Íþróttaafrek hálfsársins

Fréttamenn hafa setið sveittir við að reikna saman stig. Íþróttamenn sýna sínar bestu hliðar og sitja heima á laugardagskvöldum. Eftirvæntingin skín úr andlitum mannfjöldans. Stundin er runnin upp. Niðurstöður hins árlega vals Deiglunnar á íþróttaafreki hálfsársins eru komnar í hús.

Á stundu sem þessari er við hæfi að rifja aðeins upp liðnar stundir. Eftirfarandi er stuttur listi um val Deiglunnar á liðnum árum:

1988: Ben Johnson hleypur hraðar en áður var talið mögulegt mönnum á Ólympíuleikunum í Seol.

1990: Maradona er feitasti maðurinn til þess að komast í úrslitaleik á HM í knattspyrnu í Bandaríkjunum.

1993: Ari Tómasson er Íslandsmeistari í hópkata karla í karate (í flokki 12 ára og yngri).

1998: Íslendingar vinna heimsmeistara Frakka næstum því á Laugardalsvelli með næstum því sigurmarki frá Ríkharði Daðasyni.

Hvernig er unnt að skera úr um hvort eitt íþróttaafrek er glæsilegra en annað? Að mörgu þarf að hyggja þegar að svona vali er staðið. Til er lítt þekkt val sem svipar til vali Deiglunnar á íþróttaafreki hálfsársins en það er val íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins. Í því vali koma iðulega upp deilumál um réttmæti þess. Er réttlætanlegt að velja handboltamann frekar en fótboltamann í ljósi þess að fótbolti er langvinsælasta íþróttin í heiminum en handbolti er í 114. sæti á lista yfir fjölda iðkenda í heiminum, á eftir mexíkönsku hanaati? Er réttlætanlegt að velja sundmann sem stendur sig ágætlega á heimsmeistaramóti fram yfir annan sundmann sem á fjöldann allan af heimsmetum í sundi fatlaðra? Er hægt að ganga fram hjá manni sem hefur einokað sína íþrótt frá því að hann hætti að nota bleyju eins og Guðmundur Stephensen?

Íþróttafréttadeild Deiglunnar hefur legið dag og nótt yfir afrekum þessa hálfsárs og hefur komist að niðurstöðu. Margt kom til greina: Vallarvörður þykist vera leikmaður og vinnur British Open í golfi. Íslendingur er mjög næstum því valinn í nýliðavali NBA. LA Lakers og Real Madrid safna í sæmileg lið sem gera næstu leiktíð „ógislea“ spennandi í sinni deild. Hið frækna lið Robbi vinnur Opna Landsbankamótið í fótbolta á Ingólfstorgi.

En það hlýtur samt að vera einn sigurvegari. Íþróttaafrek hálfsársins fyrri hluta 2003 er:

Jafntefli íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu við Norðmenn sem fleytti stelpunum í 17. sæti á heimslistanum. Það er þrisvar sinnum betri árangur en karlalandsliðið hefur nokkru sinni náð.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)