Að vera sjálfs sín herra

atvinnuleyfi útlendingaFlestum þykir sjálfsagt að fá að vinna hjá hverjum sem er og skipta um atvinnurekanda ef vistin er slæm. Útlendingar sem starfa samkvæmt tímabundnum atvinnuleyfum eiga ekki sömu möguleika, þar sem leyfið er í höndum atvinnurekandans. Fyrir utan réttlætissjónarmið, myndi það leysa margan vanda að breyta forsendum slíkra atvinnuleyfa, launþega í vil.

atvinnuleyfi útlendingaSvokölluð „tímabundin atvinnuleyfi“ kallast atvinnuleyfi sem veitt eru atvinnurekanda til að ráða útlendinga til starfa. Til að fá slíkt leyfi, þarf atvinnurekandinn að sýna fram á að kunnáttumenn verði ekki fengnir innan lands, atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl eða aðrar sérstakar ástæður mæli með leyfisveitingu. Auk þess þarf atvinnurekandinn að standast ýmis skilyrði samkvæmt lögunum. Atvinnurekandinn þarf að standa skil á sjúkratryggingum fyrir starfsmanninn og ábyrgjast kostnað við heimflutning hans ef hann veikist, eða er sagt upp að ósekju.

Í staðinn fær atvinnurekandinn í hendurnar plagg sem gefur honum, og engum öðrum, leyfi til að hafa starfsmanninn í vinnu um tiltekinn tíma, á fyrirframumsömdum kjörum. Í lögunum er kveðið á um að þau kjör skuli vera til jafns við það sem heimamenn njóta. Slíkt er oft umdeilanlegt, eins og málflutningur stéttarfélags verkfræðinga bar með sér nú á dögunum, þegar félagið tók upp á því að mótmæla atvinnuleyfum nokkurra erlendra verkfræðinga.

Þeir erlendu starfsmenn sem til landsins koma eru oft og tíðum frá svæðum þar sem laun eru aðeins brot af launum hér á landi. Í slíkri aðstöðu eru menn tilbúnir til að skrifa undir nánast hvaða starfssamning sem gefur þeim kost á atvinnu á Íslandi. Þegar þeir svo koma til landsins hafa þeir um ekkert annað að velja en að starfa áfram samkvæmt upprunalegum ráðningarsamningi, enda er atvinnuleyfið nokkurs konar vistaband fyrir þá.

Það er þetta vistaband sem veldur tortryggni í garð atvinnurekenda sem nýta sér erlent skammtímavinnuafl. Ef markmið laganna er að tryggja að kjör erlendra starfsmanna séu sambærileg við kjör Íslendinga, væri ekki heppilegra að hverfa frá slíkum miðaldareglum og gefa útlendingunum möguleika á að skipta um vinnu eftir að hann kemur til landsins? Í slíku kerfi kæmist atvinnurekandi ekki hjá því að greiða samkeppnishæf laun því erlendi starfsmaðurinn gæti hvenær sem er skipt um vinnu, líkt og aðrir starfsfélagar hans. Ef starfsmaður segði upp á tímabilinu sem starfsleyfið kveður á um yrði upprunalegi atvinnurekandinn að sjálfsögðu laus undan skyldum sínum, og sá nýi tæki þær yfir.

Mótrökin við slíkri breytingu eru einkum tvenns konar. Annars vegar má halda því fram að ekki sé hægt að leggja þær skyldur á atvinnurekanda sem nú er gert varðandi tryggingar og ábyrgðir, ef launþeginn getur hvenær sem er gengið út. Það er auðvitað rétt að slík breyting myndi minnka hvatann til að ráða útlendinga. Á móti kemur að með því að draga úr tortryggni í garð þessara atvinnurekanda myndu breytingarnar minnka samúð með verkalýðsfélögum og öðrum hagsmunahópum sem berjast gegn slíkum atvinnuleyfum.

Hin mótrökin eru þau að ekki megi „sleppa útlendingunum lausum“ á vinnumarkaðnum þar sem þeir séu, jafnvel án vistabandsins, tilbúnir að vinna fyrir miklu lægri laun en Íslendingar og þrýsti þar með laununum niður á við. Pistlahöfundur hefur litla samúð með slíkum rökum. Sömu aðilar og halda þeim fram hlytu að hafa verið á móti því að konur fengju að taka til starfa á almennum vinnumarkaði, þar sem þær voru tilbúnar til að vinna á lægri launum en karlmenn, og atvinnurekendur færðu sér það í nyt, ekki síður en þeir myndu gera í tilviki útlendinga með tímabundin atvinnuleyfi.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að þeir sem starfa á Íslandi hafi frelsi til að ákveða sjálfir hjá hverjum þeir starfa og full ástæða til að endurskoða lög um atvinnuréttindi útlendinga með slíkt í huga.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)