Einkarekstur – Nýjar leiðir

Á allra síðustu árum hefur færst í vöxt hér á landi að einkaaðilar taki að sér að veita þjónustu sem ríki og sveitarfélög hafa fram til þessa annast. Ef vel tekst til eiga allir hlutaðeigandi að geta hagnast á einkaframkvæmd eða með öðrum aðferðum þar sem rekstarleg ábyrgð er færð frá hinu opinbera til einkaaðila.

Á síðustu dögum hefur verið talsverð umræða um að hraða verði uppbyggingu Sundabrautar. Sú leið sem nú helst er rædd til þess að ná fram auknum verkhraða er að beita aðferðum einkaframkvæmdar en það hefur verið gert með góðum árangri við rekstur Hvalfjarðarganga.

Lengi vel voru aðferðir einkaframkvæmdar fyrst og fremst notaðar í samgöngumálum. Það hefur tíðkast áratugum saman að hraðbrautir á meginlandi Evrópu séu fjármagnaðar og reknar af einkaaðilum, enda hentar það einkar vel á þessu sviði. Um er að ræða rekstur sem krefst umfangsmikillar fjárfestingar sem hefur langan líftíma.

Á allra síðustu árum hefur færst í vöxt hér á landi að einkaaðilar taki að sér að veita þjónustu sem ríki og sveitarfélög hafa fram til þessa annast. Almenningur gerir sífellt meiri kröfur til fjölbreytni á opinberri þjónustu, en jafnframt er ætlast til meiri skilvirkni og hagkvæmni. Það er útbreidd skoðun að einkarekstur búi yfir þekkingu og reynslu í rekstri sem nýta megi við almannaþjónustu.

Í samræmi við þessa þróun hafa ýmis rekstrarverkefni verið flutt til einkaaðila með útboðum. Sem dæmi um einkarekstur hérlendis, ásamt Hvalfjarðargöngum, má nefna Iðnskólann í Hafnarfirði, fjölmarga leiksskóla, Reykjaneshöllina, knattspyrnuhús í Grafarvogi, heilsugæslustöð í Salahverfi og uppbyggingu á rannsóknar- og nýsköpunarhúsi á Akureyri ásamt fjölmörgum öðrum verkefnum.

Einkaframkvæmd felur það í sér að ríkið gerir samning við einkaaðila um að veita tiltekna þjónustu. Flestri þjónustu sem, sem ríkið fjármagnar og veitir, geta einkaaðilar sinnt. Ýmis þjónusta ríkisins á sér hliðstæðu við það sem þekkist á einkamarkaði og í vaxandi mæli hafa afmarkaðir rekstrarþættir verið færðir einkaaðilum. Venjulega er um að ræða verkefni sem krefjast umtalsverðar fjárfestingar og er samningstíminn að jafnaði nokkuð langur. Ríkið skilgreinir þá þjónustu sem það vill veita, og býður hana svo út. Niðurstaða þess útboðs er svo samningur um þjónustu.

Í orðræðu stjórnmálanna hefur lengi gætt þess misskilnings að einkaframkvæmd sé það sama og einkavæðing, en það er fjarri öllum sannleika. Einkavæðing felur í sér að verkefni eru flutt alfarið til einkaaðila þannig að þeir fái full yfirráð. Einkaframkvæmd er því ólík einkavæðingu að því leyti að hið opinbera hefur áfram afskipti af verkefninu með skilgreiningu á þjónustunni og eftirliti með því að skilmálum samnings sé fylgt.

Ein grunnforsenda einkaframkvæmdar er sú að þeir aðilar sem að samningnum koma njóti allir ávinnings af samstarfinu. Einnig krefst sú ákvörðun ríkisins að fela einkaaðila tiltekið verkefni undir formerkjum einkaframkvæmdar viðamikils undirbúnings þar sem allar hliðar eru gaumgæfilega rannsakaðar. Til að árangur náist þurfa leikreglur að vera skýrar á milli þeirra aðila sem í hlut eiga. Ekki er tryggt að hagkvæmt sé að láta öll verkefni ríkisins til einkaaðila sem einkaframkvæmdarverkefni.

Ef vel tekst til eiga allir hlutaðeigandi að geta hagnast á einkaframkvæmd eða með öðrum aðferðum þar sem rekstarleg ábyrgð er færð frá hinu opinbera til einkaaðila. Samningur um einkaframkvæmd felur í sér hvata fyrir einkaaðilann til að veita góða þjónustu í samræmi við verklýsingu yfir allan samningstímann. Fyrir opinbera aðila, og raunar allan almenning, eru áhrifin þau það hægt er að auka þjónustuna fyrir sama fé eða veita sömu þjónustu fyrir minni kostnað en ef henni væri sinnt af hinu opinbera. Þá dregur þetta úr fjárbindingu hins opinbera og skapar ný tækifæri fyrir atvinnulífið til vaxtar.

Sjá einnig:

Viðhorfsbreyting til jarðganga og Tákngervingur um afl einkaframtaksins

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.