Ralph Nader farinn fram

hospitality.jpgRalph Nader hefur lýst því yfir að hann ætli að bjóða sig fram til forseta sem óháður frambjóðandi. Það segir svolítið um bandarísk stjórnmál að fylgið sem Ralph Nader fékk fyrir 4 árum síðan er svipað fylginu sem Ástþór Magnússon fékk í forsetakosningunum 1996. Svo mikil eru áhrif þriðju framboða á bandarísk stjórnmál.

hospitality.jpgRalph Nader hefur lýst því yfir að hann ætli að bjóða sig fram til forseta sem óháður frambjóðandi. Það segir svolítið um bandarísk stjórnmál að fylgið sem Ralph Nader fékk fyrir 4 árum síðan er svipað fylginu sem Ástþór Magnússon fékk í forsetakosningunum 1996. Svo mikil eru áhrif þriðju framboða á bandarísk stjórnmál.

Þetta mun vera í 3. skipti sem hinn sjötugi Nader býður sig fram til forseta, en fyrstu tvö skiptin fór hann fram fyrir Græningjaflokkinn. Nú býður hann sig hins vegar fram sem óháður frambjóðandi. Töluverð læti hafa verið í kringum Nader að undanförnu og hafa ýmsir Demokratar lagt hart að Nader að bjóða sig ekki fram til að skemma ekki fyrir væntanlegum frambjóðanda þeirra.

Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt að menn reyni hvað sem þeir geti til að hámarka líkur á sigri frambjóðanda síns. En rökin fyrir um að „mikið sé í húfi“ eru það kjánaleg að Nader eða hver annar óháður frambjóðandi væri hálfviti ef hann mundi gleypa við þeim.

Stjórnmálaflokkar eru stofnaðir til að ná völdum. Þeir einstaklingar sem taka þátt í stjórnmálaflokki gera með sér samning um að þeir sameinist um að einhverjir þeirra komist til áhrifa og vinni að hugsjónum hinna. Það er því rökrétt að tveir einstaklingar í sama framboðinu bjóði sig ekki fram í kosningum þar sem aðeins einn nær kjöri. Það mundi minnka líkur þeirra beggja á sigri.

Hins vegar er auðvitað út í hött að krefjast þess að einhver annar, utan við flokkinn taki á sig þá ábyrgð að tryggja kjör einhverra einstaklinga innan hans. Hvað ætti hann svo sem að hafa á því að græða? Nákvæmlega ekki neitt. Það er skrýtið að sakast 2,74% jaðarframbjóðanda í stað þess að líta á aðra, augljósari, þætti eins og asnalegt kosningakerfi, atkvæðisréttarsviptingu fyrrverandi fanga, sem kemur illa niður á þeldökkum Bandaríkjamönnum, og auðvitað klúður Demokratanna sjálfra.

Í öðru lagi hafa litlir flokkar í Bandaríkjunum víða ekki neitt val um hvort þeir bjóði fram eða ekki. Stór hluti baráttu þeirra snýst bara um það að fá að koma frambjóðendum sínum á kjörseðilinn og um það að þeir fái að auðkenna sig með þeim flokki sem þeir tilheyra. Stóru flokkarnir tveir hafa sniðið kosningalöggjöf að sínum þörfum og gert allt til að hindra uppgang annara framboða. Skilyrðin fyrir því hvað telst vera „Major Party“ eru breytileg eftir fylkjum en fjöldi atkvæða í seinustu forsetakosningum kemur þar oft við sögu. Ef flokkur mundi ekki bjóða fram í forsetakosningum mundi hann geta dottið út kjörseðlunum í næstu kosningum þar á eftir.

Það er reyndar af þessari ástæðu sem margir Græningjar geta ekki hugsað sér að missa af Ralph Nader í þessari baráttu enda ljóst að frambjóðandi Græningja mun fá lítið fylgi ef hann býður fram samhliða Ralph. Sjálfur gefur Nader upp þá skýringu að Græningjaflokkurinn haldi ekki landsfund sinn fyrr en í sumar og hann vildi byrja fyrr. Hins vegar hefur flokkurinn ekki mikið val um þessa dagsetningu sökum lagasetningar í mörgum fylkjum, og þetta veit Nader væntanlega. Aðalástæðan er væntanlega sú að hann telji geta náð til fleiri kjósenda ef hann býður sig fram sem óháður frambjóðandi enda hefur slíkum frambjóðendum oftast vegnað betur en frambjóðendum smáflokka. En er þó stór hópur Græningja sem leggur hart að Nader að bjóða sig fram fyrir hönd flokksins og svo gæti jafnvel farið að flokkurinn tilnefni hann til forseta án þess að hann sækist sérstaklega eftir því.

Það er ljóst að Ralph Nader á engan möguleika á að vera kjörin forseti. Það er þó vonandi framboð hans muni hafa þau áhrif að kosningakerfið í Bandaríkjunum muni taka breytingum ef áhrif hans verða veruleg. Núverandi, „first past the post“ einmenningskjördæmakerfi ásamt gríðarlegu reglugerðafargani um hverjir mega bjóða sig fram og undir hvaða flokksnafni hefur skapað lýðræðishalla sem endurspeglast í lækkandi kjörsókn.

Ef Demókratar eru ósáttir við hvaða áhrif þátttaka Naders hefur á þeirra gengi geta þeir reynt að breyta kerfinu. Þeir hafa hins vegar ekki gert neina tilraun til þess enda hentar það þeim betur ef erfitt er að stofna flokk sem hirðir af þeim fylgið. Í staðinn ofsækja þeir óháða frambjóðendur, reyna að höfða til vinstri-siðferðiskenndar þeirra og segja „Ég veit að þú vilt vel en þú ert bara að skemma enn þá meira fyrir, svona er bara kerfið.“

Kerfið sem þeir sjálfir hafa búið til.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.