Ísland þarf að axla ábyrgð

Íslensk stjórnvöld studdu innrásina í Írak. Þetta leiðir af sér að stjórnvöld hérlendis hafa ríkari skyldu en ella til þess að láta til sín heyra vegna fregna um hrottalega meðferð hernámsliðsins á föngum sínum.

Uppbygging lýðræðis og vernd mannréttinda er það sem mest áhersla hefur verið lögð á sem forsendur Íraksstríðsins eftir að ákveðið var að hætta við að réttlæta stríðið með gereyðingarvopnaeign og hryðjuverkaógn. Hafa Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson þannig ítrekað vísað til ógnarstjórnar Saddam Hussein þegar gagnrýni á stuðning Íslands við hernám Íraks hefur borið á góma.

Þeir eru fáir sem efast um að átyllur Bandaríkjamanna um nauðsyn stríðsrekstrar hafi verið hæpnar. En stuðningsmenn stríðsins létu það ekki hindra sig því margir gátu með framsækinni túlkun á mannréttindum komist að þeirri niðurstöðu að stríð gegn Írökum væri réttlætanlegt út frá mannúðarsjónarmiðum. „Frelsun” Íraks var nú stríð háð á grundvelli mannréttinda til að bjarga íbúum Íraks frá hinni illu ógnarstjórn. Þeir sem efuðust um þetta voru sagðir aðhyllast „friðkaup” við Saddam Hussein.

Saddam Hussein var harðstjóri og stóð ógnarstjórn hans fyrir morðum og pyntingum sem íbúa vestrænna lýðræðisríkja hryllir við. Menn voru fangelsaðir án dóms og laga og látnir dúsa þar án réttarhalda. Írakar hafa nú verið „frelsaðir” undan Saddam Hussein og heimurinn hefur fylgst með því hvernig hinir vestrænu frelsarar hafa gjörbylt ástandinu í Írak þannig að nú þarf enginn Íraki lengur að óttast óréttlæti, pyntingar, hungur eða dauða af hendi innlendra stjórnvalda. Eða hvað?

Á síðustu vikum og mánuðum hefur sannleikurinn um frelsun Íraks verið að koma sífellt betur í ljós. Menn eru enn fangelsaðir án dóms og laga. Myndir af pyntingum og niðurlægingu fanga sýna svo mikla hugmyndaauðgi í mannvonsku og illsku að jafnvel sonur Saddams,Uday Hussein, hefði verið fullsæmdur af.

Innrásin í Írak var ekki réttlætanleg. Stríð í skjóli lyga og rangtúlkana er stríð sem aldrei er hægt að verja með rökum og stuðningur íslensku ríkisstjórnarinnar við stríðið voru mistök.

Þeir sem nú fremja ódæði á Írökum í fangelsum eru ekki bara nafnlausir amerískir og breskir hermenn. Þeir eru fulltrúar þeirra ríkja sem studdu innrásina í Írak. Þeir eru menn á vegum ríkisstjórna Bandaríkjanna og Bretlands sem héldu af uppi hernað meðal annars með stuðningi íslenskra stjórnvalda.

Til eru þeir sem halda því fram að með því að taka afstöðu með Bandaríkjunum í upphafi stríðsins hafi Ísland verið að axla alþjóðlega ábyrgð. Verið var að styðja afnám ógnarstjórnar í Írak. Nú hljóta þessir sömu menn, ætli þeir að vera samkvæmir sjálfum sér, að viðurkenna ábyrgð sína á þeim hryllingi sem komið hefur í ljós.

Halldór Ásgrímsson var bersýnilega sleginn yfir þeim fregnum sem borist hafa í sjónvarpsfréttum í gær. Sökum þeirrar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að styðja innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak hvílir skýlaus skylda á íslenskum stjórnvöldum að láta til sín taka til þess að leiðrétta það óréttlæti sem dunið hefur á írösku þjóðinni undir formerkjum frelsis og mannréttinda.

Jafnvel þótt Deiglan hafi verið ósammála hernaðinum í Írak hefur sú forsenda alltaf verið álitin sjálfsögð að íslensk yfirvöld hafi talið sig hafa skotheld rök fyrir stuðningi við stríðið. Nú hljóta þær forsendur, hverjar sem þær voru, að vera brostnar.

Ekki er nóg að lýsa ítrustu andúð okkar á því framferði sem bandarískir og breskir hermenn hafa orðið uppvísir af. Samþykki íslenskra stjórnvalda fyrir hernaði í Írak í nafni frelsis, mannréttinda og öruggari heims gera það að verkum að við berum ábyrgð. Okkur ber að viðurkenna mistökin og læra af þeim. Taka ábyrga afstöðu og líða ekki kúgun og mannréttindabrot – hvort sem að stjórn Saddam Hussein eða George Bush á í hlut.

Halldóri Ásgrímssyni væri því sómi af því að gera stjórnvöldum í Bandaríkjunum og Bretlandi fyllilega ljóst – og það opinberlega – að með því að koma ekki í veg fyrir hryllingin í Abu Ghraib fangelsinu hafi þau brugðist því trausti sem íslensk stjórnvöld sýndu þeim.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)