Risinn

Í dag var greint frá því í helstu fjölmiðlum landsins að líklegast mundi Enski boltinn færast yfir á SkjáEinn á næsta ári. Þetta hlýtur að vera mikið áfall „fjölmiðlarisann mikla“ sem á víst að vera allsráðandi á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Í dag var greint frá því í helstu fjölmiðlum landsins að líklegast mundi Enski boltinn færast yfir á SkjáEinn á næsta ári. Þetta hlýtur að vera mikið áfall „fjölmiðlarisann mikla“ sem á víst að vera allsráðandi á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Enski boltinn hefur verið sannkallað flaggskip Norðurljósa. Hann hefur verið algjör uppistaða í dagskrá Sýnar og það er ólíklegt að stöðin mundi halda í marga áskrifendur með boxinu og kláminu einu saman. Niðurstaðan er því eins og áður sagði áreiðanlega hrein martröð fyrir stjórnendur samsteypunnar og raunar ótrúlegt að þeir hafi látið þetta renna sér úr greipum og enda ljóst tilvist Sýnar hangir á bláþræði í kjöfarið.

En svona er nú markaðurinn og stundum bjóða sumir einfaldlega betur en aðrir.

Það er hins vega eitt skondið við þetta allt saman. Nei, ekki bara skondið heldur bara ógeðslega fyndið. Á meðan að heil nefnd, skipuð af forsætisráðherra, situr að störfum til að koma með tillögur um hvernig leysa skuli upp „fjölmiðlaveldi Baugsfeðga“ þá geti hinn mikli risi ekki einu sinni haldið Enska boltanum og missi hann yfir til fámennrar auglýsingastöðvar.

En væntanlega hefur risinn þagað málið í hel til að komast hjá neyðarlegri umfjöllum um sjálfan sig, eða hvað?

DV, einn fótur risans, birti forsíðufrétt um málið, daginn eftir stærstu hryðjuverk í Evrópu í tuttugu ár. Það er í sjálfu sér dálítið skrýtið forsíðuval og rennir stoð undir grun minn að DV ætlar sér svipaða stöðu í fjölmiðlaheiminum og dálkurinn „Skrýtna fréttin“ í Fréttablaðinu.

En hvað um það, þessi atburðir sýna bara ágætlega að tilraunir til að líkja saman fjölmiðlarisanum hinum íslenska við fyrirtæki Berlusconis og heimfæra þannig einhver Miðjarðarhafsvandamál yfir á íslenskan veruleika eru byggðar á afar veikum grunni.

En úr hverju er þessi íslenski risi samsettur? Sjónvarpssviði hans sem gengið hefur mjög misjafnlega milli ára, stundum hefur það skilað hagnaði, oftast tapað, en allavega þá er vart að sjá að um arðrænandi peningamáskínu sé að ræða. Og svo eru það dagblöðin tvö, DV og Fréttablaðið, sem hafa skapað sér einokunarstöðu á markaðnum milli þess sem þau verða gjaldþrota. Til skiptis.

Áhyggjur um einokunarstöðu Risans á íslenskum fjölmiðlamarkaði eru stórlega orðum auknar eins og dæmið með Enska boltann sýnir. Ég tel að mikið þurfi að gerast til að þörf sé á sérstökum lögum um eignaraðild á fjölmiðlum – lýðræðinu til bjargar.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.