Bæjarsamlag um ógöngur

Til hvers að kaupa alltaf nýrri og nýrri vagna ef menn geta ekki stillt klukkuna rétt í þeim sem fyrir eru? Af hverju er ekki hægt að skipta pening í strætó? Stundum þyrfti ekki mikið til að bæta strætisvagnaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Ég er almennt mikill áhugamaður um góðar almenningssamgöngur og er það af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þá nota ég strætó mikið og það er því í mína þágu að sú samgönguaðferð sé sem fljótlegust og hagstæðust. Ástæða nr. 2 tengist þörf minni fyrir að mynda mér sérstöðu á hægrivæng stjórnmálanna en almenningssamgöngur hafa hingað til annað hvort hlotið takmarkaðan áhuga íslenskra hægrimanna eða verið þeirra helsti skotspónn. Þannig virðist sem VefÞjóðviljinn hafi ávallt að minnsta kosti eina andstrætólega grein í pokahorninu sem birt er þegar nýjasta hefti The Economist tefst í tollinum.

Nú verður að segjast að sitt hvað hefur breyst til batnaðar t.d. þegar samgöngukerfi allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu voru sameinuð undir merkjum Strætó bs. Sú sameining skapaði mikil sóknarfæri fyrir hið nýja fyrirtæki sem hafa enn sem komið er ekki verið nýtt. Það er hreinlega oft sorglegt að sjá hvernig Strætó gerir farþegum sínum og sér sjálfu lífið óþarflega erfitt með skrýtnum ákvörðunum og stundum hreinni þvermóðsku.

Því hvað er það annað en þvermóðska að vilja ekki skipta pening í vögnunum? Nú er sumarið hafið og túristarnir fylla göturnar, hver með sinn fimmhundruðkall, ferskan út úr hraðbankanum. Það er auðvitað ekkert sjálfsagt að menn sem eru nýkomnir til landsins vaði í íslensku klinki til að borga 220 kr. fyrir ferðina. Að undanförnu hef ég oft orðið vitni að því að bílstjórinn hafi annað hvort þurft að hleypa fólki frítt inn í strætó eða beðið í nokkrar mínútur eftir að það skipti peningum í nálægri sjoppu. Nú þegar allar aðrar stofnanir taka við kortum verður enn að mæta með sundurtalna mynt inn í vagninn.

Annað mál og fyndið eru stórar „Þú ert hér, við komum rétt strax“ auglýsingar á mörgum strætóskýlum. Þær samanstanda af ofannefndri setningu og stórri rauðri doppu eins og þeim sem eru oft á landkortum og eiga svipta hulunni af staðsetningu viðkomandi. Það fyndna er að doppuna vantar svo oftast á kortið inni í strætóskýlinu, svo að farþeginn verður að reiða sig á sína eigin visku til að komast að því hvar hann sé. Stóra doppan er bókmenntalegt tákn, en líkt og álfar og drekar sjálf ekki til staðar í efnisheimi.

Til hvers að kaupa alltaf nýrri og nýrri vagna, þegar ómögulegt reynist að hafa rétt stillta klukku í þeim sem fyrir eru? Sömuleiðis eru útskýringar á stoppistöðvunum allt of flóknar. Flestir sem fara á stoppistöðvar gera það til að fá svarið við spurningunni: „Hvenær kemur næsti strætó?“ Það væri því best að skilti á hverri stöð mundi svara þeirri spurningu. Vissulega er það flóknara en að dreifa sama yfirlitskortinu á alla staði, en væri það ekki betra fyrir farþega? Síðan mætti gefa öllum stoppistöðvum nöfn og jafnvel hafa tölvuskilti í miðjum vagninum sem tilkynnir farþegum hver næsta stöð sé.

Nýlega hefur verið tekið í notkun nýtt kerfi á síðunni www.bus.is, sem finna á stystu leið í strætó milli tveggja staða. Þó að hugmyndin sé góð og kerfið ekki alslæmt og það þó ekki þægilegt í notkun og töluvert virðist vanta upp á villuprófun. Ég ætlaði til dæmis að finna bestu leið frá heimili foreldra minna Tindaseli, heim til mín í Efstasund 100 á kvöldin um helgar. Ég sló inn Tindasel og fékk að vita að húsnúmer vantaði. Gatan Tindasel samanstendur af einu númeri. Ég sló þá inn „Tindasel 1a“ og fékk villuna „villa í húsnúmeri“ (ekki hafði verið gert ráð fyrir bókstöfum í húsnúmerum).

Eftir nokkra leit lagði Ráðgjafinn til eftirfarandi leið:



Leið 111 20:21 Skógarsel Verslunarskóli 20:42

Leið 5 21:09 Verslunarskóli Sunnutorg 21:52

Tæplega 90 mínútur á leiðinni auk þess sem, ja, 111 stoppar ekki hjá Verslunarskólanum og Sunnutorg er 2 stöðvum frá heimili mínu sem vekur upp spurningu af hverju kerfið vill svo mikið fá uppgefið húsnúmer.

Sjálfur nýti ég mér eftirfarandi tengingu.

Leið 111 20:21 Skógarsel Mjódd 20:38

Leið 12 20:38 Mjódd Grensás 20:44

Leið 5 20:44 Grensás Drekavogur 20:51

Rúmlega hálftími. Sjálfur notaðist ég við sambærilegt kerfi í Berlín og það klikkaði aldrei þrátt fyrir að samgöngukerfi Berlínar sé töluvert flóknara en leiðakerfi Strætó bs. Það er því ljóst að að forritarar sem komu að gerð kerfisins hafi gefið sér rangar forsendur eða gert villur við forritun því ekki er eðlilegt að maður með leiðaskrá geti haft betur en tölva um allt að 60 mínútur við lausn á sk. stystuleiðarvandamáli.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.