Stofnfé án hirðis I

Gamaldags sveitarómantík er ríkjandi sem lýsir sér í því að mörgum finnst að sparisjóðirnir eigi að vera ósnertanlegir þar sem þeir séu tæki almúgans til að viðhalda samkeppni á bankamarkaði. Þeir hinir sömu telja jafnframt að sparisjóðirnir séu nauðsynlegir til að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins.

Mikið hefur verið rætt um fé án hirðis og óþarfi er að fjölyrða um það hér hversu óheppilegt fyrirkomulag slíkt er. Þó er kannski rétt að segja nokkur orð um fyrirhugaða sölu á SPRON til KB banka enda hefur sú umræða sem hefur farið fram verið fulleinhliða. Þar hafa málsmetandi menn í þjóðfélaginu keppst um að hneykslast opinberlega á sölunni. Alþingismenn reyna t.a.m. að slá sig til riddara með því að lýsa yfir að annað hvort hafi þeir neitað því að gerast stofnfjárhafar í SPRON eða að þeir ætli sér að skila því yfirverði sem þeir fái verði af viðskiptunum. Það eru hins vegar fáir aðrir en Pétur Blöndal sem hafa þorað að viðurkenna að þeir séu hlynntir breytingu SPRON í hlutafélag og sölunni til KB banka í kjölfarið.

Í ofanálag virðast margir vera bálreiðir vegna fyrirhugaðrar sölu SPRON á yfirverði. “Hugmyndin var aldrei að stofnfjáreigendur myndu “hagnast” á sölu eigna sinna”, segja þeir sem eru mótfallnir þessum hugmyndum. Meira að segja hefur umræðan gengið svo langt að yfirlýsingar hafa fallið þess efnis að það sé hreinlega ósiðsamlegt hjá stofnfjáreigendum að hagnast á sölunni og að þeir eigi að skila hagnaðinum út í samfélagið.

Gamaldags sveitarómantík er ríkjandi sem lýsir sér í því að mörgum finnst að sparisjóðirnir eigi að vera ósnertanlegir þar sem þeir séu tæki almúgans til að viðhalda samkeppni á bankamarkaði. Þeir hinir sömu telja jafnframt að sparisjóðirnir séu nauðsynlegir til að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins. Hafa menn þar af leiðandi lýst sig andvíga sölunni þar sem hún muni minnka samkeppni á bankamarkaði. Með þeim rökum eru menn að gefa sér að samkeppni sé í réttu hlutfalli við fjölda samkeppnisaðila. Það er að sjálfsögðu ekkert gefið í þeim efnum. Neytendur vilja það fyrirkomulag sem skilar sér í sem bestum kjörum fyrir þá. Fáar en sterkar einingar á bankamarkaði eru líklegri til að skila þeirri niðurstöðu en margar litlar. Viðskiptavinir SPRON og KB banka ættu því að fagna fyrirhuguðum aðgerðum þar sem líklegt er að þær leiði til hagstæðari kjara fyrir þá. Harðnandi samkeppni ætti svo að skila sér í svipuðum kjörum til viðskiptavina annarra banka.

Staðreyndin er sú að það er álíka ómögulegt fyrir sparisjóðina að keppa við viðskiptabankana eins og það er fyrir kaupmanninn á horninu að keppa við Baug. Sparisjóðirnir eru að fjármagna sig á miklu hærri vöxtum en stóru bankarnir þrír og munu ávallt verða undir í samkeppninni um bestu kjörin. Þar að auki er rekstrarkostnaður þeirra sem hlutfall af tekjum miklu hærri en hjá bönkunum og þar af leiðandi eru þeir mun viðkvæmari fyrir slæmu árferði. Með síaukinni notkun internetsins í bankaviðskiptum má leiða að því líkur að vægi persónulegrar þjónustu, sem hefur verið aðalsmerki sparisjóðanna, fari minnkandi. Sparisjóðirnir munu því að öllum líkindum missa markaðshlutdeild eða þurfa að kosta miklu til við að viðhalda henni. Það er því ljóst að sparisjóðirnir eru barn síns tíma. Rekstrarform þeirra er löngu orðið úrelt og líklegra en ekki að þeir muni, allir sem einn, hætta rekstri vegna erfiðleika á næstu áratugum, eigi sér ekki stað hagræðing innan þeirra raða.

Besta leiðin fyrir sparisjóðina til að styrkja sína stöðu er að leggja af núverandi rekstrarform og breyta þeim í hlutafélög. Með því móti ættu þeir hægara um vik að styrkja eiginfjárstöðu sína og jafnframt væri hagræðing í formi sameininga mögulegur kostur. Þessa leið ætlaði SPRON að fara fyrir um einu og hálfu ári síðan. Vegna galla í lögum um sparisjóði á þeim tíma var hins vegar ljóst að ef þessi leið yrði farin myndu stofnfjáreigendur tapa verulega á þeirri breytingu. Augljóslega gekk sá leikur því ekki upp, þökk sé Pétri Blöndal og fimmmenningunum alræmdu.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)