Rússland: er vilji fyrir breytingum?

Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 töldu margir tíma lýðræðis, mannréttinda og alþjóðasamvinnu runninn upp í Rússlandi. En sú varð ekki raunin. En hvers vegna ekki?

Richard Pipes prófessor við Harvard háskóla hefur varið stórum hluta sinnar starfsævi í rannsóknir á Sovétríkjunum, og nú á síðari tímum Rússlandi. Hann ritar grein í síðasta tölublað tímaritsins Foreign Affairs er nefnist “Flight From Freedom: What Russians Think and Want”. Í þeirri grein teiknar hann upp mynd af rússneskri „þjóðarsál“, út frá hinum ýmsu könnunum er gerðar hafa verið.

Pipes greinir frá því að þegar Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 hafi margir talið tíma lýðræðis, mannréttinda og alþjóðasamvinnu runninn upp í Rússlandi. En sú varð ekki raunin. Hvorki Boris Yeltsin né Vladimir Putin síðar hafa flutt nein fjöll er þetta varðar. En hvers vegna ekki? Pipes sýnir fram á að skoðanakannanir bendi til þess að ekki sé verið að þröngva núverandi stjórnskipulagi upp á þegna landsins. Hvað þá að því sé tekið opnum örmum. Sem dæmi má nefna að skoðanakönnun sýndi fram á að aðeins einn af hverjum tíu Rússum lét sig lýðræði einhverju varða.

Pipes ályktar út frá sögulegum staðreyndum að Rússar kjósi ráðríki framar réttarríki og lýðræði. Það þekki þeir. Hann telur að Rússar tengi sterka stjórn við einræði og eins flokks kerfi af sögulegum ástæðum og ber fyrir því góð rök. En lýðræði leiði af sér í þeirra huga veikt ríkisvald – stjórnleysi.

Þær kannanir er Pipes tekur mið af auka ekki bjartsýni þeirra er aðhyllast lýðræði og mannréttindi. Yfir helmingur Rússa taldi lýðræðið hafa slæmar afleiðingar í för með sér. 82% töldu sig ekki hafa nein áhrif á stjórnmál, álit þeirra var að fámennar og öflugar klíkur stjórnuðu landinu. Er kemur að frelsi vildu 88% Rússa fremur skipulag og stöðuleika en frelsi. Líklegast hefur enginn predikað yfir þeim að þjóðfélagið geti verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Sem dæmi um hversu frelsið er fótum troðið má nefna að í viðtali við Financial Times sagði Alexander Yakovlev, sem er einn höfunda perestroika stefnunnar, að í seinustu þingkosningum árið 2003 hafi enginn þeirra flokka sem unnu einu sinni nefnt orðið frelsi! Öll slagorð sigurvegaranna voru um bönn og refsingar. Það er sama hvert er litið, réttarríkið virðist ekki innan seilingar. Rússar trúa því almennt að hægt sé að kaupa niðurstöður dómstóla, þeir kjósa því helst ekki að fara þá leið. Traustið á stofnunum ríkisins er nánast ekkert. Þeir eru almennt á móti einkaframtakinu og einungis 25% telja eignarréttinn til mannréttinda. Það eina sem eykur bjartsýni frjálslyndra manna er að yngri kynslóðir Rússa eru jákvæðari í garð markaðshagkerfisins en þeir eldri.

Er kemur að öðrum þjóðfélagsháttum sést að Rússar vilja aftur tilheyra stórveldi. Pipes nefnir eina könnun er sýndi að 78% sjá Sovét-tímann í dýrðarljóma. Önnur sýndi fram á að 48% vildu að Rússland yrði þekkt fyrir að vera „máttugt og ósigrandi heimsveldi“. Á meðan einungis 1% vildu að Rússland væri þekkt fyrir löghlýðni og lýðræði. Rússar líta á Bandaríkin, NATO, „Oligarkana“, bankamenn, lýðræðissinna og íslamska öfgamenn sem óvini sína.

Pipes segir réttilega að niðurstöðurnar gefi ekki mikla von um bjartsýni. Hann segir að Putin eigi hægt en örugglega eftir að breyta Rússlandi aftur í eins flokks ríki. Hann þurfi ekki að gera það með illu þar sem meirihluti landsmanna vilji það. Það er kerfið sem þeir þekkja. Pipes segir að ef Putin haldi áfram að koma vilja fjöldans í verk sé það eitt eftir að koma upp sterkum her – og það muni hann að lokum gera.

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)