Standast gaullistar áhlaup sósíalista á forsetaembættið?

Á næsta ári fara fram forsetakosningar í Frakklandi og fastlega er búist við því, að Lionel Jospin, sósíalisti og núverandi forsætisráðherra, bjóði sig fram gegn sitjandi forseta, gaullistanum Jacques Chirac. Franskir hægrimenn eiga nokkuð á brattan að sækja um þessar mundir og í nýafstöðnum bæjar- og borgarstjórnar-kosningunum féll helsta vígi þeirra, sjálf París, í hendur sósíalista.

Á næsta ári fara fram forsetakosningar í Frakklandi og fastlega er búist við því, að Lionel Jospin, sósíalisti og núverandi forsætisráðherra, bjóði sig fram gegn sitjandi forseta, gaullistanum Jacques Chirac. Franskir hægrimenn eiga nokkuð á brattan að sækja um þessar mundir og í nýafstöðnum bæjar- og borgarstjórnar-kosningunum féll helsta vígi þeirra, sjálf París, í hendur sósíalista. Spurningin er sú, hvort það gefi tóninn fyrir kosningasigur Jospins á næsta ári.

Eins og staða mála er nú í frönskum stjórnmálum deila sósíalistar og gaullistar völdum í því sem á frönsku er kallað cohabitation. Stjórnskipun Frakklands byggir á ríku hlutverki forseta við lagasetningu og þegar forseti hefur ekki þingmeirihluta á bak við sig, er um cohabitation að ræða. Þetta er þó alls ekki óalgeng staða í Frakklandi. Chirac var t.a.m. hinum megin við borðið á árunum 1986-1988 þegar Francois Mitterand var forseti. Chirac á hins vegar i miklu meiri erfiðleikum með Jospin nú en Mitterand átti í með Chirac sem forsætisráðherra.

Ein ástæðan fyrir því er hversu aðsópsmikill Jospin hefur verið í utanríkismálum. Ekki má gleyma því að tilurð Gaullistaflokksins (RPR) byggist á utanríkisstefnu stofnanda hans, Charles de Gaulle hershöfðingja. Undir stjórn de Gaulles á árunum 1958 og til 1969 naut flokkurinn mikillar hylli. Það var ekki síst að þakka upphafningu leiðtogans á því sem franskt var og andstöðu hans við áhrif Bandaríkjamanna á heimsmálin. Frakkar eru nefnilega siðaðir en ákafir þjóðernissinnar. Jospin hefur tekist að snerta þessa taug í frönsku þjóðarsálinni.

En vandræði gaullista eru líka heimatilbúin. Flokkurinn er af mörgum stjórnmálaskýrendum talinn mjög tækifærissinnaðir og hann skorti raunverulega stefnu og hugsjónir. Þegar Chirac kom í heimsókn til Ronalds Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseta, árið 1983 spurðu blaðamenn hann hvað fælist í hinum rómaða gaulisma. Chirac svaraði: „Gaullismi er raunsær hugsunarháttur, ekki kennisetning. Hann breytist í takt við tíðarandann. Enginn veit hvað de Gaulle hershöfðingi myndi segja ef hann væri hér í dag, en ég held að hann myndi segja það sama og ég.“ Margir eru á þeirri skoðun að ofurkapp Gaullista á sigur í forsetakosningunum árið 1995 hafi til lengri tíma grafið undan flokknum. Þá hafi innanflokksátök, þar sem Chirac og Eduard Balladur tókust á um völdin í flokknum og tilkall til forsetaembættisins, skaðað ímynd flokksins.

En mesti vandi RPR er sá, að hann hefur ekki markað sér nægilega sterka stöðu á hægri væng stjórnmálanna. Sósíalistar hafa í mörgu keyrt yfir miðju og er það talin ein helsta ástæðan fyrir kosningasigri í síðustu þingkosningum, að þá höfðu þeir öðlast tiltrú atvinnulífsins. Á sama tíma hefur dregið úr stuðningi fólks við Kommúnistaflokkin (PC) en flokkur þjóðernissinnans Le Pens nýtur enn nokkurs fylgis, einkum í sunnanverðu Frakklandi. Segja má að Sósíalistaflokkurinn (PS) sé nú þeirri stöðu sem Gaullistaflokkurinn var á 7. áratugnum og framan af þeim áttunda; hefur meiri tiltrú atvinnulífsins en áður, er ekki ógnað frá vinstri og kemur fram sem málsvari alls hins franska í utanríkismálum.

Franskir hægrimenn hafa eitt ár til stefnu að verjast áhlaupi sósíalista á forsetaembættið. Ófarir þeirra í nýafstöðunum bæjar- og borgarstjórnarkosningum þurfa ekki endilega að gefa tóninn fyrir sigur sósíalista. Þvert á móti gætið verið komið að fjórðu uppstokkuninni frá stofnun Gaullistaflokksins árið 1948. Sú fyrsta varð með valdatöku Georges Pompidous árið 1969, síðan tók Chirac við völdum um miðjan 8. áratugnum og stofnaði formlega RPR (Rassamblent Pour la République) árið 1976 og sú þriðja varð árið 1986 þegar flokkurinn stokkaði upp stefnuskrá sína með því sem var kallað Le renouveau, Pacte RPR pour la France. Ætli gaullistar að standast áhlaup sósíalista þurfa þeir á fjórðu uppstokkuninni að halda.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.