Svarthvítir sigurvegarar

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum að Knattspyrnufélag Reykjavíkur tryggði sér íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í gær. Þrátt fyrir að tveimur umferðum sé ólokið í mótinu þá hefur Vesturbæjarstórveldið það mikla forystu í deildinni að ekkert lið getur náð þeim að stigum. Munu þeir því væntanlega taka við Íslandsmeistarabikarnum í næstu umferð þann 14. september næstkomandi þar sem þeir taka á móti Vestmannaeyingum í Frostaskjólinu.

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum að Knattspyrnufélag Reykjavíkur tryggði sér íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í gær. Þrátt fyrir að tveimur umferðum sé ólokið í mótinu þá hefur Vesturbæjarstórveldið það mikla forystu í deildinni að ekkert lið getur náð þeim að stigum. Munu þeir því væntanlega taka við Íslandsmeistarabikarnum í næstu umferð þann 14. september næstkomandi þar sem þeir taka á móti Vestmannaeyingum í Frostaskjólinu.

Árangur liðsins kemur fáum á óvart. Í liðinu er þvílíkt samansafn af hæfileikaríkum knattspyrnumönnum að ljóst var frá upphafi að Willum Þór myndi eiga í miklum erfiðleikum með að velja á milli þeirra allra og stilla upp byrjunarliði. Það kom á daginn að mesta vandamál þjálfarans var að hafa hemil á leikmönnum og gera eina liðsheild út úr öllum smákóngunum. Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig og í upphafi móts fóru að berast fréttir úr herbúðum KR um að mikill ágreiningur væri á milli þjálfarans og einstakra leikmanna. Þessi ágreiningur setti mark sitt á liðið og í júní tapaði liðið 3 leikjum í deildinni en vann aðeins einn á móti Val.

En menn tóku sig saman í andlitinu og þá lét árangurinn ekki á sér standa. Liðið hefur ekki tapað leik í deildinni frá því í júní, gert tvö jafntefli og unnið sjö leiki. Geta liðsins hefur farið stigvaxandi og óhætt að segja að það hafi toppað í leiknum á móti Fylki þann 24. ágúst síðastliðinn þar sem KR gjörsamlega yfirspilaði höfuðandstæðinginn úr Árbænum á köflum og vann sannfærandi 4-0 sigur.

Það sem hefur skilið að KR og Fylki síðustu ár er andlegt þrek leikmanna og er þetta tímabil engin undantekning. Þrátt fyrir að hafa fantagóðan mannskap þá virðast leikmenn Fylkis einfaldlega alltaf fara á taugum á endasprettinum og eru þá sjálfum sér verstir. Þannig hafa þeir tapað síðustu þremur leikjum með markatölunni 1-10! Á meðan ná leikmenn KR að höndla pressuna í kapphlaupinu um titilinn og standa uppi sem Íslandsmeistarar í fjórða skiptið á fimm árum.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er Knattspyrnufélag Reykjavíkur einfaldlega langbesta knattspyrnuliðið á Íslandi í dag. Yfir tuttugu leikmenn hafa komið við sögu í sumar og er breiddin það mikil að í sigurleiknum í gær á móti Grindavík var liðið án tveggja landsliðsmanna án þess að það kæmi að sök.

Eini titilinn sem er enn í boði er í Bikarkeppni karla og þar mun KR spila við FH þann 10. þessa mánaðar um sæti í úrslitunum. Miðað við leik liðsins upp á síðkastið er ljóst að það er líklegast til að hampa Bikarnum þann 27. september næstkomandi.

Það er náttúrulega ekkert öruggt í knattspyrnunni og Íþróttadeild Deiglunnar spyr að leikslokum þann 27. september. En í dag eru það hinir svarthvítu sem eru sigurvegarar.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)