Hjálmar fálmar

Samvinnufélögin til bjargar!

Samvinnufélögin til bjargar!Ég hef staðið í þeirri trú að á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar hafi viðskipta- og athafnalíf á Íslandi færst úr viðjum stjórnamálamanna og hafta í frjálsræðisátt. Áður var Sambandið fyrirtækið á Íslandi og Kaupfélögin, félög fólksins, voru ráðandi á matvörumarkaði.

Samvinnufélögin til bjargar!Ég hef staðið í þeirri trú að á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar hafi viðskipta- og athafnalíf á Íslandi færst úr viðjum stjórnamálamanna og hafta í frjálsræðisátt. Áður var Sambandið fyrirtækið á Íslandi og Kaupfélögin, félög fólksins, voru ráðandi á matvörumarkaði. Gjaldeyrisviðskipti voru bundin höftum og skömmtun á gjaldeyri til ferðalanga var staðreynd. Ríkið hafði einkaleyfi á innflutningi á eldspýtum og rak tvo af stærstu bönkum landsins, skipafélag, útgerðir og fleira. Ég hef líka staðið í þeirri trú að á þessu tímabili hafi átt sér stað einar mestu framfarir í viðskiptalífinu í sögu okkar ungu sjálfstæðu þjóðar. Í þriðja lagi hef ég haldið að það væri rík sátt um þessa þróun og að þessar breytingar hafi skilað sér í miklu meiri hagvexti og hagsæld fyrir þjóðina alla en annars hefði mátt vænta.

En viti menn. Þeir eru til sem eru á öndverðum meiði. Það er í sjálfu sér viðbúið að á meðal tæplega 300.000 Íslendinga séu til menn með aðrar skoðanir. Það sem mér þykir hins vegar verst er að sumir þeirra sitja á hinu háa Alþingi. Í Morgunblaðinu í gær reifaði Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, þær hugmyndir sínar að endurvakning samvinnufélaganna væri það sem koma skyldi. Hann lýsti því yfir að stofnun samvinnufélaga til annast ýmiss konar rekstur s.s. matvöruverslun hlyti að vera fýsilegur kostur á tímum einokunartilburða ákveðinna aðila.

Ég skil ekki hvernig Hjálmari dettur það í hug að rekstur þeirra geti gengið upp í dag. Er það ekki augljóst að tilraunin um Kaupfélögin mistókst? Þau enduðu flest í gjaldþroti eða í það minnsta miklum erfiðleikum. Þessi ást Framsóknarmanna á samvinnufélags- og sjálfseignarstofnanarekstrarforminu er ótrúleg. Þeir eru litlu skárri en gamlir kommúnistar sem enn þá trúa því að þeirra hugmyndafræði sé sú rétta þó svo að sagan hafi sýnt það margsinnis að tilraunir að slíku þjóðfélagsmynstri gengu ekki upp, sbr. Sovétríkin sálugu, Austur-Þýskaland, Tékkóslóvakíu og fleiri lönd.

Hugmyndin um að samvinnufélögin deili arðinum aftur til þeirra sem eiga hann skilið, þ.e. samfélagsins, er enn þá rík í Hjálmari. Í hversu mörgum tilvikum hefur það gengið eftir? Gott dæmi er Kaupfélag Árnesinga sem í fyrra tapaði hundruðum milljóna á ótrúlegum hugmyndum um hótelrekstur á Selfossi. Þar hefði verið nær að deila þeim arði til samfélagsins eða bændanna sem lögðu til stofnfé í upphafi. En nei, það er nefnilega hægara sagt en gert að gera það. Þeim sem komast í þær álnir að stjórna þessu, annarra mann fé, hættir til að spila með þessa peninga á allt annan hátt en ef þeir væru þeirra.

Á meðan allt viðskiptalífið og aðilar á fjármagnsmarkaði reyna að telja Alþingismönnum trú um að Sparisjóðafyrirkomulagið sé úrelt og gangi ekki upp til lengdar kemur Hjálmar og mjálmar: “Fleiri samvinnufélög, fleiri sparisjóði – því það rekstrarform tryggir neytendum besta verðið”. Hjálmar minn, hvernig færðu það út? Ertu sem sagt að halda því fram að litlu landsbyggðarsparisjóðirnir séu fullfærir um að keppa við Kb banka, Íslandsbanka og Landsbanka í vaxtamálum og þjónustu? Heldurðu því fram að lítil Kaupfélög geti keppt við Baug og Kaupás í verðum og þjónustu? Hjálmar hvernig ætlarðu að fjármagna nýju Kaupfélögin? Þú verður að athuga að öll fjármögnun krefst arðs af rekstrinum, bæði eigin fjármögnun og lánsfjármögnun. Þannig að samvinnufélagsformið er ekki leið án fjármagnskostnaðar.

Hjálmar, ég geri mér grein fyrir því að þessi hugmynd þín er að vissu leyti komin upp vegna yfirburðastöðu Baugs á matvörumarkaði. Ég held hins vegar að það sé ekki rétt sem þú segir að með því að tryggja ákveðinn lágmarksfjölda aðila á markaðinum sé samkeppnin tryggð. Þú verður að taka inn í myndina að Ísland er ákaflega lítið markaðssvæði, um 200 sinnum minna en Bretland sem þú nefnir til samanburðar. Fastur rekstrarkostnaður er einfaldlega hærra hlutfall af tekjum en á stærri mörkuðum. Þetta m.a. gerir það að verkum að markaðurinn ber ekki meira en kannski 2-3 stóra aðila. Ef þú vilt tryggja hámarkssamkeppni er leiðin ekki sú að stuðla að endurvakningu samvinnufélaga sem mun enda með ósköpum, heldur miklu frekar að sníða leikreglurnar að þeim agnarsmáa markaði sem er til staðar á Íslandi.

Ég vona svo sannarlega að þessar hugmyndir háttvirts þingmanns Suðurlandskjördæmis hljóti ekki frekari hljómgrunn, hvorki innan hans flokks né hins háa Alþingis. Ég held í það minnsta að það sé löngu orðið tímabært að Framsóknarmenn breyti nafni flokksins í eitthvað meira lýsandi. Hvernig hljómar Þursaflokkurinn?

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)