Úr einu í annað

Þankar manns með janfebógleði

bjor3.jpgHvað sem öðru líður er það fyrirtakshugmynd að skála í dag: fyrir afmælisbarninu og fyrir því að loksins hyllir undir vorið, þó svo að ávallt geti brugðið til beggja vona þegar veðrið á í hlut. Verst að enn er ekki hægt rölta út í kjörbúð og kaupa sér einn kaldan til að skála með afmælisbarninu. Pistlahöfundur vonaðist til að geta gert það á fimmtán ára afmælinu en verður líklega að bíða a.m.k. fram að því sextánda.

bjor3.jpgEftir annasama tíma sem náðu hámarki um jólin þarf fólk að gíra sig niður. Þetta er áberandi á öllum sviðum mannlífsins, það ríkir ládeyða og svo virðist sem allir geri ráð fyrir því að á þessum árstíma nenni enginn að gera nokkurn skapaðan hlut. Sem dæmi má nefna að næturlífið í Reykjavík er ekki svipur hjá sjón miðað við aðra tíma ársins og í bíóhúsum borgarinnar er fátt annað en annars flokks myndir sem ekki hafa þótt nógu góðar til að frumsýna á besta tíma, þ.e. um jól eða sumar.

Veðrið spilar sitt hlutverk af stakri snilld, tíu stiga gaddur og skafrenningur einn daginn og þann næsta rignir eins og það sé hellt úr fötu. Fólki hrýs hugur yfir tilhugsuninni um að fara út úr húsi, það hrjúfrar sig frekar heima í sófa undir tólf flísteppum, með eyrnaskjól og horfir á DVD eða klárar að lesa bækurnar sem það fékk í jólagjöf. Það eru því eflaust margir sem deila þeirri hugmynd með pistlahöfundi að janúar og febrúar séu ákaflega tíðindasnauðir og allt að því leiðinlegir mánuðir. Þeir sem eru þessarar skoðunar þjást af svo kallaðri janfebógleði.

En þeir sem eru sniðugir kunna að gera janfebógleðina að sinni féþúfu. Í brunagaddi í febrúarbyrjun fékk pistlahöfundur hvorki fleiri né færri en fimm sólstrandarbæklinga inn um bréfalúguna. Nú átti að notfæra sér að janfebógleðin væri í hámarki og telja landanum trú um að handan við þessu dimmustu og köldustu mánuði ársins biðu gullnar strendur og steikjandi sól í fjarlægu landi. Tímasetningin var fullkomin og mætti halda að ferðaskrifstofurnar hafi verið í beinu sambandi við Sigga storm með það að leiðarljósi að fresta útgáfu þessara bæklinga þar til veðurguðirnir hámörkuðu vanþóknun sína á Frónbúanum.

Íslendingar féllu fyrir þessu í tonnatali, ekki furða enda lifum við fyrir ókomna tíma. Við stöndum ávallt í þeirri trú að betri tímar séu framundan, við hljótum að vera bjartsýnasta fólk í heimi. Eftir að álverið rís verður gaman að lifa, segja austfirðingar. Flestir aðrir þurfa þó ekki nema smá sólarglætu og rauða hitatölu, þó hún eigi langt í land með að vera tveggja stafa, til að lífið verði skemmtilegra. Þá setja þeir upp sólgleraugun, fara í stuttermabolinn og kaupa sér ís á Ingólfstorgi. Á kvöldin eru svo grillaðar SS-pylsur skjálfandi á beinunum, grillóðasta þjóð í heimi. Bjartsýnin segir okkur það að eftir ömurlega upphafsmánuði ársins að þá eigum við það fyllilega skilið að gera okkur góðan dag um leið himinninn glæðist.

En nú eru breyttir tímar. Það er kominn mars eftir óvenju langan febrúar mánuð. Loksins hyllir undir betri tíð með bjór í haga – sæta lánga sumardaga. Vorið er framundan, daginn er tekið að lengja á ný og Frónbúinn skálar fyrir betri tímum með afmælisbarni dagsins. Já, hann er 15 ára í dag, landsins forni fjandi sem enginn má tala um en allir þrá. Það má selja hann og það má kaupa hann – sums staðar. Það má ekki auglýsa hann eða tala um hann opinberlega, í það minnsta ef það telst óheppilegt af heilsufarsástæðum. Stjórnarskráin okkar leyfir nefnilega að skerða málfrelsi manna ef heilsufarsástæður mæla með því, sama hvað það nú nákvæmlega þýðir en vissara að fara varlega í þessum efnum.

Hvað sem öðru líður er það fyrirtakshugmynd að skála í dag: fyrir afmælisbarninu og fyrir því að loksins hyllir undir vorið, þó svo að ávallt geti brugðið til beggja vona þegar veðrið á í hlut. Verst að enn er ekki hægt rölta út í kjörbúð og kaupa sér einn kaldan til að skála með afmælisbarninu. Pistlahöfundur .vonaðist til að geta gert það á fimmtán ára afmælinu en verður líklega að bíða a.m.k. fram að því sextánda. Það er allavega líklegra að með komu nýrrar kynslóðar inn á Alþingi gæti þetta mál farið að hreyfast. En þangað til það gerist munu birtast svona pistlar á Deiglunni í kringum 1. mars ár hvert. Megi Alþingi forða lesendum frá þeim leiðindum hið fyrsta. Skál!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)