Kristjanía í einkaeigu

Þau eru ekki mörg fríríkin sem hafa hlotið náð fyrir augum stjórnvalda. Í Kaupmannahöfn hefur Kristjanía yfir sér ákveðinn dýrðarljóma enda vinsæll ferðamannastaður. Ef til vill er hægt að finna lausn á þeim vanda sem nú blasir við íbúum svæðisins, með því að skoða svipað svæði annars staðar í borginni.

Það er víst betra að taka það fram strax að þessi pistill snýst ekki um lögleiðingu kannabisefna. Hann snýst heldur ekki um lögleiðingu annarra fíkniefna og hann snýst alls ekki um það hvað Anders Fogh Rasmussen er fúll kall miðað við fyrri forsætisráðherra.

Sumir íbúa Kristjaníu hafa búið þar í tugi ára. Á meðal þeirra fyrstu sem settust að í niðurníddum húsum voru meira að segja Íslendingar sem kvöldust á landinu kalda. Nýverið lýstu dönsk stjórnvöld því hins vegar yfir að til stæði að brjóta niður gömlu húsin og byggja í staðinn nýtt hverfi. Eðlilega eru menn missáttir við þessa þróun mála.

Eitt það undarlegasta sem átti sér stað í kjölfarið voru mótmælaaðgerðir sem hasssalar í Kristjaníu stóðu fyrir. Þeir brutu niður sölubásana og kveiktu í þeim, svona eins og til að mótmæla því að þeir mættu ekki selja hassið. Ekki er ljóst hverju þetta átti að skila, enda öruggt að dönsk stjórnvöld hafa fagnað þessu ógurlega. Salan hófst að vísu aftur innan hálftíma, en kaupendur áttu erfiðara með að skoða úrvalið.

Íbúar Kristjaníu, sem flestir eru löngu hættir að lifa samkvæmt gömlum kommúnistískum lögmálum, eru margir hverjir frekar sáttir við hugmyndir stjórnvalda. Þeir vilja nefnilega geta ræktað garðinn sinn án þess að eiga það á hættu að lögregla trampi niður matjurtir í leit að eiturlyfjum. Kristjanía er nefnilega ekki lengur þetta fríríki sem hún einu sinni var heldur skiptist hún eiginlega í tvennt. Annars vegar er það ungt fólk sem á lítinn pening og hefur gaman af því að reykja hass, en hins vegar eru þar gamlir hippar, fyrrverandi háskólastúdentar og hugsjónafólk af gamla skólanum.

Reyndar er ástandið svipað í minna þekktu fríríki í miðri Kaupmannahöfn sem heitir Brumleby. Þar reyndu stjórnvöld (þá voru sósíaldemókratar við stjórnvölinn) að ráðskast með húsnæðið, enda litu þau svo á að það væri í þeirra eigu. Íbúar bæjarins gripu til þess ráðs að stofna sameignarfélag og kaupa til sín byggingarnar. Nýverið hafa hins vegar blossað upp deilur á milli þeirra sem enn líta á svæðið sem sameiginlega eign og þeirra sem vilja fyrst og fremst rækta garðinn sinn, án afskipta nágranna.

Spurningin er hvort þetta gæti verið lausnin fyrir íbúa Kristjaníu. Þeir gera samkomulag við stjórnvöld um ákveðna uppbyggingu á svæðinu og taka að sér rekstur þess í kjölfarið. Þá gerist tvennt, annar vegar losna stjórnvöld við hassið að einhverju leyti, og hins vegar halda íbúarnir stjórninni á sínu svæði. Að vísu með ákveðnum skyldum í bland við réttindin. Slíkt samkomulag myndi örugglega róa þá sem telja að jafna eigi Kristjaníu algjörlega við jörðu.

Það segir ef til vill margt um stöðu Kristjaníu að Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn ætlar að halda árlegt þorrblót þar. Hass, hákarl og hrútspungar eiga eflaust eftir að reynast skemmtileg blanda.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)