Kviðurinn ruddur

Í árdaga Íslandsbyggðar fóru menn til Alþingis til að láta dæmast af kviðdómi jafningja sinna. Hvor málsaðili fékk tækifæri til að ryðja kviðinn og þeir sem eftir sátu fengu það hlutverk að skera úr um þrætuefnið. Þessi siður lagðist af og í dag þykir almenningur ekki hæfur til að leggja mat á rétt og rangt í dómskerfinu.

Í réttardramanu Njálu má finna greinargóða lýsingu á þeim herbrögðum sem viðhöfð voru í lagadeilum á Alþingi á elleftu öld og meðal annars skipta þar miklu máli þær aðferðir sem voru viðhafðar þegar skipa átti í kviðdóm. Réttarreglur Íslendinga voru mjög frumstæðar á þeim tíma og hið íslenska dómskerfi 21. aldarinnar mun réttlátara og skilvirkara.

En þótt ein af þeim breytingum sem Íslendingar hafa gert á réttarkerfinu sé sú að afleggja kviðdóminn með öllu, er vert að velta vöngum yfir því hvort sú breyting hafi í sjálfu sér verið réttarbót. Fæstir Íslendingar velta vöngum yfir réttmæti þeirrar ákvörðunar og þykir mörgum út í hött að aðrir en löglærðir menn skeri úr um það hvort menn skuli fara í fangelsi, jafnvel til margra ára.

Bandaríkjamenn og Bretar eru á öðru máli. Í Bandaríkjunum er rétturinn til að láta dæmast af kviðdómi jafningja sinna bundinn í stjórnarskrána og þykir vera hluti af grundvallarréttindum fólks. En hvers vegna þykir Bandaríkjamönnum þetta kerfi, sem Íslendingum finnst asnalegt og jafnvel óréttlátt, svona mikilvægt.

Röksemdirnar um kviðdóm eru um margt dæmigerðar fyrir bandarískan hugsunarhátt. Litið er á kviðdóm sem einn af fjölmörgum varnöglum borgaranna til að verjast yfirgangi ríkisins. Forsenda fyrir þessu er sú að litið er á dómara sem fulltrúa ríkisvaldsins, „hluta af kerfinu“ sem Bandaríkjamenn eru svo skelfingu lostnir yfir. Rétturinn til að eiga og bera vopn er annað afsprengi þessa ótta, sem við Íslendingar virðumst ekki deila með vinum okkar vestan hafs.

Annað markmið, nátengt því fyrsta, er að verjast óréttlátum lögum eða óréttlátum afleiðingum laga. Því bandarískir kviðdómendur hafa, ólíkt dómurum, rétt til að neita að dæma menn seka þrátt fyrir að lagafyrirmæli séu skýr, ef sá dómur væri óréttlátur að þeirra mati. Reyndar hefur verið dregið úr þessum möguleikum kviðdómenda almennt séð er nú ætlast til þess að skilningur á lögunum sé mikilvægari en ótilgreind réttlætiskennd kviðdómenda.

En fyrir pistlahöfund, sem fannst lengi vel fjarstæðukennt að ætlast til að ólöglærðir einstaklingar eigi að taka ákvörðun um sekt eða sakleysi samkvæmt flóknum lögum, er þriðja röksemdin langveigamest: „Hvernig er hægt að ætlast til þess að menn fari eftir lögum, ef þeim er ekki treyst til þess, undir handleiðslu dómara og lögfræðinga, að átta sig á sekt eða sakleysi“.

Því þótt Íslendingar velti ekki vöngum yfir því dags daglega, þá snýst ansi margt í okkar lífi um að meta réttmæti þess sem við eða aðrir gera. Engu að síður er talið sjálfsagt að matið á réttu og röngu sé nokkuð sem krefjist fimm ára háskólamenntunar. Þegar almenningur samþykkir að þetta sé raunin, býður það heim hættunni á því að sett séu lög sem eru óskiljanleg öllum almenningi. Svo tekið sé dæmi af 21. grein almennra hegningarlaga, sem greinilega er ekki rituð með það að markmiði að sem flestir skilji hana:

Hegning fyrir tilraun fellur niður, ef sá, sem sekur hefur gerst um hana, lætur af sjálfsdáðum af þeim ásetningi sínum að drýgja brotið, áður en það er fullkomnað, enda farist framkvæmd þess ekki fyrir eða tilætlaður árangur náist ekki vegna tálmana eða annarrar tilviljunar, og hann hefur þar að auki, ef hann hefur með verknaði sínum valdið eða talið sig hafa valdið hættu á því, að brotið fullkomnist, komið í veg fyrir það eða gert þær ráðstafanir, sem myndu hafa komið í veg fyrir það, ef fullkomnun brotsins hefði ekki, án vitundar hans, verið aftrað á annan hátt eða verið óframkvæmanleg.

Þótt markmiðin með kviðdómi séu um margt göfug, er auðvitað nauðsynlegt að skoða að hve miklu leyti þau hafa náðst og að hvaða leyti þau eiga við á íslandi. Það er kannski eðlilegt að Bandaríkjamenn séu hræddari við sitt ríkisvald en Íslendingar, enda um voldugasta ríki heims að ræða, en ekki smáþjóð sem ekki getur tekið við fjögurhundruð vopnlausum mótmælendum. Markmiðið um vernd gegn óréttlátum lögum virðist heldur ekki vera að ná fram að ganga, í það minnsta ekki miðað við skilning Íslendinga á réttlæti. Þvert á móti virðist refsigleði Bandaríkjamanna vera mun meiri en Íslendinga. Eins kynnu sumir að draga í efa að markmiðið um einfalda lagasetningu hafi náðst, enda eiga Bandaríkjamenn sérstakt orð yfir flókið lögfræðilegt orðalag, nefnilega „legalese“.

En það er sama að hvaða niðurstöðu menn komast, það sakar aldrei að velta fyrir sér hvaða farvegur er heppilegur fyrir réttarkerfið. Þar ættu jafnt leikir sem lærðir að koma að málum, enda varðar réttarkerfið okkur öll.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)