Ýmist of eða van

Þrátt fyrir að það hafi tekið nokkurn tíma tókst í vetur að skera úr um hver yrði forseti Bandaríkjanna. Þar hafði George W. Bush betur gegn Al Gore í rimmu sem ekki þarf að rifja upp fyrir neinum.

Þrátt fyrir að það hafi tekið nokkurn tíma tókst í vetur að skera úr um hver yrði forseti Bandaríkjanna. Þar hafði George W. Bush betur gegn Al Gore í rimmu sem ekki þarf að rifja upp fyrir neinum. Það hefur þó ekki verið jafnáberandi að dagblöðin Miami Herald og USA Today stóðu að endurtalningu á þeim 62.248 atkvæðum sem helst var deilt um í öllum 67 sýslum Flórída. Flest þeirra voru dæmd ógild vegna þess að kjörseðillinn var ekki nægilega vel gataður, eða „undervotes“ eins og þeir kalla það í Flórída. Mikið var deilt um hvar ætti að draga línuna um gild og ógild atkvæði. Raunin varð sú að sum þessarra svokölluðu „undervotes“ (tillaga að þýðingu gæti verið vankvæði) voru tekin gild en önnur ekki.

Í desember úrskurðaði innanríkisráðherra Flórída að Bush hefði sigrað með 537 atkvæða mun og í febrúar greindu blöðin frá því að Bush hefði fengið fleiri atkvæði í kosningunni í Flórída jafnvel þótt öll atkvæði hefðu verið tekin með í reikninginn. Nú hafa blöðin birt endanlegar niðurstöður þessarar talningar og í ljós hefur komið að Bush þrefaldaði hið nauma forskot sitt og sigraði með 1.655 atkvæða mun. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að ýmsir talsmenn demókrata voru mjög áfjáðir um að taka yrði öll „vankvæði“ gild og í raun ætti dæld í seðilinn að nægja. Á hinn bóginn vildu margir talsmenn repúblíkana að öll atkvæði sem ekki væru fullkomlega götuð ætti að dæma ógild. Eftir talningu blaðanna tveggja kom í ljós að hefði leið repúblíkana verið farin hefði Gore sigrað kosninguna í Flórída með þremur atkvæðum. Þetta þýðir líklega að demókratar kjósa fastar eða ákafar en repúblíkanar.

Blöðin skoðuðu einnig atkvæði sem voru dæmd ógild vegna þess að tveir eða fleiri frambjóðendur voru kosnir, eða „overvotes“ eins og kosningaspekúlantar vestanhafs kjósa að kalla þau (hér heima gætum við hugsanlega kallað þau fjölkvæði). Mun algengara var að Al Gore deildi atkvæðum með öðrum frambjóðendum. Þetta túlkuðu talsmenn hans þannig að kerfið hafi verið of ruglingslegt og kjósendur hafi kosið tvisvar þegar þeir áttuðu sig á mistökunum. Sérstaklega virtust eldri borgarar eiga í erfiðleikum með að átta sig á kerfinu. Reyndar gætum við hugsanlega líka dregið þá ályktun að demókratar séu svo ákafir að kjósa að þeir eigi hreinlega í erfiðleikum með að hætta.

Það þarf þó ekki að fara langt aftur í tímann eða yfir heimshöfin til að finna áhugaverðar og umdeildar kosningar. Í Reykjavík tekst mönnum að deila um hvernig eigi að túlka niðurstöður kosninganna um flugvöll í Vatnsmýrinni þótt ekki sé deilt um hvernig atkvæði féllu. Í þeim kosningum var tekin upp sú nýbreytni að ekki var kosið með seðli heldur í tölvu.

Eldra fólk var duglegast að kjósa og að sögn áttu sumir erfitt með þessa nýju tækni. M.a. varð uppi fótur og fit í einni kjördeildanna þegar eldri borgari slökkti á tölvunni. Aðspurður sagðist hann hafa gert alveg eins og honum var sagt: „Stinga kortinu inn og ýta á takkann.“ Það hefur þó ekki verið gert mikið úr þessum erfiðleikum og hafa þeir ekki orðið að deiluefni. Borgarstjóri mætti þó huga að því að þarna gæti leynst vannýtt tækifæri til að túlka úrslit kosninga um ókomna framtíð. Til dæmis gæti Reykjavíkurborg keypt kjörvélarnar úr Palm Beach sýslu í Flórída (ég geri ráð fyrir að hægt sé að fá þær á hagstæðu verði) og haldið kosningar um hin og þessi mál. Borgarstjóri myndi svo túlka niðurstöðuna eftir sínu höfði og hafa vankvæði og fjölkvæði gild eða ógild á víxl, allt eftir því hvernig niðurstaðan yrði. Þannig þyrfti R-listinn ekki að hafa stefnu eða bera ábyrgð á nokkrum hlut, heldur lyti hann einungis vilja borgarbúa.

BÆS
deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)