Er baráttan gegn vímuefnum á villigötum?

sdfdNúverandi baráttuaðgerðir í baráttunni gegn vímuefnum hafa minnkað neyslu verulega. En þær hafa á hinn bóginn líklega aukið verulega glæpi og annan samfélagslegan kostnað sem neyslu fylgir. Það er áleitin spurning hvort baráttan sé þess virði.

sdfdAllt frá því á sjöunda áratug síðustu aldar hafa ríkisstjórnir vestrænna ríkja háð gríðarlega kostnaðarsama baráttu gegn ólöglegum vímuefnum. Ströng viðurlög hafa verið sett við fíkniefnalagabrotum og gríðarlegum fjármunum varið í löggæslu. En þrátt fyrir það virðist okkur hafa orðið lítið ágengt. Þvert á móti virðast starfsemi og vandamál tengd vímuefnum hafa aukist.

Markmiðið með baráttunni gegn vímuefnum er annars vegar að minnka neyslu og hins vegar að draga úr glæpum og öðrum samfélagslegum kostnaði sem fylgir neyslu. Aðferðirnar sem notaðar eru í baráttunni gegn vímuefnum ganga í aðalatriðum út á það að auka kostnað þeirra sem framleiða, dreifa og neyta vímuefna. Hærri kostnaður leiðir til hærra verðs. Og hærra verð á að leiða til minni neyslu.

Vandinn er hins vegar sá að neysla vímuefna dregst einungis lítillega saman nema verðið sé hækkað þeim mun meira. Rannsóknir benda til þess að fyrir hvert %-stig sem verð á vímuefnum er hækkað dragist neysla aðeins saman um ½ %-stig. Þar sem magnið dregst saman minna en verðið hækkar, leiðir hærra verð vímuefna til þess að meiri fjármunum er eytt í vímuefni.

Flest bendir til þess að verð á vímuefnum sé meira en fjórum sinnum hærra en það væri án ríkisafskipta. Af ofangreindum ástæðum hefur baráttan gegn vímuefnum því leitt til þess að almenningur á vestulöndum kaupir helmingi minna af vímuefnum en hann annars myndi en eyðir hins vegar tvöfalt meira fé í vímuefni.

Það má því segja að núverandi aðferðir í baráttunni gegn vímuefnum hafi náð þokkalegum árangri í því að ná öðru markmiði sínu (þ.e. að minnka neyslu vímuefna) en á kostnað þess að gera hitt vandamálið miklu umfangsmeira (þ.e. glæpi og samfélagslegan kostnað sem fylgir neyslu). Báráttan gegn vímuefnum hefur í raun tvöfaldað umfang fíkniefnaheimsins. Ekki er ólíklegt að glæpir og annar samfélagslegur kostnaður sem fylgir vímuefnum aukist að minnsta kosti í réttu hlutfalli við það fé sem varið er til vímuefna. Baráttan gegn vímuefnum hefur því líklega meira en tvöfaldað þann samfélagslega kostnað sem fylgir vímuefnum.

Það er umhugsunarefni hvort núverandi baráttuaðferðir séu samfélaginu til heilla. Er kannski bara verið að pissa í skóinn sinn með því að berjast gegn vímuefnum með þeim hætti sem gert er í dag?

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.