Kaupsýslumenn og stjórnmálamenn

Björgólfsfeðgar virðast hafa þann hæfileika að búa til meiri verðmæti en aðrir. Þegar þeir yfirtóku Hf. Eimskipafélagið í samvinnu við Landsbanka Íslands og boluðu Kolkrabbanum í burtu þá töldu margir að það hafi verið dýru verði keypt.

Björgólfsfeðgar virðast hafa þann hæfileika að búa til meiri verðmæti en aðrir. Þegar þeir yfirtóku Hf. Eimskipafélagið í samvinnu við Landsbanka Íslands og boluðu Kolkrabbanum í burtu þá töldu margir að það hafi verið dýru verði keypt. Fyrrverandi stjórnendum Eimskipafélagsins fannst það hið mesta óráð að sneiða niður hið ársgamla meistarastykki Kolkrabbans, útgerðarfélagið Brim. Feðgarnir voru á öðru máli, drógu fram kjöthnífana, bútuðu Brim niður í lærisneiðar og seldu HB, ÚA og líklega Skagstrending fyrir hærra verð en keypt var fyrir. Nú er talað um að Eimskip fái yfir 20 milljarða fyrir útgerðarfélögin þrjú en margir sérfræðingar, s.s. greiningardeildir Íslandsbanka og KB, höfðu talið óhugsandi að Brim væri meira en 17 milljarða virði.

Blendin viðbrögð

Viðbrögð heimamanna á Akranesi og Akureyri eru æði misjöfn. Akurnesingar, undir stjórn Haraldar og Sturlaugs Sturlaugssona, hafa gengið til samvinnu við Granda, kaupanda HB, og bendir ýmislegt til þess að Grandi muni færa meginþunga starfseminnar til Akraness. Ljóst er að samlegðaráhrif Granda og HB eru mikil og fátt bendir til annars en að forsvarsmenn Granda vilji vinna að sameiningu félaganna í góðri sátt við heimamenn á Akranesi. Grandi á bæði miklar eignir og landsvæði úti á Granda; það mætti hugsa sér að Grandi leysti til sín mikinn gróða með því að leggja niður starfsemi í Reykjavík og selja landsvæði til verktaka.

Norðanmenn ókátir

Akureyringar eru hins vegar allt annað en kátir með söluna á ÚA til Vestanmanna í sjávarútvegsfyrirtækinu Tjaldi. Þeir óttast að Guðmundur ríki á Rifi muni búta ÚA niður líkt og Björgólfsfeðgar hafa gert við Eimskip. Það má vel skilja ótta heimamanna með nýja herra og þeirra fyrirætlanir. Akureyringar verða aftur á móti að skilja gang kvótakerfisins sem þeir sjálfir hafa nýtt sér til hins ítrasta.

Viðbrögð bæjarstjórans, Kristjáns Þórs Júlíussonar, eru hins vegar sérkennileg. Bæjaryfirvöld á Akureyri seldu ÚA til Eimskipafélagsins fyrir aðeins 2,6 milljarða árið 1996. Nú trúir bæjarstjórinn vart eigin eyrum þegar kaupverðið, 9 milljarðar, hefur verið kynnt, talar um yfirverð og upplausnarverð. Kristján Þór telur nefnilega að verðmiðinn bendi ekki til annars en að Vestanmenn ætli að búta félagið niður til að standa undir verðinu. En þetta er gangur viðskipta. Skoðanir manna á því hvað teljist verðmæti breytast með tíð og tíma og geta auðvitað verið mismunandi milli aðila á sama tíma. Bæjaryfirvöld á Akureyri eiga ekki að gagnrýna kaupendur fyrir það verð sem þeir greiddu fyrir ÚA og hafna því á sama tíma að þau sjálf hafi selt sama félag fyrir of lága fjárhæð.

Hálfnað verk þá hafið er

En snúum okkur aftur að Eimskipafélaginu. Þar er ýmislegt ófrágengið. Stjórnendur félagsins stefna að því að skrá flutningastarfsemi félagsins, Eimskip ehf., og fjárfestingastarfsemina, Burðarás hf., í sitthvoru lagi í Kauphöllina. Þetta er góður tími til að skrá félög á markað. Flutningastarfsemin hefur verið vandamál hjá Eimskip en allt bendir til þess að sú grein skili mun betri framlegð á þessu ári en því síðasta. Burðarás hf. mun líklega lenda undir “verndarvæng” LÍ sem vantar fjárfestingafélag líkt og Straum. Ef áætlanir stjórnenda Eimskip ganga eftir hafa þeir búið til mikil verðmæti úr eignum félagsins sér og öðrum hluthöfum til hagsbóta. En jafnframt ætti hagsaukinn að skila sér til samfélagsins því þær einingar sem mynduðu Eimskipafélagið fyrir ári síðan eru nú orðnar skýrari, arðsamari og markvissari.

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)