Kvennaslóðir – hagur kvenna?

woman-phone.jpgSíðasta sumar hófst starfssemi verkefnisins Kvennaslóðir. Verkefnið snýst um að starfrækja gagnabanka á netinu með upplýsingum um konur með sérþekkingu og reynslu á einhverju sviði. Hugmyndin er sú að búa til áhrifaríka leið fyrir fjölmiðla og fyrirtæki til að finna hæfar konur til álitsgjafa og trúnaðarstarfa.

woman-phone.jpgSíðasta sumar hófst starfssemi verkefnisins Kvennaslóðir. Verkefnið snýst um að starfrækja gagnabanka á netinu með upplýsingum um konur með sérþekkingu og reynslu á einhverju sviði. Hugmyndin er sú að búa til áhrifaríka leið fyrir fjölmiðla og fyrirtæki til að finna hæfar konur til álitsgjafa og trúnaðarstarfa. Að verkefninu standa Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, Kvennasögusafn Íslands og Jafnréttisstofa.

Fyrr í þessum mánuði lagði Jóhann M. Hauksson, stjórnmálafræðingur og kennari við Háskóla Íslands, fram kæru til siðanefndar Háskólans vegna verkefnisins. Fram kemur í kærunni að Jóhann telji þá mismunun samkvæmt kynferði, sem felist í starfssemi gagnabankans, vera andstætt siðareglum Háskólans. Burtséð frá því að verkefnið, sem er m.a. starfrækt og fjármagnað af Háskólanum, gangi á rétt karla og sé þannig hugsanlega andstætt umræddum siðareglum, þá má velta fyrir sér: Þjónar verkefnið tilgangi sínum?

Nokkrar ástæður hafa verið nefndar fyrir því að ráðist var í þetta verkefni. Í fyrst lagi þótti hlutur kvenna rýr í stjórnum fyrirtækja, nefndum og ráðum, og að með gagnabanka sem þessum væri hægt að rétta þessa stöðu. Auk þess var vonast til að koma með svar við fullyrðingum fjölmiðla, stjórnmálamanna og atvinnulífsins um að erfitt sé að finna konur til álitsgjafar og trúnaðarstarfa.

Mikill fjöldi rannsókna fjallar um áhrif jákvæðrar mismununar sem þessarar á hlut kvenna. M.a. benti Hulda Þórisdóttir á tikin.is á rannsóknir Dr. Madeline Heilman í pistli 23. maí 2002. Rannsóknir Dr. Heilman sýna að þegar konur komast í ábyrgðar og trúnaðarstörf í krafti jákvæðrar mismununar hefur það yfirleitt minnkandi áhrif á stjálfstraust þeirra og metnað (Heilman, Simon, Repper, 1987). Auk þess sýna rannsóknirnar að aðgerðir byggðar á jákvæðri mismunun grafa undan trú samstarfsfólks á hæfileikum konunnar sem er valinn. Sú kona virðist einnig vanmeta hæfileika annarra kvenna og vera ólíklegri en annars til að ráða konur. Einnig hafa slíkar aðgerðir neikvæð áhrif á karla sem finnst fram hjá sér gengið og letjandi áhrif á starfsanda og metnað í viðkomandi fyrirtæki eða stofnun (Heilman 1994).

Þannig hefur jákvæð mismunun tilhneigingu til að hafa neikvæð áhrif fyrir alla sem koma að málinu, konuna sem er ráðin eða skipuð, karl sem finnst fram hjá sér gengið, samstarfsmenn og fyrirtækið eða stofnunina í heild. Einnig er umhugsunarvert hvort aðgerðir byggðar á jákvæðri mismunum minnki ekki almenna virðingu fyrir konum í samfélaginu. Í fyrst lagi með því að gefa þá tilfinningu að konur geti ekki komist til áhrifa án jákvæðrar mismununar og í öðru lagi með því að grafa undan einstökum konum sem komist hafa í ábyrgðarstöður með því að skapa þá tilfinningu meðal fólks að mögulega hafi þær ekki komist þangað á eigin verðleikum.

Að sjálfsögðu er langsótt hugmyndin um hinn fullkomna heim þar sem allir eru metnir á sanngjarnan hátt eftir eigin verðleikum. Meðal annars hefur verið bent á að mælikvarðar á hæfileika séu afstæðir og í því tilliti séu það yfirleitt karlar sem halda á mælistikunni. En, eins og Dr. Heilman hefur bent á, þá hjálpar það yfirleitt lítið að fleiri konur haldi á þessari mælistiku, nema þá að þær hafi komist í sína stöðu á eigin verðleikum.

Þegar komið er að seinni ástæðunni sem nefnd hefur verið, þ.e. fullyrðingin um að erfitt sé að finna konur til viðtals eða í ábyrgðarstörf, þá get ég ekki séð að samsvarandi gagnagrunnur með upplýsingum um bæði konur og karla geti ekki þjónað því hlutverki jafn vel.

Ef grunnur sem þessi stuðlar að minna sjálfstrausti kvenna, minni virðingu fyrir konum og minnkar metnað þeirra hlýtur hann að vera farinn að vinna gegn upphaflegu markmiði sínu, því það eru einmitt þessir þættir sem gegna lykilhlutverki í að rétta hlut kynjanna.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)