Spennandi ár framundan í íslenskum stjórnmálum

Fyrir þá sem áhuga hafa á stjórnmálum var árið 2003 viðburðarríkt, bæði hér heima og erlendis. Kosningaár er ávallt sérstakt fyrir áhugamenn um stjórnmál en margt bendir til að árið 2004 verði jafnvel enn viðburðaríkara. Í eftirfarandi pistli verður sjónum beint að árinu 2004 og reynt að spá um hvernig umhorfs verður á hinu pólitíska sviði hér heima á árinu.

Fyrir þá sem áhuga hafa á stjórnmálum var árið 2003 viðburðarríkt, bæði hér heima og erlendis. Kosningaár er ávallt sérstakt fyrir áhugamenn um stjórnmál en margt bendir til að árið 2004 verði jafnvel enn viðburðaríkara. Í eftirfarandi pistli verður sjónum beint að árinu 2004 og reynt að spá um hvernig umhorfs verður á hinu pólitíska sviði hér heima á árinu.

Niðurstaða alþingiskosninganna hér heima olli engum straumhvörfum í íslenskum stjórnmálum, alla vega ekki svona fyrsta kastið. Stjórnarsamstarfið hélt áfram og þrátt fyrir fylgisaukningu stóð Samfylkingin ekki sterkari á eftir, einkum vegna klofnings í forystusveit flokksins. Hins vegar má ljóst vera að fylgistap Sjálfstæðisflokksins í kosningum mun hafa þær afleiðingar á hausti komanda að flokkurinn missir forystusæti sitt í ríkisstjórn yfir til Framsóknarflokksins – það er dýrt að tapa kosningum og þetta var gjaldið sem greiða þurfti.

Það er ekki síst vegna fyrirhugaðra breytinga á ríkisstjórninni sem nýkomið ár gæti orðið spennandi fyrir áhugamenn um stjórnmál. Ekki svo að skilja að Halldór Ásgrímsson sé meira spennandi kostur í stóli forsætisráðherra en Davíð Oddsson, heldur vegna þeirra áhrifa sem forsætisráðherraskiptin munu hafa á stjórnarsamstarfið og hið pólitíska landslag hér á landi.

Í þingflokki Sjálfstæðisflokksins nú eru aðeins tveir þingmenn sem setið hafa á þingi án þess að flokkurinn fari með forystu í ríkisstjórn, þeir Geir H. Haarde og Halldór Blöndal. Þetta þýðir að margir af reyndustu þingmönnum flokksins verða í nýju og ókunnugu hlutverki á næsta haustþingi sem þingmenn samstarfsflokks forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar.

Halldóri vandi á höndum

halldorforsaetisradherra.jpgÞegar Davíð Oddsson greindi fjölmiðlum frá væntanlegum forsætisráðherraskiptum þann 15. september nk. í tengslum við stjórnarmyndunina sl. vor, þá lét hann þess getið að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði átt erfiðara með að kyngja þeirri staðreynd að flokkurinn myndi gefa eftir forsætisráðuneytið þegar tæp þrjú ár væru enn eftir af kjörtímabilinu. Ljóst má vera að mjög mun reyna á stjórnarsamstarfið að loknum forsætisráðherraskiptum. Halldór Ásgrímsson mun þurfa að taka ítrasta tillit til þingmanna Sjálfstæðisflokksins ætli hann sér að halda stjórnarsamstarfinu gangandi.

Hafa verður í huga að samstarfskostir Framsóknarflokksins eru mun takmarkaðri en þeir kostir sem Sjálfstæðisflokkurinn á stöðunni. Mikið hefur verið rætt um hugsanlega stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ef endir verður á núverandi stjórnarsamstarfi. Margt mælir auðvitað gegn slíku en slík stjórn myndi engu að síður hafa mjög ríflegan þingmeirihluta á meðan hugsanlegt samstarf Framsóknarflokks og Samfylkingingar hvíldi á aðeins eins atkvæðis meirihluta.

Slíkt samstarf yrði svo veikt að allt eins mætti tala um það væri andvana fætt. Með menn á borð við Kristinn H. Gunnarsson innanborðs er hætt við sú stjórn yrði í stöðugri gíslingu. Minna má á fræg ummæli Svavars Gestssonar sem látin voru falla þegar Kristinn gekk úr Alþýðubandalaginu til liðs við Framsóknarflokkinn: „Nú er Ólafs Ragnars að fullu hefnt!“

En við forsætisráðherraskiptin mun hið mikla vald sem felst í þingrofsheimildinni færast úr höndum Davíðs Oddssonar til Halldórs Ásgrímssonar. Hin hliðin á þeim krónupeningi er vitaskuld sú, að allt þar til 15. september rennur upp mun þetta vald vera í höndum Davíðs – og í ljósi véfrétta hans um eigin fyrirætlanir má búast við að Framsóknarmenn muni ekki draga andann rólega fyrr en að loknum ríkisráðsfundi þennan sama dag.

Breytingar á ríkisstjórn

Þrátt fyrir þessar vangaveltur um stjórnarsamstarfið er auðvitað líklegasta niðurstaðan að flokkarnir muni starfa áfram saman enda hefur samstarfið gengið vel. Sjálfstæðisflokkurinn mun auk þess fá eitt ráðuneyti frá Framsókn í sárabætur fyrir forsætisráðherrastólinn þegar Sigríður Anna Þórðardóttir tekur við embætti umhverfisráðherra á áðurnefndum ríkisráðsfundi. Þau sögulegu tíðindi gætu þá orðið að þrjár konur ættu sæti í ríkisstjórn. Margir telja ósennilegt að Siv Friðleifsdóttir muni víkja úr ríkisstjórninni en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók sem kunnugt er sæti í ríkisstjórn nú um áramótin.

davidnuna.jpgStóra spurningin er hins vegar sú hvort Davíð Oddsson muni sitja áfram í ríkisstjórn. Ef hann kýs að gera það, sem hann hefur síður en svo útilokað, mun hann væntanlega verða utanríkisráðherra. Það er sama stjórnarmynstur og var frá 1983 til 1985 þegar Framsóknarflokkurinn fór með forystu í ríkisstjórn og þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Hallgrímsson heitinn, var utanríkisráðherra. Geir vék úr ríkisstjórninni 1985 fyrir nýkjörnum formanni Þorsteini Pálssyni sem varð fjármálaráðherra og Mattíhas Á. Mathiesen varð utanríkisráðherra. Það eru því dæmi um að formaður flokksins sé hvort heldur utanríkisráðherra eða fjármálaráðherra í stjórnarsamstarfi með Framsóknarflokknum.

Fari hins vegar svo að Davíð víki úr ríkisstjórninni vaknar spurningin um það hver af þingmönnum flokksins verði ráðherra í hans stað. Langlíklegast verður að telja að Einar Kristinn Guðfinnsson, þingflokksformaður, yrði fyrir valinu, enda einn af reynslumestu og traustustu þingmönnum flokksins. Þá er jafnvel ekki útilokað að einhverjar tilfæringar yrðu innan ráðherraliðsins og jafnvel að yngt yrði upp í ráðherraliðinu með frekari breytingum.

Ýmis hitamál í uppsiglingu

En burtséð frá öllum vangaveltum um stjórnarsamstarfið og breytingar á ráðherraliði, er rétt að leiða hugann að þeim málum sem fyrirferðamest verða á árinu 2004. Í fyrsta lagi má þar nefna komandi kjarasamninga. Digurbarkalegar yfirlýsingar forystumanna launþega síðustu vikur eru ekki til þess fallnar að auka bjartsýni um hagstæða niðurstöðu. Tiltölulega ábyrg afstaða vinnumarkaðarins á undanförnum áratug eða rúmlega svo hefur fært launþegum mestu kjarabætur í sögunni. Hóflegar launahækkanir eru því líklegastar til að skila mestum kjarabætum nú þegar þjóðarbúið siglir inn í nýtt uppgangsskeið.

Í öðru lagi má nefna að s.k. velferðarmál gætu valdið titringi í pólitíkinni. Ljóst er að ríkur vilji er fyrir því innan Sjálfstæðisflokksins að stokka upp í heilbrigðismálunum og nýverið sýndi formaður Samfylkingarinnar samstöðu með hugmyndum sjálfstæðismanna. Sífelldur hallarekstur þrátt fyrir stórkostlega aukningu fjárframlaga til heilbrigðiskerfisins er óásættanlegur. Átök um heilbrigðismál gætu gengið nærri stjórnarsamstarfinu.

Í þriðja lagi er ljóst að á þessu ári mun hugsanlega koma til uppgjörs í þeim væringum sem verið hafa milli stjórnvalda og ákveðinna aðila í viðskiptalífinu. Nefnd á vegum menntamálaráðherra kannar nú mögulega lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum og forsætisráðherra sagði í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu að nú væri hugsanlega orðið tímabært að setja skýrari leikreglur til að koma í veg fyrir hringamyndun í íslensku samfélagi. Áðurnefnt uppgjör gæti orðið í formi lagasetningar með þessum hætti og sú lagasetning verður ekki átakalaus.

Í fjórða lagi er rétt að nefna að átakalínur í stjórnmálum árið 2004 gætu legið í fjármögnun menntakerfisins, einkum og sér í lagi háskólanáms. Mikil fjölgun hefur orðið á nemendum í háskólanámi hér á landi á síðustu árum. Þar við bætist aukinn kostnaður samfélagsins vegna símenntunar og endurmenntunar hvers konar. Miklar kröfur eru gerðar til ríkisvaldsins að kostnaður vegna alls þessa sé greiddur af skattgreiðendum. Þá hafa einnig komið fram hugmyndir um aukna kostnaðarþátttöku atvinnulífsins og nemenda. Ekki er útilokað að þessi hugmyndabarátta muni brjótast upp á yfirborðið á árinu 2004.

Nægur skammtur af kosningum

Hér að ofan hefur verið reynt að velta vöngum yfir því hvernig umhorfs verður á hinu pólitíska landslagi á árinu 2004. Árið gæti orðið mjög spennandi, jafnvel sögulegt, í íslenskum stjórnmálum. Á fyrsta ári eftir kosningar er oft að vænta málefnalegri og opnari baráttu á hinum pólitíska vígvelli en þegar kosningar nálgast. Menn eru þá hugsanlega frekar tilbúnir til að setja fram nýstárlegar hugmyndir. Hins vegar munu áhugamenn um stjórnmál fá vænan kosningaskammt með tilheyrandi spuna og áróðursbrögðum þegar líður á árið því í nóvember munu Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu í forsetakosningum og vafalítið mun verða áhugavert að fylgjast með þeirri baráttu.

Deiglan óskar lesendum sínum árs og friðar á nýju ári.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)