…og með ólögum eyða

Umræða um eignarhald á fjölmiðlum hefur verið mikil undanfarna mánuði. Snýst umræðan annars vegar um hvort koma eigi almennt í veg fyrir að sömu aðilar ráði of mörgum fjölmiðlum en hins vegar hefur hún snúist um hvort tilteknir aðilar,og þá sérstaklega Jón Ásgeir Jóhannesson, megi eiga fjölmiðla og þá hversu marga.

Þessi umræða kristallaðist ágætlega í grein Andrésar Magnússonar í Morgunblaðinu á þriðjudag og fjölmiðlaviðtölum í kjölfar hennar.

Andrés skrifar langt mál þar sem hann tiltekur örfá dæmi sem hann telur styðja þá kenningu sína að Fréttablaðið sé sérlega óvandað og hygli eigendum sínum. Á grundvelli áþekkrar umræðu og Andrés endurspeglar í grein sinni er því mjög haldið að fólki að ómálefnalegar forsendur ráði fréttaflutningi útbreiddustu fjölmiðla landsins.

Nú er það svo að Fréttablaðið og Morgunblaðið koma út 360 daga á ári og sennilega eru fréttir í hverju tölublaði ekki færri en 100. Því er hægur leikur að rökstyðja hverja þá kenningu sem menn kunna að hafa um fréttastefnu blaðanna tvegga enda augljóst að einhver hluti þeirra tæplega fjörtíu þúsund frétta sem árlega birtast hljóta að orka tvímælis.

Þannig hafa sumir haldið því fram að tilgangur Fréttablaðsins sé að koma höggi á ríkisstjórnina og aðrir hafa náð að telja sjálfum sér trú um að Morgunblaðinu sé stjórnað fyrst og fremst á femínískum forsendum.

Þetta er vitaskuld tóm þvæla því þótt menn geti greint á um ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins þá ætti það traust sem Morgunblaðið hefur áunnið sér að taka af öll tvímæli um að þar er mjög vandað til allrar umfjöllunar.

Á sama hátt hafa vinsældir Fréttablaðsins varla orðið til vegna þess að blaðið sé sérstaklega áhugasamt um að breiða út ósannar fréttir eða brenglað fréttamat. Sanngjörn skoðun einfaldlega styður ekki kenningar samsærismanna.

En þrátt fyrir að lítill fótur kunni að vera fyrir skrifum Andrésar Magnússonar í Morgunblaðinu – eða umræðu um femíníska ofríkisstefnu Morgunblaðsins – þá er umræðan ekki út í bláinn og ágæt áminning bæði til almennings og fjölmiðla um að gagnrýnin hugsun er aldri óþörf.

Þó skiptir miklu að tímabundnar áhyggjur af rekstri tiltekinna fjölmiðla skaði ekki það heildarumhverfi frjálsrar fjölmiðlunar sem hér hefur verið byggt með miklum herkjum á undanförnum tveimur áratugum tæpum.

Flestir frjálslyndir einstaklingar eru sammála um að skorður á eignarrétt manna séu sjaldnast réttlætanlegar og því hafa flestir hægrimenn tekið illa í sérstaka lagasetningu sem takmarki möguleika fólks til þess að byggja öflug fjölmiðlafyrirtæki. Þessu er Deiglan sammála.

Deiglan felst hins vegar algjörlega á það sjónarmið að ríkir almannahagsmunir séu til þess að upplýsingar um eignarhald á fjölmiðlum liggi fyrir.

Rökin fyrir því að slíkar upplýsingar séu handbærar eru mjög áþekk þeim rökum sem liggja fyrir þeirri upplýsingaskyldu sem hvílir á almenningshlutafélögum. Til þess að frjáls markaður þrífist er skilvirk upplýsingagjöf nauðsyn, enda eru „fullkomnar upplýsingar” einhver helsta röksemd hagfræðinnar fyrir því að frjálst markaðskerfi fái staðist leiði til hagkvæmrar útkomu. Á sama hátt er opinn aðgangur að upplýsingum um fjármál stjórnmálaflokka eitt af skilyrðum þess að frjálst lýðræðissamfélag fái staðist eins og Sigurður Örn Hilmarsson færði rök fyrir á Deiglunni á mánudag.

Deiglan tekur einnig undir að það var óheppilegt, og óeðlilegt, ástand þegar ekki fékkst uppgefið hverjir væru eigendur Fréttablaðsins væru. Þessi gagnrýni kom m.a. fram í pistli Torfa Kristjánssonar á Deiglunni þann 25. október 2002.

En hvað er til ráða svo hægt sé að auka traust fólks á fjölmiðlum?

Heppilegasta lausnin er sú að fjölmiðlarnir sjálfir gefi upp sem mest af þeim forsendum sem liggja að baki rekstri þeirra – þótt daglegur afrakstur fréttastofa vegi vafalaust þyngra á metunum þegar fólk ákveður hvaða fjölmiðlum það kýs að taka mark á.

Hlutafélög sem gerast aðilar að Kauphöll Íslands undirgangast fjölmörg skilyrði um upplýsingaskyldu. Aðilar á markaði hafa einfaldlega metið það svo að heildarhagsmunir markaðsaðila af skilvirkri upplýsingagjöf vegi þyngra en tímabundnir hagsmunir einstakra fyrirtækja um að halda upplýsingum leyndum.

Ekkert er því til fyrirstöðu að stórir fjölmiðlar taki málin í sínar eigin hendur og sammælist um vinnureglur áþekkar þeim sem þekkjast í almenningshlutafélögum. Fjölmiðlarnir gætu komið sér upp kerfi sem felur í sér að með reglulegu millibili séu birtar upplýsingar um stærstu eigendur og að upplýsingar um stefnubreytingar og mannaráðningar í lykilstöður séu ætíð gerðar opinberar svo fljótt sem verða megi.

Í þessu felst engin tálsýn um að þannig verði allir fjölmiðlar hlutlausir, enda ekkert sem mælir gegn því að fjölmiðlar séu gefnir út á grunni ákveðinnar hugmyndafræði eða skoðunar. Það er hins vegar eðlileg krafa að fjölmiðlar séu sanngjarnir og að þeir sigli ekki undir fölsku flaggi.

Ætla má að allir fjölmiðlar hafi ríka hagsmuni af því að uppfylla þessi skilyrði og því ætti það ekki að vera óhugsandi að þeir komi sér saman um aðferðir til þess að stuðla að slíkri þróun. Samvinna fjölmiðla um upplýsingagjöf til almennings væri því bæði lýðræðinu og fjölmiðlafyrirtækjunum sjálfum til heilla.

Mikilvægt er að íbúarnir hafi færi til þess að byggja upp öflug fjölmiðlafyrirtæki hér á landi. Oft og tíðum hefur lítið mátt út af bregða til þess að fjölmiðlaflóran á Íslandi yrði einkar bragðdauf og lítilfjörleg. Þess ber að minnast að þegar Fréttablaðið varð gjaldþrota var fátt í spilunum sem benti til þess að gróska í fjölmiðlum á Íslandi yrði svo góð sem hún er nú (sjá t.d. ritstjórnarpistil á Deiglunni 26. júní 2002). Fyrir tilstilli frjáls markaðar hefur fjölmiðlamarkaðurinn styrkst – og það væri dapurlegt ef honum hnignar á ný með tilstilli óskynsamlegrar ríkisíhlutunar.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)