Hermdarverkin í Madríd

Íbúar Spánar vöknuðu upp við skelfilegan draum í gærmorgun þegar í ljós kom að hryðjuverkamenn höfðu sprengt tíu sprengjur í lestum eða á brautarstöðvum í Madríd. Árásin hafði greinilega þann tilgang að valda sem mestum skaða því sprengingarnar urðu á annasamasta tíma dagsins. Árásin undirstrikar hlutverk löggæslu fremur en hernaðar í vörnum gegn hryðjuverkum.

Spænski fáninn blaktir við hálfa stöng á aðaltorginu í Madrid.

Íbúar Spánar vöknuðu upp við skelfilegan draum í gærmorgun þegar í ljós kom að hryðjuverkamenn höfðu sprengt tíu sprengjur í lestum eða á brautarstöðvum í Madríd. Árásin hafði greinilega þann tilgang að valda sem mestum skaða því sprengingarnar urðu á annasamasta tíma dagsins. Á brautarstöðvunum og í lestunum var venjulegt fólk á leið til vinnu eða skóla, börn, konur og menn. Um 200 manns létust en sú tala á eflaust eftir að hækka. Hátt á annað þúsund særðust en raunveruleg fórnarlömb eru hins vegar mun fleiri.

Fjölskyldur og vinir þeirra sem létust eða særðust fá auðvitað samúð flestra sem og Spánverjar allir. Fyrir tæpum þremur árum fylgdist heimsbyggðin með því í beinni útsendingu hvernig almenningur í Bandaríkjunum brást við árásum á Tvíburaturnana. Í dag hafa sjónvarpsstöðvar heimsins sýnt okkur myndir af hundruðum þúsunda Spánverja ganga eftir götu Madrídar með aðeins eitt í huga. Fordæmingu þeirra sem stóðu að árásunum. Deiglan tekur undir slíka fordæmingu, ekki aðeins í þessu tilviki, heldur í hvert sinn sem sprengjum er beint gegn óbreyttum borgurum.

Þótt ekki sé vitað hverjir voru að verki beinast spjótin vissulega að ETA, aðskilnaðarhreyfingu Baska. Þá hafa komið fram vísbendingar um að al Kaída, samtök Osama Bin Ladens, hafi verið að verki. Raunar vekur það spurningar að tilræðið er ekki dæmigert fyrir hermdarverk ETA og fyrirvara verður að setja við þá tilkynningu sem barst bresku dagblaði að al Kaída hafi lýst ábyrgð á hendur sér, enda eru engin dæmi þess að al Kaída lýsi yfir ábyrgð á hryðjuverkum og nota hópar, sem tengjast al Kaída sjaldnast það nafn þegar þeir fjalla um sjálfa sig.

En hver sem var hér að verki þá gefur árásin Vesturlöndum óþægilega en þó þarfa áminningu. Hryðjuverkamenn nútímans búa fæstir í hellum Afganistan eða skógum Suður-Ameríku. Þeir þekkja til aðstæðna í þeim löndum þar sem hryðjuverkin eru framin.

Á undanförnum árum hefur ráðamenn greint á þegar rætt er um öryggis- og varnarmál. Talsmenn hins hefðbundna hernaðar benda á nauðsyn þess að geta brugðist við ógnum annarra ríkja. Einnig sé nauðsynlegt að geta sent hermenn til friðargæslustarfa, hvort heldur sem er í nágrannaríkjum eða í öðrum heimshlutum. Síðustu árin hafa þessir einstaklingar því miður fengið allt of mörg tækifæri til að sanna sitt mál. Allt of mörg segjum við, vegna þess að styrjaldir eru ávallt skelfilegar, hvort sem hægt er að réttlæta þær í augum fólks eða ekki. En sífellt fleiri atvik gefa það til kynna að fjármunum væri betur varið annars staðar, nefnilega í hefðbundna löggæslu sem beinist fremur að mögulegum árásum innanlands.

Síðustu vikur og mánuði hafa spænsk og frönsk stjórnvöld unnið í sameiningu að því að uppræta ETA með góðum árangri. Fjölmargir hafa verið handteknir og reyndar hefur hin almenna tilfinning verið sú að samtökin hafi misst áhrifavald sitt. Árásin í gær gæti verið eins konar síðasta tilraun samtakanna til að láta að sér kveða; nokkurs konar dauðastuna.

Þá hefur sú kenning skotið upp kollinum að hér sé um að ræða samvinnu ETA og al Kaída, eða að ETA hafi notið óbeins stuðnings aðila sem tengjast samtökunum. Slík samvinna hryðjuverkasamtaka er alls ekki óþekkt enda virðist hún þjóna tilgangi þeirra beggja. Al Kaída hefur áður lýst því yfir að Spánn og önnu ríki sem studdu innrásina í Írak eigi eftir að finna fyrir refsivendi þeirra.

Á næstu árum hlýtur það að vera eðlileg krafa að lögregla sé í stakk búin til að bregðast við áður en sprengjurnar springa. Reyndar mætti ganga svo langt og segja að það sé óviðunandi að hægt sé að koma fjölmörgum sprengjum fyrir í lestarvögnum, strætisvögnum eða almenningsbyggingum þar sem von er á fjölda fólks. Þegar óvinurinn er kominn inn fyrir múrana duga orustuþotur og flugskeyti skammt. Við verðum að geta treyst sérhæfðum löggæslusveitum sem eru í stakk búnar til að bregðast við áður en hann lætur til skarar skríða.

Árásin í Madríd beindist einnig að sjálfu lýðræðinu, hornsteini vestrænnar siðmenningar. Þingkosningar á Spáni eru fyrirhugaðar á sunnudag og því greinilegt að tilræðismennirnir vilja hafa áhrif á þær með beinum hætti. Viðbrögð almennings á Spáni virðast hins vegar benda til þess að þeim verði ekki að ósk sinni.

Deiglan sendir samúðaróskir til þeirra sem eiga um sárt að binda.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)