Byggðasósíalismi FIFA

Þáttur dómara á heimsmeistaramótinu í Japan og Suður-Kórea er nú undir smásjánni eftir hneykslanlega frammistöðu þeirra í nokkrum leikjum mótsins. Gagnrýnendur beina einkum sjónum sínum að leikjum heimamanna í Suður-Kóreu gegn stórveldunum þremur; Portúgal, Ítalíu og Spáni. Enginn hefði trúað því fyrirfram að suður-kóreska liðinu tækist að leggja þessa þrjá risa að velli hvern á fætur öðrum, en sú er orðin raunin.

Þáttur dómara á heimsmeistaramótinu í Japan og Suður-Kórea er nú undir smásjánni eftir hneykslanlega frammistöðu þeirra í nokkrum leikjum mótsins. Gagnrýnendur beina einkum sjónum sínum að leikjum heimamanna í Suður-Kóreu gegn stórveldunum þremur; Portúgal, Ítalíu og Spáni. Enginn hefði trúað því fyrirfram að suður-kóreska liðinu tækist að leggja þessa þrjá risa að velli hvern á fætur öðrum, en sú er orðin raunin.

Víst er að lið Suður-Kóreu er mjög gott og að hinn hollenski þjálfari þess, Gus Hiddink, sem stýrði Hollendingum í undanúrslitin í síðustu keppni, hefur náð makalausum árangri með liðið. En sú spurning hlýtur hins vegar að vakna, í kjölfar afar afdrifaríkra ákvarðana af hálfu dómara í áðurnefndum leikjum, hvort heimamönnum sé á einhvern hátt hyglað af dómurunum í keppninni. Hvort hér leynist óhreint mjög í pokahorninu skal ósagt látið, en ef ekki er beinlínis um meðvitað svindl að ræða, þá er hér á ferðinni dæmalaust fúsk í dómgæslu.

Þegar dómarar eru gagnrýndir fyrir störf sín eru ýmsir málsmetandi menn gjarnan fljótir til svara. Viðkvæðið er þá jafnan að dómarar þurfi að taka ákvarðanir á örskotsstundu og að enginn sé fullkominn. Auðvitað eru dómarar ekki fullkomnir og vissulega þurfa þeir að taka erfiðar ákvarðanir. En við skulum ekki gleyma því að heimsmeistaramótið í fótbolta á að vera keppni þeirra bestu, og engir nema þeir bestu geta dæmt í keppni þeirra bestu.

Í viðleitni sinni til að breiða knattspyrnuna út til fjölmennra menningarsvæða á borð við Asíulöndin fjær, Afríku og Norður-Ameríku, hefur Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) beitt því sem kalla mætti byggðasósíalisma. Þannig er settur kvóti á einstakar heimsálfur og ákveðinn fjöldi liða frá hverri heimsálfu kemst í lokakeppnina, sem fyrir vikið er ekki endilega keppni 32 bestu liða í heimi. Reyndar hafa lið frá ofangreindum heimsálfum komið á óvart í keppninni og það sýnir kannski ávöxt þessarar útbreiðslustefnu FIFA. Aðrar skýringar hafa einnig heyrst, t.a.m. að þessi lið, einkum S-Kórea, hafi fengið miklu meiri tíma til undirbúnings og hvíldar en evrópsku liðin.

En byggðasósíalismi FIFA er ekki bundinn við úrtökumótin, heldur grasserar hann einnig í vali á dómurum. Þannig eru það ekki bestu dómarar heims sem dæma í keppni þeirra bestu, heldur bestu fulltrúar hvers heimshluta. Afleiðingin er augljós; vanhæfni og fúsk, eins og annars staðar þar sem tilbrigði við sósíalisma eru reynd. Sem betur fer hefur FIFA nú viðurkennt villu sína og snúið á rétta braut. Það er nokkuð skondið að forseti FIFA þurfi að gefa út sérstaka yfirlýsingu um nýtt stefnumið: að í framtíðinni verði þeir bestu valdir til að dæma.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.