í sjúklingana meðan á skoðun stóð. Þeir ákváðu að taka bakteríusýni af hálsbindum lækna. Sýnin ræktuðu þeir upp og vöxturinn lét ekki á sér standa. Af 42 sýnum teknum úr jafnmörgum bindum kom í ljós að um helmingur þeirra innihélt bakteríur sem geta valdið alvarlegum sjúkdómum eins og lungnabólgu eða blóðsýkingum.

Í framhaldi hefur vaknað umræða um það hvort læknar ógni ekki beinlínis heilsu sjúklinga með því einu að ganga með bindi. Á móti kemur nefnilega að sýnt hefur verið fram á að það að ganga með bindi leggji áherslu á fagmennsku viðkomandi, og auki til muna tiltrú sjúklings á lækninn. Enn frekar kom í ljós að á meðan helmingur lækna valsaði um ganga spítalans með bakteríugróðrastíu framan á sér, greindist aðeins einn af hverjum tíu öryggisvarða spítalans með einhverjar bakteríumeinsemdir utan á sér.

Meðal þeirra baktería sem fundust voru Klebsiella pneumoniae sem getur valdið lungnasýkingum, og Staphylococcus aureus sem m.a getur valdið alvarlegum sýkingum í blóði. Afbrigði af S.aureus er einmitt lyfjaþolna sjúkrahúsbakterían, betur þekkt á engilsaxnesku sem MRSA (Methicillin resistant Staphylococcus aureus) en hún er ónæm fyrir flest öllum sýklalyfjum og því illviðráðanleg. Hálsbindabakteríurnar reyndust þó í þessum tilvikum engar af þeirri gerðinni. Samskonar rannsóknir hafa reyndar áður verið gerðar á farsímum lækna og hlustunarpípum þeirra og reyndust vænar bakteríuuppsprettur vera á hvoru tveggja.

Líklegast verður þetta ekki umflúið enda bakteríuflóra alls staðar, alltaf. Það er hinsvegar óheppilegt að einstaklingurinn sem gengur milli sjúkra beri með sér þær bakteríur sem eru að valda sjúkdómum.

En hvað með bindið? Hvort skal hætta á minnkaða tiltrú á lækni og mögulega skáka fagmannlegu yfirbragði hans….eða minnka líkurnar á því að smita sjúklinga af bakteríum eins og t.d umræddum MRSA!? Flestum ætti að þykja svarið liggja í augum uppi en um þetta er samt sem áður rætt.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.