Kínverskur kirkjugarður

kinakommunismi.jpgSagan segir að árið 1926 stuttu áður en að rússneski heimspekingurinn Ayn Rand, þá 21 árs gömul, yfirgaf Sovétríkin og flúði til Bandaríkjanna hafi ungur Rússi komið upp að henni í veislu og sagt henni að þegar hún kæmi til Bandaríkjanna ætti hún að segja Bandaríkjamönnum að Rússland væri einn stór kirkjugarður og að rússneska þjóðin væri öll að deyja.

kinakommunismi.jpgSagan segir að árið 1926 stuttu áður en að rússneski heimspekingurinn Ayn Rand, þá 21 árs gömul, yfirgaf Sovétríkin og flúði til Bandaríkjanna hafi ungur Rússi komið upp að henni í veislu og sagt henni að þegar hún kæmi til Bandaríkjanna ætti hún að segja Bandaríkjamönnum að Rússland væri einn stór kirkjugarður og að rússneska þjóðin væri öll að deyja.

Unga konan brást ekki löndum sínum og í fyrstu skáldsögu sinni, “We the living” sem kom út árið 1936 og byggir að töluverðu leyti á ævi hennar, fjallar hún á áhrifaríkan hátt um alræðisvald kommúnista í Sovétríkjunum. Hún lýsir eins og henni einni var lagið baráttu einstaklingsins við alræðisvaldið og illskunni á bak við ríki sem krefst ekki sjálfstæðis, frumkvæðis og sköpunar af þegnum sínum heldur sjálfsfórnar og gagnrýnislausrar hlýðni.

Sagan var ein fyrsta frásögnin af ástandinu í Sovétríkjunum sem var skrifuð af Rússa sem þekkti ástandið og hafði búið undir járnhæl alræðisríkisins. Á þeim tíma sem bókin kom út þekkti bandarískur almenningur ekki ástandið í Sovétríkjunum og voru kommúnistar tiltölulega áhrifamiklir í bandarísku þjóðlífi, sérstaklega á meðal menntaelítunnar. Var Ayn Rand neitað um útgáfu á bókinni í þrjú ár þar til hún kom út árið 1936 og var viðkvæði bókaforlaganna iðulega að hún skildi ekki sósíalisma!

Bókin náði ekki tilætluðum árangri á sínum tíma. Bandaríkjamenn skelltu skollaeyrum við þessum hryllingssögum frá Sovétríkjunum og höfðu lítinn áhuga á staðreyndum sem stönguðust á við ímyndina um sósíalíska draumaríkið. Staðreyndum sem mönnum er í dag er ljóst að voru réttar.

Hugurinn leitar til Ayn Rand þegar flóttamenn frá ýmsum alræðisríkjum koma fram á Vesturlöndum og segja frá ástandinu í heimalandinu. Saga hennar sýnir að það er mikilvægt að hlusta á flóttamenn, taka mark á reynslu þeirra og ekki gleypa einhverja draumaímynd sem oftast er samin af valdhöfunum í viðkomandi ríki. Flóttamenn hrópa nefnilega sjaldnast úlfur úlfur, vegna alræðisstjórna sem fara illa með þegna sína nema full ástæða sé til þess.

Nú er nýfarinn héðan Luo Gan sem er einn æðsti yfirmaður öryggis- og dómsmála í Kína. Flóttamenn frá Kína ásamt ýmsum alþjóðasamtökum hafa ítrekað birt fréttir um gífurleg mannréttindabrot kínversku alríkisstjórnarinnar á þegnum sínum. Umræddur Luo Gan er persónulega ábyrgur fyrir ýmsum viðurstyggilegum glæpum þar á meðal kom hann að árásinni á Torgi hins himneska friðar þann 4. júní 1989. Í ársskýrslu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2001 kemur einnig fram að hann hafði nána vitneskju um grófa misnotkun og pyntingar á föngum í kínverskum fangelsum þar á meðal kynferðislegri misnotkun á kvenkyns föngum.

Þau sjónarmið heyrast oft að ekki sé hægt að gera sömu kröfu til mannréttinda í Kína og annars staðar. Að allar breytingar þar eigi sér stað hægt og rólega og að við verðum að sýna þolinmæði gagnvart mannréttindabrotunum á meðan landið þokast í átt til kapítalismans. Einnig heyrist að sökum þess að kínverska hagkerfið sé að breytast yfir í markaðshagkerfi þá eigum við að umbera alræði ríkisins yfir þegnunum á flestum öðrum sviðum. Kína sé á réttri leið og því eigum við að halda sem mestum samskiptum við alræðisstjórnina og stunda viðskipti við hana. Því er meira að segja haldið fram að þeir sem gagnrýna einna mest mannréttindabrotin skilji ekki ástandið í Kína!

Slík fyrirheit hjá alræðisstjórnum um betri tíð og blóm í haga eru alþekkt í mannkynssögunni og hafa ítrekað verið notuð til að friðþægja heimsbyggðina. Eins og Ayn Rand orðaði ástandið í Sovétríkjunum á sínum tíma í pistli til lesenda sinna:

„…then, about five years later, you will read admission that things were pretty miserable in the Soviet Union five years ago, just about as bad as the prejudiced reactionaries had claimed, but now the problems are solved and the Soviet Union is a land of happiness, prosperity, industrial development, progress and power; about five years later, you will read that Trotsky (or Zinoviev or Kamenev or Litvinov or the “kulaks” or the foreign imperialists) had caused the miserable state of things five years ago, but now Stalin has purged them all and the Soviet Union has surpassed the decadent West in happiness, prosperity, industrial development, etc.; five years later, you will read that Stalin was a monster who had crushed the progress of the Soviet Union, but now it is a land of happiness, prosperity, artistic freedom, educational perfection am scientific superiority over the whole world. How many of such five-year plans will you need before you begin to understand?“

Við heyrum dásamlegar sögur af uppganginum í Kína á sama tíma og flóttamenn og alþjóðasamfélagið gerir lítið annað en að tala um mannréttindabrot, pyntingar og kúgun kínversku alræðisstjórnarinnar á þegnum sínum. Við erum að skella skollaeyrum við þessari háttsemi með því að púkka upp á mennina og stjórnarfyrirkomulagið sem er ábyrgt fyrir þessu ástandi. Þetta ástand verður einfaldlega alltaf við lýði á meðan alræðisstjórn kommúnista verður við völd í landinu. Alræði gengur í eðli sínu gegn rétti og tilveru einstaklingsins og þar með öllu sem mannréttindi og mannvirðing byggist á. Mannvirðing og mannréttindi eiga því aldrei samleið með alræðisfyrirkomulagi hvort sem það heitir kommúnismi, fasismi eða nasismi, sama hvað ráðamenn landanna segja. Kínverska alræðisstjórnin mun alltaf níðast á þegnum sínum.

Reykur þýðir yfirleitt að það sé bál kraumandi undir niðri. Fáir brugðust við frásögn og aðvörun Ayn Rand á sínum tíma sem gaf merki um hið hræðilega raunverulega ástand sem þegnar Sovétríkjanna bjuggu við. Sovétríkin voru einn stór kirkjugarður en flestum stóð á sama. Er ekki kominn tími til að taka höfuðið upp úr sandinum og fara að hlusta á kínverska flóttamenn í stað kínverskra ráðamanna. Það rýkur úr Kína.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.