Glæsileg umfjöllun um Ísland

Ég er búsettur erlendis og síðustu daga hef ég þurft að svara spurningum hneykslaðra útlendinga um aðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn iðkendum Falun Gong. Sem betur fer hafði þó enginn þeirra heyrt það sem Davíð Oddson lét hafa eftir sér í íslenskum fjölmiðlum.

Ég hef verið búsettur í Bandaríkjunum að mestu síðustu sex ár. Þegar ég er spurður hvaðan ég sé og svara Íslandi eru viðbrögð viðmælenda minna oftast þau sömu. Þeir reka í fyrstu upp stór augu og segjast aldrei hafa hitt Íslending áður. Síðan segja þeir mér frá því að þeir hafi einu sinni flogið til Evrópu með Flugleiðum og hvað Flugleiðir sé dásamlega ódýrt flugfélag. Þá bendi ég þeim iðulega á að Flugleiðir sé ódýrt fyrir alla nema Íslendinga. Síðan berst talið stundum að Íslenskri erfðagreiningu. Stundum er maður hins vegar beðinn um að kenna viðkomandi að bera fram nafn höfuðborgarinnar og ótrúlega oft er maður spurður hvort það sé ekki rétt að Ísland sé grænt en Grænland ísi lagt.

Síðustu vikuna hafa viðbrögð fólk hins vegar verið á allt aðra lund. Fólk rekur reyndar enn upp stór augu þegar það heyrir að ég sé frá Íslandi. En síðan hefst það handa við að segja manni frá því að það hafi nýlega lesið grein um það hvernig ríkisstjórn Íslands hafi meinað bandarískum ríkisborgurun sem eru meðlimir í Falun Gong að koma til landsins upp á síðkastið. Sem betur fer er fólk fremur illa að sér um þetta mál. Þótt greinar um málið hafi birst í flestum af stærstu dagblöðum Bandaríkjanna (New York Times, Washington Post, Boston Globe, Los Angeles Times, o.s.fr.) þá voru greinarnar oftast nær fremur stuttar og innihaldslitlar. Megininntakið í þeim flestum er að íslensk stjórnvöld hafi virst heldur skömmustuleg þegar þau voru spurð út í ástæður þessara aðgerða.

Þannig skrifar til dæmis New York Times: “They had valid American passports. They had paid for their tickets. So the State Department wants to know why dozens of Americans were turned away at airports around the United States this week when they tried to fly to Iceland. The department said today that it was asking Iceland’s government for an explanation of why it had ordered the state airline, Icelandair, to refuse passage to American citizens who appeared on a list of followers of the Falun Gong spiritual movement. The government of Iceland has an explanation, though it seems a little embarrassed to offer it. Although Iceland takes pride in free-speech traditions that date from 930, the government does not want protests to interfere with the visit this week of the Chinese president, Jiang Zemin, Iceland’s ambassador to Washington said. China has branded Falun Gong an „evil cult.“ Mr. Jiang is scheduled to remain in Iceland through Sunday.” Glæsileg umfjöllun, ekki satt?

Sem betur fer hafði þó ekkert blaðana þýtt það sem Davíð Oddsson lét hafa eftir sér í íslenskum fjölmiðlum þessa daga. Svo sem það að: „Við heimilum ekki að Flugleiðir taki fólk hingað, sem er á þessum tiltekna tíma komið í ákveðnum tilgangi, sem er andstæður því sem hentar íslenskum stjórnvöldum um þessar mundir.” Þessi frasi hefið ábyggilega hljómað heldur illa á ensku.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.