Alþingi svívirt

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttur, formaður allsherjarnefndar Alþingis, heldur því fram að allsherjarnefnd hafi fengið fullnægjandi svör við spurningum nefndarinnar um öryggisviðbúnað í tengslum við heimsókn forseta Kína og aðgerðir gagnvart fylgismönnum Falun Gong á fundi allsherjarnefndar Alþingis í fyrradag. Deiglan fjallar ítarlega um málið.

Það var ljótt að heyra til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í fréttunum í gær og fyrradag þar sem hún hélt því fram fullum fetum að allsherjarnefnd hefði fengið fullnægjandi svör við spurningum nefndarinnar um öryggisviðbúnað í tengslum við heimsókn forseta Kína og aðgerðir gagnvart fylgismönnum Falun Gong á fundi allsherjarnefndar Alþingis í fyrradag.

Það kom nefnilega fram á fundinum að eitt stærsta viðfangsefni öryggisgæslunnar hafi verið að tryggja að forseti Kína yrði ekki fyrir hugarangri. Þetta er stórmerkilegt í ljósi þess að andleg líðan eins manns getur aldrei fallið undir áskilnað um almannahagsmuni og/eða öryggi ríkisins. En það er algjört skilyrði fyrir þær íþyngjandi aðgerðir lögreglu og stjórnvalda sem við fengum að kynnast í kringum heimsóknina að almannahagsmunir eða öryggi ríkisins hafi krafist þeirra. Hugarangur getur ekki fallið undir þessi skilyrði. Aldrei! Ekki nema að menn séu orðnir svo firrtir að halda að mótmælin myndu fá svo mikið á greyið manninn að hann myndi fyrirskipa allherjar innrás í landið í kjölfar heimsóknarinnar. Bara þessar upplýsingar einar og sér hefðu átt að vera nægilegar til að allherjarnefnd hefði haldið fyrirspurnum sínum áfram.

En það var fleira athyglisvert við fundinn. Fulltrúar lögreglunnar í Reykjavík sáu ekki ástæðu til að mæta á fundinn þrátt fyrir að hafa verið sérstaklega boðaðir af allsherjarnefndinni. Þetta þýddi að allsherjarnefnd fékk engar upplýsingar t.d. um uppruna svörtu listanna, ástæður þess að lögreglan reyndi að fela mótmælin, ofbeldinu og offarinu gagnvart mótmælendum. Einnig, sem er ekki síður mikilvægt, þá gat hún ekki spurt um þann einkennilega móral sem virðist hafa ríkt innan lögreglunnar í Reykjavík en eins og hefur komið á daginn þá virðast einstakir lögreglumenn hafa verið duglegir við að senda ósvífna tölvupósta til útlanda og einnig eru óstaðfestar fréttir af því að hringt hafi verið í einstaka mótmælendur og/eða þeim send SMS og þeim hótað. Maður hefði haldið að það yrði allt vitlaust í lýðræðisríki ef fulltrúar lögreglu myndu neita að mæta fyrir þingið en svo virðist ekki vera raunin hér á landi. Formaður nefndarinnar ásamt meirihluta hennar gera engar athugasemdir við þetta.

Ég held að það efist enginn um það gífurlega tjón sem þessi heimsókn hefur valdið landi og þjóð. Við brutum mannréttindi á innlendum og erlendum borgurum sem kollvarpaði þeirri ímynd sem margir Íslendingar hafa haft til þessa af íslenskum stjórnvöldum og því þjóðfélagi sem við búum í. Við höfum komist í heimspressuna fyrir skoðanakúgun og mannréttindabrot og það er hægara sagt en gert að þurrka þann smánarblett af landinu. Forseti Kína hefur verið eins og krabbamein sem eitrar allt sem hann snertir og krabbinn heldur áfram að skaða land og þjóð, löngu eftir að forsetinn er farinn.

Og krabbameinið er komið inn á Alþingi. Þegar Þorgerður Katrín og félagar í allsherjarnefnd leyfa fulltrúum lögreglunnar að komast upp með að mæta ekki fyrir nefndina og lýsa því yfir að fullnægjandi svör séu komin fram þá eru þau að vanvirða og gengisfella allsherjarnefndina og Alþingi. Í nafni hvers gera þau það? Jú, til að halda áfram vitleysunni og feluleiknum sem hefur einkennt einn versta atburð frá stofnun lýðveldisins þ.e. framgöngu og hroka íslenskra stjórnvalda og embættismanna við heimsóknina. Þeir þingmenn sem taka þátt í þessu ættu að skammast sín. Það er ekkert sem segir að flokkshollusta nái yfir það að svívirða Alþingi. Er yfirhilming mannréttindabrota, hroki stjórnvalda og yfirgangur íslenska ríkisins þess virði? Þorgerður Katrín, er það virkilega þess virði?

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.