Ranghugmyndir ráðamanna

Nú líður að lokum þinghalds og Alþingi kemur ekki saman á ný fyrr en í október. Oft gýs upp umræðan um að stytta eigi frítíma þingsins – en slík umræða byggist á þeim misskilningi að þingmenn framleiði verðmæti í vinnunni sinni. Oftast nær er hið gagnstæða staðreynd.

Nú líður að þinglokum en eins og flestir vita hafa störf þingsins tafist nokkuð upp á síðkastið. Til stóð að senda þingmenn heim í byrjun maí og boða þá aftur í byrjun október. Mörgum finnst þetta langt frí.

Reglulega skapast umræða um það í fjölmiðlum, meðal þingmanna og almennnings að starfstími þingsins sé of skammur. Því er haldið fram að það sé „tímaskekkja” að þingið sé ekki starfrækt allt árið og stundun freistast menn til að hneykslast á því hversu mikinn „frítíma” alþingismenn hafa, bæði í kringum hátíðir og á sumrin.

Sennilega er ástæða þess að mörgum finnst óeðlilegt að þingmenn séu í þinginu svo lítinn hluta ársins sú að „venjulegt” fólk er vant því að skapa verðmæti í vinnunni sinni. Fólk sem vinnur í verslun eða á verkstæði gerir sér grein fyrir skaðanum sem hlýst af því ef menn mæta ekki í vinnuna. Sjómenn og útgerðarmenn átta sig á því að það þarf að veiða fiskinn á meðan hægt er að komast að honum – annars syndir hann bara sinn sjó og afrakstur vertíðarinnar sömuleiðis.

En þetta gildir ekki um starf stjórnmálamanna. Það er nefnilega ekki eins og hinir ágætu þingmenn okkar séu að framleiða einhver sérstök verðmæti. Stundum, og jafnvel oftast, eru þeir beinlínis að skemma verðmæti og sóa þeim – og ef þeir eru ekki að skemma eða sóa verðmætum þá má ganga nokkurn veginn út frá því sem vísu að þeir séu í það minnsta að tala um að skemma verðmæti eða leggja fram tillögur um sóun þeirra.

Vera má að þetta helgist að því að mjög fáir þingmenn og ráðherrar hafa hina minnstu reynslu af því að skapa raunveruleg verðmæti – flestir þeirra hafa varið flestum fullorðinsárum sínum í einhvers konar stofnunum og opinberum fyrirtækjum. Þeir hafa fæstir þurft að sleppa því að borga sjálfum sér laun til þess að geta staðið skil á opinberum gjöldum og við starfsmenn sína. Þeir þekkja ekki nema af afspurn vandann sem skuldseigur eða gjaldþrota viðskiptavinur veldur.

En venjuleg fyrirtæki búa ekki við þessa forréttindaaðstöðu og það er dapurlegt ef stjórnmálamenn átta sig ekki á þessum muni á sínu eigin umhverfi og því sem fyrirtæki á frjálsum markaði búa við. Stjórnmálamenn eiga jafnvel til að rugla þessu tvennu saman og yfirfæra lífsreynslu sína úr ríkisgeiranum á hinn frjálsa markað. Í slíkum heimi er ekkert mál að segja – til dæmis vegna fjölmiðlafrumvarpsins – að „ef Baugur getur átt Stöð tvö þá hljóta að vera fullt af öðrum fyrirtækjum sem geti það einnig” eða að „úr því Fréttablaðið gengur svona vel þá ætti Baugi ekki að vera skotaskuld úr því að finna kaupanda.”

Svona málflutningur hefur komið úr ótrúlegustu áttum upp á síðkastið. Til dæmis hefur frjálshyggjumaðurinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson haldið þessu fram í frægu viðtali á Stöð 2 (þið munið – þar sem hann lagði áherslu á hættuna sem yrði því samfara ef Jón Ásgeir Jóhannesson eignaðist Ríkissjónvarpið).

Í stað þess að trúa á niðurstöðu hins frjálsa markaðar virðist Hannes hafa breyst í einhvers konar forræðisfrjálshyggjumann. Hann, og aðrir stuðningsmenn fjölmiðlalaganna, virðast telja að það sé jafneinfalt að búta sundur fyrirtæki með höftum eins og flytja ríkisstofnun á milli húsa. Þeir virðast trúa því að óendanlegur sjóður af fjársterkum aðilum, sem ekki eru markaðsráðandi, berist á banaspjót um að eignast fyrirtæki úr því að þeir aðilar sem nú ráða þar för telji sig geta rekið það með hagnaði.

Með sama hugsunarhætti væri hægt að setja Kára Stefánsson yfir Hagkaup og Jón Ásgeir Jóhannesson yfir Decode – eða Gunnar Smára Egilsson yfir álverið í Straumsvík og Rannveigu Rist yfir Fréttablaðið – án þess að það hefði hin minnstu áhrif á rekstur þessara félaga.

Svona trakteringar kunna að duga í hugarheimi stjórnmálamanna þar sem mönnum eru fundin embætti á grundvelli einhvers allt annars en hæfni þeirra. Einn verður sendiherra, annar verður seðlabankastjóri og hinn þriðji verður ríkisforstjóri – án þess að högg sjái á vatni. En, eins og áður sagði, þá eru stjórnmálamenn ekki beinlínis þekktir af því að skapa verðmæti.

Þess vegna er gott að vita af því að þeir séu bráðum að fara heim. Skaðinn verður þá ekki meiri í bili.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.