Bush hefur brugðist

Hægri menn víða um heim töldu það sérstaka ástæðu til fagnaðar þegar repúblikaninn George W. Bush sigraði Al Gore í forsetakosningunum árið 2000. En nú eftir að reynsla hefur komið á störf hans í forsetaembætti er ljóst að hann átti þennan fögnuð lítið skilið.

Hægri menn víða um heim töldu það sérstaka ástæðu til fagnaðar þegar repúblikaninn George W. Bush sigraði Al Gore í forsetakosningunum árið 2000. Flestir töldu að kjör Bush gæti haft úrslitaáhrif um jákvæða þróun í átt til frelsis í alþjóðaviðskiptum auk þess sem líklegt væri að efnahagslegar áherslur hans kæmu til með að verka sem vítamínsprauta á öflugasta efnahagsveldi heims.

Þótt aðrir en Bandaríkjamenn hafi ekki atkvæðisrétt í Bandaríkjunum á stærstur hluti heimsbyggðarinnar mikið undir því að skynsamleg og skapleg stefna ráði för þeirra sem halda um stjórnartaumana í Washington. Það er því ekki óeðlilegt að margir aðrir en Bandaríkjamenn hafi haft nokkuð sterkar skoðun á því hvort heppilegra væri að Bush eða Gore bæri sigur úr býtum í nóvember 2000.

Sums staðar á Íslandi voru m.a.s. haldnar kosningavökur þar sem vakað var langt fram eftir morgni og fagnað ógurlega þegar útlit virtist fyrir að hinn frjálslyndi Bush væri að tryggja sér sigur. Aðrir óttuðust að sigur Bush kynni að hafa í för með sér einangrun Bandaríkjanna í alþjóðastjórnmálum og skeytingarleysi um samninga og siðvenjur í samskiptum ríkja. Þeir héldu ekki með Bush.

Nú tæplega þremur árum síðar getur maður vart trúað því að nokkur hugsandi maður hafi óskað sér þess að George Bush tæki við stjórninni í Washington. Og enn fáránlegra er vitaskuld að í þeim hópi sé fólk sem er í flestum mikilvægum málum algjörlega á öndverðum meiði við forsetann. Það skammarlegasta er þó vitaskuld að maður hafi sjálfur talið sérstaka ástæðu til þess að opna kampavínsflösku um miðja nótt á virkum degi, eftir að hafa þegar drukkið frá sér flest annað en starfsemi öndunarfæranna, til að fagna sigri George W. Bush.

En hrakspámennirnir höfðu rétt fyrir sér og nú kemur sífellt betur í ljós að stjórnarherrarnir í Washington valda hlutverki sínu ískyggilega illa á mörgum sviðum. Gagnrýnendur stjórnarinnar í Washington hafa frá upphafi forsetatíðar Bush reynt að benda á að stefna hans í efnahagsmálum sé brjálæðisleg. Útgjaldahækkanir og skattalækkanir fá þar að lifa og dafna í sameiningu með þeim augljósa fylgikvilla að nú stefnir í að fjárlagahalli næstu tveggja ára muni nema um eitt þúsund milljörðum dala samanlagt. Sé þessari tölu deilt á íbúa Bandaríkjanna kemur í ljós að fjárlagahallinn á haus er um þrjú þúsund og þrjú hundruð dalir á þessum tveimur árum. Og rétt er að benda á að þetta er einungis fjárlagahalli alríkisins; flest fylki og sveitarstjórnir glíma einnig við viðvarandi og alvarlegan rekstrarhalla.

Varðandi stefnu Bush í alþjóðamálum er fátt hægt að segja sem ekki hefur þegar verið sagt hér á Deiglunni. Þar er mikið kappið en lítil forsjá. Stríðsgleðin er öllum sorglega augljós og réttlætingarnar matreiddar eftir hentisemi dagsins. Raunverulegar lausnir á deilumálum eru öllum óljósar og virðast satt best að segja ekki vera neitt sérstaklega hátt skrifaðar á forgangslista Bandaríkjastjórnar.

Nú þegar styttist í næstu forsetakosningar vonast stærstur hluti heimsins, utan Bandaríkjanna a.m.k., eftir því að Texas-genginu verði ekki lengur leyft að leika sér með allt fína dótið í Washington og að einhver fullorðinn taki við. Og hvort sem sá fullorðni einstaklingur ákveður að sænga stöku sinnum með einhverjum öðrum en maka sínum er hjákátlegt vandamál í samanburði við það að sitja uppi með mann sem vill frekar sanna karlmennsku sína með napalmsprengjum og flugskeytum.

Það eru vafalaust margir sem geta tekið undir það sjónarmið sem víða heyrist í Bandaríkjunum um þessar mundir. Ef valið stendur á milli Bush og Clinton þá myndi maður frekar treysta Bush til að passa dóttur sína, en Clinton til þess að stjórna efnahags- og alþjóðastefnunni.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.