Stækkun ESB og sovétgrýlan

Á næsta ári verða aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) 25 talsins, en þau eru nú 15. Líklegt er að vaxtaverkir fylgi stækkuninni enda hin nýju ESB-ríki ólík hinum gömlu að ýmsu leyti. Flest eru þau fyrrum austantjaldsríki. Við stækkunina þarf að ná málamiðlunum milli fleiri og ólíkari þjóða en áður. Hvernig skyldi það ganga?

Á næsta ári verða aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) 25 talsins, en þau eru nú 15. Líklegt er að vaxtaverkir fylgi stækkuninni enda hin nýju ESB-ríki ólík hinum gömlu að ýmsu leyti. Flest eru þau fyrrum austantjaldsríki. Við stækkunina þarf að ná málamiðlunum milli fleiri og ólíkari þjóða en áður. Hvernig skyldi það ganga?

Undanfarið eitt og hálft ár hefur 105 manna þing stjórnmálamanna, ráðherra og skriffinna reynt að koma saman plaggi. Plaggið er ný stjórnarskrá Evrópusambandsins. Henni er ætlað að vera lím sem halda mun ólíkum ESB-þjóðum saman, þrátt fyrir afar misjafna hagsæld, menningu og sögu, að ekki sé minnst á tungumál. Aðalvandamálið er vald. Hvernig á að deila því milli ríkjanna annars vegar og stofnana ESB hins vegar. Hvernig á að deila því milli ríkjanna innbyrðis.

Ætlunin er að Evrópusambandið verði lýðræðislegra. Þjóðþingunum verður gefið meira vald til að hafa áhrif á gang mála innan ESB. Þingin verða í eins konar hlutverki knattspyrnudómara og verður gert kleift að lyfta „gulu spjaldi“ þegar lagafrumvörp frá framkvæmdastjórninni fara of langt inn á valdsvið þeirra. Evrópuþingið og Ráðherraráðið verða styrkt og gerð lýðræðislegri. Evrópuþingið fær að hafa meira um lagafrumvörp, fjárhagsramma ESB, flóttamannamál o.fl. að segja og ætlunin er að ráðherraráðið starfi meira fyrir opnum tjöldum, þótt efast megi um að ráðherrarnir verði áfjáðir í að fara úr hinum reykfylltu bakherbergjum.

Ljóst er að tilkoma nýrra ríkja í ESB, sem flest eru fyrrum austantjaldsríki, mun raska að mun valdajafnvægi innan sambandsins. Hin nýju 10 ríki munu hafa töluverð áhrif og þing þeirra munu geta farið að lyfta gulum spjöldum. Það er enda mikilvægt að þau fái áhrif og telji sig skipta máli. Þótt sovétgrýlan sé horfin af yfirborði jarðar er spurning hvort hún sé horfin úr hugum þegna fyrrum austantjaldsríkjanna. Hvort þar sé enn „hugrænt járntjald“.

Tökum Eystrasaltslöndin sem dæmi, Eistland, Lettland og Litháen. Í skoðanakönnunum hefur stuðningur þar við inngöngu í ESB verið hvað minnstur af þeim ríkjum sem fara inn á næsta ári. Því er haldið fram að sumir íbúar þessara landa séu vegna sovét-fortíðarinnar á varðbergi og hafi vantrú á stjórnmálamönnum og stjórnmálum yfirleitt. Þeir telji að hið yfirþjóðlega vald í ESB líkist því sem var í Sovétríkjunum og hafi tilhneigingu til að færa út kvíarnar og ná til sífellt fleiri sviða. Því hafi þeir þeirra illan bifur á sambandinu. Tíminn mun leiða í ljós hvernig þessum efasemdaröddum fyrir austan reiðir af og hversu langan tíma það tekur fyrir hið „hugræna járntjald“ að hverfa.

Hin nýja stjórnarskrá ESB hefur ekki enn komist í gagnið. Markmið hennar er m.a. að færa Evrópuríki austan og vestan nær hvert öðru. Javier Solana, yfirmaður utanríkismála hjá ESB, sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, fyrir skömmu, að þrátt fyrir misklíð vegna Íraksmálsins milli „gömlu“ og „nýju“ ESB-ríkjanna, þá væri hann sannfærður um að hin nýju ríki myndu verða hluti af Evrópu-fjölskyldunni. Að ótti þeirra við austrið – hin fyrrum Sovét-ríki – myndi minnka og hverfa.

Vonandi er að Javier hafi rétt fyrir sér.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)