Betur má ef duga skal

Pistlahöfundur var minntur á það á Hvítasunnudag að ekki hefur verið losað um öll óþörf höft í okkar þjóðfélagi. Lögreglan hafði lokað 10-11 búð vegna úreltra laga um helgidagafrið. Mjólkurlausir neytendur þurftu frá að hverfa, en lögreglan hafði ekki gert athugasemd við myndbandsleigu í sama húsi.

Fyrir kosningarnar var rætt talsvert um það aukna frelsi sem við búum við, á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Ríkisstjórnin á heiður skilinn fyrir margar af þeim tilslökunum, en betur má ef duga skal.

Eins og pistlahöfundur var rækilega minntur á á Hvítasunnudag, hefur ekki verið losað um öll óþörf höft í okkar þjóðfélagi. Lögreglan hafði lokað 10-11 búð vegna úreltra laga um helgidagafrið. Fyrir innan læstar dyrnar stóð starfsfólkið og raðaði í hillurnar, enda ekki bannað að vinna á þessum degi. Hinsvegar segja lögin til um það að kjörbúðir megi ekki vera opnar. Mjólkurlausir neytendur þurftu því frá að hverfa, en á sama tíma var hægt að leigja sér myndbandsspólu eða kaupa sér snakkpoka, því í húsinu var opin myndbandsleiga sem engar athugasemdir voru gerðar við.

Kjörbúðum er ekki treyst til að hafa opið á helgidögum, líklega vegna þess að þær gætu freistað trúaðra einstaklinga til að fara að versla í stað þess að vera heima og iðka trúna í kyrrð og ró. Þeim er heldur ekki treyst til að selja bjór eða léttvín af ótta við að veigarnar freisti neytenda um of. Fyrir vikið þarf fólk að ákveða með góðum fyrirvara ef á að bjóða í mat svo hægt sé að kaupa drykkjarföngin. Nú eða vera vel birgur, með tilheyrandi lagerkostnaði.

Ríkisstjórnin hefur vissulega dregið úr ýmsum hömlum og aukið markaðsvæðingu. Ein af undarlegri eignum sem hægt er að fjárfesta í er þó mjólkurkvótinn. Því heyrist oft fleygt að hér sé um skilvirka markaðslausn að ræða. Rökin eru þau að hér er um framseljanlegan rétt að ræða, og eins þykir sumum að öll kvótakerfi hljóti að vera góð. En mjólkurkvótinn, ólíkt fiskveiðikvóta, gefur ekki rétt til að ganga að náttúrulegri, takmarkaðri auðlind. Hann gefum mönnum áskriftarrétt að greiðslum frá ríkinu fyrir að framleiða mjólk.

Þetta er aðeins örstutt upptalning, en minnir okkur þó á að enn er mikið af úreltum haftastefnulögum og -reglugerðum í gildi, og jafnvel enn verið að setja þau. Sagt hefur verið um trúarbrögð að þau séu ágæt til síns brúks, svo fremi sem þess er gætt að þegar trúarbrögðin stangast á við skynsemina, fái skynsemin að ráða. Því miður fær skynsemin ekki að ráða þegar ríkið setur óskynsamleg lög og því er mikilvægt að ríkistjórnin haldi áfram því góða starfi að afnema óskynsamleg lög og setja (að mestu) skynsamleg lög í staðinn.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)