Rúv hf.

Á Alþingi eru hafnar umræður um frumvarp þriggja sjálfstæðismanna um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Í meginatriðum gengur frumvarpið út á að auka skilvirka samkeppni á fjölmiðlamarkaði með því að breyta stofnunnni í hlutafélag og að efna til opins útboðs um gerð og dreifingu dagskrárefnis.

Á Alþingi eru hafnar umræður um frumvarp þriggja sjálfstæðismanna um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Í meginatriðum gengur frumvarpið út á að auka skilvirka samkeppni á fjölmiðlamarkaði með því að breyta stofnunnni í hlutafélag og að efna til opins útboðs um gerð og dreifingu dagskrárefnis. Hugmyndin er svo að starfsmenn Rúv hafi forkaupsrétt á allt að 50% hlutafjár í Rúv hf., á 30% hagstæðara verði, en afgangurinn verði seldur almenningi.

Óhætt er að segja að skiptar skoðanir séu í þjóðfélaginu um tilgang og réttmæti Ríkisútvarpsins. Líklega eru flestir þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að á landinu sé til óháð ríkisstofnun sem sjái öllum Íslendingum fyrir innlendri dagskrárgerð og virki jafnframt sem öryggistæki þegar aðstæður krefja. Aðrir vilja að stofnunin verði einkavædd sem fyrst í þeim tilgangi að koma á frjálsri samkeppni á fjölmiðlamarkaði enda óeðlilegt að ríkið hafi afskipti af rekstri sem einkaaðilar geta fullkomlega komið að.

Pistlahöfundur á erfitt með að taka undir skoðanir fyrrgreinda hópsins og finnst vandséð að það sé yfirhöfuð nauðsynlegt að ríkið reki fjölmiðil. Það er erfitt að verja það að stofnun á vegum þess sé að selja auglýsingar í samkeppni við einkaðila og noti auk þess fé sem fengið er með skylduáskriftum til að bjóða betur í erlent dagskrárefni en samkeppnisaðilarnir. Öryggissjónarmiðið er eflaust eitthvað sem þarf að hafa í huga, þó það sé ekki augljóst, en hægt er að tryggja það á margvíslegan hátt annan en með því að reka sjónvarps- og útvarpsstöðvar.

Skylduáskriftin að Rúv er svo sér kapítuli út af fyrir sig. Það er eiginlega ótrúlegt að á 21. öldinni sé fólk skyldað til að greiða ákveðinni stofnun peninga ef það hefur áhuga á því að eignast sjónvarpstæki. Það er erfitt að réttlæta þau lög með lýðræðislegum og trúverðugum rökum. Sem betur fer gera menn sér grein fyrir því að þetta ástand verður ekki líðandi öllu lengur og því eru uppi hugmyndir um að breyta þessu. Þær hugmyndir virðast þó nær allar snúa að því að setja stofnunina á fjárlög eða fjármagna reksturinn með því að setja á sérstakan nefskatt.

Báðar þessar hugmyndir eru arfaslakar og vonandi að þær verði ekki að veruleika. Hættan er nefnilega sú, komist Rúv á fjárlög, að þá verði ekki aftur snúið. Stofnunin mun þróast, eins og ríkisstofnunum hættir til að gera, í að verða eins konar ofátssjúklingur þar sem reksturinn gengur út á að auka útgjöldin og starfsemina eins og frekast er kostur án þess að hafa eiginleg markmið að leiðarljósi. Hvatinn til aðhalds og sparnaðar er hverfandi og innri smákóngabarátta leiðir ávallt til þess að stofnunin þenst út, langt út fyrir þann ramma sem henni var upphaflega settur. Auk þessa er áhyggjuefni að ítök og völd stjórnmálamanna í stofnuninni aukist, sem er óhjákvæmilegt, verði svona hugmyndir að veruleika.

Erfitt er að taka undir rök um að stjórnmálamönnum sé betur treystandi fyrir því að tryggja frjálsan og óháðan fjölmiðil en einkaaðilum. Það er allavega staðfest að þeir eru verri í að reka fyrirtæki en einkaðilar. Bankar undir stjórn stjórnmálamanna þar sem flokkslínur réðu mestu um það hverjir fengu fyrirgreiðslur og svo þær breytingar til batnaðar, sem orðið hafa á fjármagnsmarkaði með einkavæðingu bankanna, ættu að styðja við hugmyndir þeirra sem vilja einkavæða Rúv. Fjölmiðlamarkaðurinn er í sjálfu sér ekkert frábrugðin öðrum mörkuðum sem við treystym einkaaðilum fullkomlega til að sjá um. Við treystum einkaðilum t.d. fyrir því að framleiða lyf, til að lána okkur peninga og til að tryggja okkar dýrmætustu eignir. Það að menn telji einhverja hættu á því að misyndismenn notfæri sér fjölmiðla í eigingjörnum tilgangi eru ekki rök með ríkisrekstri fjölmiðla. Það væri miklu eðlilegra og réttlátara að reyna að koma í veg fyrir slíkt með því að sníða ákveðinn lagaramma um fjölmiðlarekstur m.a. með takmörkun og eða upplýsingaskyldu um eignarhald þeirra.

Það er því mikið fagnaðarefni að þetta frumvarp um breytingar á Rúv skuli koma fram núna. Það gengur ekki eins langt og margir hefðu viljað sjá í algjöru afskiptaleysi ríkisins af fjölmiðlarekstri og dagskrárgerð. Það hins vegar brúar bil beggja: það kemur til móts við þá sem vilja tryggja vandaða og góða innlenda dagskrárgerð, því er ætlað að stuðla að því að dreifikerfið nái til allra Íslendinga, það stuðlar að aukinni samkeppni á fjölmiðlamarkaði þar sem ríkið mun hverfa frá auglýsingasölu og einokun Rúv á niðurgreiddri innlendri dagskrárgerð verður aflétt. En það fylgir böggull skammrifi, það er nefnilega gert ráð fyrir því að persónuafsláttur lækki (nefskattur á launamenn) til að fjármagna rekstur útvarpsráðs.

Því miður er ákaflega ólíklegt að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi. Það er hins vegar nauðsynlegt að opna þessa umræðu og gott til þess að vita að á Alþingi sitji menn sem vilji færa Ríkisútvarpið og fjölmiðlamarkaðinn í nútímalegra horf.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)