Vændi – hvar er glæpurinn?

VændiFrumvarp sem felur í sér að kaup á vændi og kynlífsþjónustu verði gerð refsiverð hefur verið í miklu hámæli að undanförnu. Í dag verður haldið málþing um efnið í Háskólanum í Reykjavík.

VændiskonaÞegar glæpur er framinn hver ber þá ábyrgðina? Að mínu mati eru það glæpamennirnir, einn eða fleiri sem bera ábyrgðina og þeir eiga líka að hljóta refsinguna. Nú liggur fyrir alþingi nýtt frumvarp þar sem gera á kaup að vændi refsiverð, en ekki söluna. Ef vændi er glæpur þá er þetta frekar sérkennilegt, ef vændi er hinsvegar ekki glæpur þá er þetta jafnvel enn sérkennilegra. Ég hef reynt að sjá réttlæti í því að kaupendum vændis sé refsað en ekki vændiskonunum, en mér gengur það mjög illa. Ég skil það fullkomlega að ógæfusamar stúlkur, og í sumum tilfellum strákar, leiðist út vændi án þess að geta mikið spornað við því. Samt finnst mér ekki að þau eigi að sleppa undan refsingu vegna félagslegra aðstæðna, ef kaupandanum verður refsað. Ég trúi ekki á goðsögnina um hamingjusömu hóruna, ég held að flestar vændiskonur hljóti að vera mjög óhamingjusamar og ég get ekki ímyndað mér verra eða dapurlegra hlutskipti í lífinu fyrir nokkra manneskju. Hins vegar finnst mér að ef vændi er glæpur, eigi allir sem koma að því, dólgarnir, viðskiptavinirnir og vændiskonurnar að bera ábyrgð. Hvaða siðferðislegu skilaboð erum við að senda frá okkur ef svo er ekki?

Fyrir utan siðferðislegu og félagslegu hliðina verðum við líka að velta fyrir okkur eðli laga. Mér finnst furðulegt að ætla að setja lög sem gera ákveðið athæfi glæpsamlegt, en aðeins sumir þeirra sem stunda það hljóta refsingu. Síðan má ekki gleyma því að sumt ógæfu fólk getur vegna félagslegra aðstæðna leiðst inn á aðrar brautir en vændi, t.d. hafa mörg ungmenni sem alist hafa upp við erfiðar aðstæður orðið fíkniefnum að bráð. Mörg hafa lent á þessari glapstigu mjög ung og ekki átt neitt raunverulegt upplýst val. Fíkniefnaneytendur fara síðan oft að selja efnin til að fjármagna eigin neyslu, en engum dettur í hug að segja að eiturlyfjasala sé glæpur, en aðeins kaupendurnir eigi að hljóta refsingu. En þetta er bara mín skoðun.

Klukkan þrjú í dag, 14. nóvember, halda Politica, félag stjórnmálafræðinema og ELSA, félag evrópskra laganema málþing um vændisfrumvarpið í Háskólanum í Reykjavík. Þar verða viðruð ólík sjónarmið og frumvarpið skoðað út frá pólitísku, siðferðislegu og lagalegu sjónarhorni. Ég hvet alla þá sem eiga möguleika, til að mæta og taka þátt. En ég efast um að mín skoðun breytist nokkuð, fyrir mér er glæpur það sama og glæpur og glæpamenn eru glæpamenn, sama hvaða ástæður liggja að baki.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.