11. september – að tveimur árum liðnum

wtc2.jpgÍ dag eru tvö ár liðin frá því að hartnær þrjúþúsund manns af ýmsu þjóðerni létu lífið fyrir hendi hugsjúkra brjálæðinga í mesta hryðjuverki sögunnar. Ellefti september er dagsetning sem greipt verður í huga allra hugsandi manna okkar tíma og minnst af öðrum kynslóðum um ókomna tíð.

wtc2.jpgÍ dag eru tvö ár liðin frá því að hartnær þrjúþúsund manns af ýmsu þjóðerni létu lífið fyrir hendi hugsjúkra brjálæðinga í mesta hryðjuverki sögunnar. Ellefti september er dagsetning sem greipt verður í huga allra hugsandi manna okkar tíma og minnst af öðrum kynslóðum um ókomna tíð.

Daginn eftir ódæðið skrifaði ég pistil hér á Deiglunni og lét þar svo um mælt, að hlutdeildarmenn þyrftu að gjalda. Þau orð voru í fullu samræmi við þá hluttekningu sem undirritaður og flestir íbúar hins vestræna heims sýndu Bandaríkjamönnum. En hvað hefur gerst á þessum tveimur árum? Hefur heimurinn breyst – til góðs eða ills?

Stríðið gegn hryðjuverkum

Segja má að sama dag og árásirnar voru gerðar hafi George W. Bush Bandaríkjaforseti lýst yfir stríði á hendur hryðjuverkamönnum um heim allan. Það stríð var og er að fullu réttmætt. Það er staðföst skoðun mín að hryðjuverkum sé ekki hægt að svara með öðrum hætti en að láta hart mæta hörðu. Innrásin í Afganistan og uppræting talibönsku ógnarstjórnarinnar var réttmæt orrusta í þessu stríði.

En þótt Bandaríkjamenn hafi með réttu látið hamar reiðinnar falla af fullum þunga á hið talibaníska Afganistan, hafa þeim verið mislagðar hendur með hamarinnar annars staðar. Hinn vestræni heimur, og raunar heimsbyggðin öll, stóð þétt við hlið Bandaríkjamanna í kjölfar hryðjuverkanna fyrir tveimur árum. Alþjóðleg samstaða ríkti um hernaðinn í Afganistan og hryðjuverkamennirnir virtust hvergi eiga höfði sínu að halla. En þá kom Írak.

Áhrif Íraksstríðsins

Þótt undirritaður hafi verið á þeirri skoðun að innrás í Írak hafi verið réttlætanleg á þeim grundvelli sem sagður var vera fyrir hendi – og reyndar tel ég að uppræting harðstjórnar Saddams hafi í sjálfu sér verið þarfaþing – þá verður að segja að Íraksstríðið hefur dregið mikinn mátt úr stríðinu við alþjóðleg hryðjuverk.

Í fyrsta lagi hefur alþjóðleg samstaða rofnað og það skiptir höfuðmáli. Ef ekki er alþjóðleg samstaða um samstilltar aðgerðir gegn hryðjuverkahópum sem starfa á heimsvísu, þá er sú barátta töpuð fyrirfram. Bandaríkin eða bandamenn þeirra munu aldrei vinna slíkt stríð upp á eigin spýtur. Slíkt stríð vinnst ekki með hernaðarmættinum einum saman. Með því sem virðist hafa verið hentistefnuákvörðun um innrás í Írak hafa Bandaríkjamenn kastað á glæ öflugasta vopninu í baráttunni við hryðjuverkaógnina – alþjóðlegri samstöðu.

Í öðru lagi er hernám Bandaríkjamanna í Írak olía á þann eld haturs sem lengi hefur kraumað í garð Bandaríkjanna í þessum heimshluta. Þótt fullyrða megi að Írakar sjálfir séu miklum mun betur settir nú en undir stjórn Saddams Hussein, þá mun innrásin og herseta bandamanna í gömlu Mesópótamíu verða sem beljandi fljót á myllu hörðustu öfgamanna og þess haturs sem sýkti huga ódæðismannanna þann 11. september 2001. Aftur á móti er það hugsanlegt að svo vel takist til að Írak verði fyrirmyndarríki og uppsprettulind lýðræðisbylgju á svæðinu öllu. Vonandi má það verða en útlitið er allt annað en gott eins og staða mála er nú.

Hið þríþætta stríð við hryðjuverk: heimavígstöðvarnar, alþjóðleg samstaða og uppræting hatursins

Fyrir réttum tveimur árum taldi ég sjálfan mig sem borgara í vestrænu þjóðfélagi hafa verið gerðan að þátttakenda í stríðinu gegn hryðjuverkum. Ég leit á það sem mitt hlutverk í því stríði að halda fast við trúnna á hið frjála, opna og lýðræðislega samfélag sem við erum svo lánsöm að búa í. Hryðjuverkin þann 11. september 2001 hefðu getað, og geta raunar enn, breytt okkar eigin hugsunarhætti svo mikið að við fórnum mörgum af mestu kostum okkar samfélags fyrir einangrun og öryggi.

Sá sigur sem hægt er að vinna á heimavígstöðvunum í stríðinu við hryðjuverkamenn er að halda sínu striki. Að mörgu leyti hefur okkur tekist það og jafnvel betur en búast mátti við. Verkefnið við sjálfa víglínuna er kannski enn vandasamara en orrustan á heimavígstöðvunum, ekki síst vegna þess að víglínan er ekki skýr. Alþjóðleg samstaða og samstilltar aðgerðir eiga sinn þátt í að skerpa sýn okkar á víglínuna. Sé sýn okkar ekki skörp getum við ekki tekist á við andstæðinginn sem skyldi og baráttan er fyrirfram töpuð. Handan víglínunnar verðum við líka að standa okkur. Við verðum að brúa bilið og uppræta hatrið sem ólgar í okkar garð – hatrið sem hélt um stýri flugvélanna þann 11. september 2001.

Þannig – og einungis þannig – mun okkur takast að vinna sigur í því stríði sem talið verður eiga sér upphaf fyrir réttum tveimur árum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.