Mogginn í ham

Í umræðum um fjölmiðlafrumvarp forsætisráðherra hefur mikið verið rætt um fréttaflutning fjölmiðla og miðlar Norðurljósa verið sakaðir um að veitast að pólítískum andstæðingum sínum á ómálefnalegan hátt. Tímarit Morgunblaðsins hefur greinilega ákveðið að vera ekki eftirbátur keppinauta sinna í þeim efnum, frekar en öðrum.

Þegar pistlahöfundur tók upp Tímarit Morgunblaðsins fyrir rúmri viku síðan og renndi yfir fyrri hluta yfirlitsgreinar um forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar brá honum nokkuð að sjá tón greinarinnar, sem átti að heita yfirlit yfir feril Ólafs Ragnars sem forseta. Greinin hét „Þjóðhöfðingi með einum eða öðrum hætti“, og lýsing á forsetanum, strax í upphafi meginmáls var eftirfarandi „Þessi hái, granni silfurrefur með vandlega hannaðar bylgjur í vel greiddu hárinu, pírir á okkur augun í sjónvarpinu um leið og hann tjáir sig …“. Þegar skimað er hratt yfir greinina blasa við dylgjur og undarlega orðaðar lýsingar, þar sem milli línanna má lesa neikvæða afstöðu blaðsins til Ólafs, án þess að greinin viðurkenni nokkurn tíma þá afstöðu.

Það er þó alls ekki svo að ekki séu settar fram jákvæðar hliðar á Ólafi í greininni. Þegar greinin er lesin öll í gegn er hún um margt fróðleg greining á forsetaferli hans og þegar sett eru fram neikvæð viðhorf er þess gætt að andstæð viðhorf fái að njóta sín. Enda á það við um allan góðan áróður að boðskapurinn er settur fram undir rós, svo erfitt er að benda á einstök dæmi um ómálefnalegan málflutning.

En ekki ómögulegt. Eitt slíkt dæmi er undirkaflinn „Sagan og sérstaðan“, sem hefst á orðunum „Ólafur Ragnar var því ekki kosinn af meirihluta Íslenskra kjósenda“. Vissulega er það rétt, hann fékk 41.4% atkvæða, sem er ekki hreinn meirihluti. En, eins og tekið er fram í greininni hefur aðeins einn íslenskur forseti verið kjörinn með hreinum meirihluta. Hvers vegna þarf að taka fram að Ólafur hafi ekki verið kosinn af meirihluta kjósenda? Og eru þetta svo mikilvægar upplýsingar að nauðsynlegt sé að hefja undirkaflann á því að greina frá þessu?

Þegar greinin er skoðuð með það fyrir augum að greina í hverju áróðursgildi hennar liggur, er ljóst að það er að mestu leyti í umbrotinu og valinu á fyrirsögnum og tilvitnunum, sem eru í yfirgnæfandi meirihluta neikvæðar gagnvart Ólafi. Yfirlit yfir ræðudagskrá forsetans fyrri hluta ársins 2002 er til dæmis titlað „Ræður á ræður ofan“, og nokkur dæmi um tilvitnanir sem slegið er fram með stóru letri eru:

„Hugmyndin um framboð Ólafs Ragnars Grímssonar til embættis forseta Íslands átti því að verða eins konar varða á leið vinstrimanna til sameiningar …“

„Þannig leiddi af sjálfu sér að væri Ólafur Ragnar kjörinn forseti Íslands yrði það embætti í hans huga aðalembættið í landinu …“

„Hér er því hætta á stjórnskipulegri kreppu í landinu með öllum þeim ágreiningi, upphlaupum og jafnvel upplausn sem hún gæti haft í för með sér …“

Niðurlag greinarinnar er svo eftirfarandi: „Þetta var einhver vandræðalegasta uppákoma sem menn hafa orðið vitni að þótt ásetningurinn hafi verið góður“.

Hér hefur verið stiklað á stóru, enda grein Morgunblaðsins ansi löng. Finnist einhverjum að ekki séu hér færð fram þau rök sem dygðu til sakfellingar í réttarsal, þarf það ekki að koma á óvart. Því þótt afstaðan sem lesa mátti út úr greininni hafi verið dagljós hverjum þeim sem vildi sjá hana, er erfitt að henda reiður á því nákvæmlega hvernig henni var lýst.

Davíð Oddssyni forsætisráðherra er því ákveðin vorkunn yfir þeirri frústrasjón sem grípur hann þegar hann er spurður nákvæmlega hvernig fjölmiðlar Norðurljósa séu að leggja hann í einelti. Því þótt afstaða þeirra fjölmiðla gagnvart Davíð sé nákvæmlega jafnljós og afstaða Tímarits Morgunblaðsins gagnvart Ólafi Ragnari, er þeirra áróður fagmannlega fram settur, rétt eins og greinin um Ólaf.

En Davíð verður bara, engu síður en Ólafur, að sætta sig við það að sumir fjölmiðlar eru á móti honum. Áróður á borð við þann sem allir stóru íslensku fjölmiðlarnir standa í er einfaldlega hluti af lýðræðinu. En það er líka hluti af lýðræðinu að benda á slíkan áróður og minna fólk á að þótt Mogginn ljúgi aldrei, þá segir hann samt stundum ekki allan sannleikann.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)