Ísland æ oftar til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu

Undanfarið rúmt ár hefur Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg (MDE) tekið til efnismeðferðar þrjú mál gegn íslenska ríkinu. Í tíu ár þar á undan (1992-2002) tók dómstóllinn til efnismeðferðar fjögur íslensk mál, en alls hefur dómstóllinn fjallað efnislega um ellefu íslensk mál frá því að Íslendingar gerðust aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu á 6. áratugnum. Það er því greinilegur stígandi í málafjöldanum og undanfarið ár alveg sérstakt að þessu leyti.

Undanfarið rúmt ár hefur Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg (MDE) tekið til efnismeðferðar þrjú mál gegn íslenska ríkinu. Í tíu ár þar á undan (1992-2002) tók dómstóllinn til efnismeðferðar fjögur íslensk mál, en alls hefur dómstóllinn fjallað efnislega um ellefu íslensk mál frá því að Íslendingar gerðust aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu á 6. áratugnum. Mun fleiri íslensk mál hafa verið kærð til MDE en hann ákveðið að taka ekki til meðferðar, þar sem þau hafa ekki uppfyllt ströng skilyrði þess. Það er því greinilegur stígandi í málafjöldanum og undanfarið ár alveg sérstakt að þessu leyti.

Þegar MDE tekur mál gegn ríkjum til efnismeðferðar leiðir það í langflestum tilfellum til þess að ríkin eru dæmd brotleg við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Af þeim sökum sjá ríki sér hag í því að semja við kæranda áður en dómstóllinn kveður upp dóm, þar sem ríki eru ekki áfjáð í að verða sakfelld fyrir mannréttindabrot. Flestum íslenskum málum hefur lokið með sátt. Aðeins í þremur tilfellum hafa mál gengið alla leið til efnisdóms (Þorgeir Þorgeirson gegn Íslandi 1992, Sigurður Sigurjónsson gegn Íslandi 1993 og Pétur Þór Sigurðsson gegn Íslandi 2003).

Þau þrjú íslensku mál sem hafa verið tekin til efnismeðferðar undanfarið eitt ár reyna hvert á sitt ákvæði í MSE. Hið fyrsta, Sigurþór Arnarsson gegn Íslandi (Vegas-mál), fjallar um réttinn til milliliðalausrar málsmeðferðar í opinberum málum skv. 6. gr. MSE. Í öðru málinu, Hilda Hafsteinsdóttir gegn Íslandi reynir á lögmæti frelsissviptingar vegna ölvunar, skv. 5. gr. MSE og hið þriðja, Kjartan Ásmundsson gegn Íslandi, fjallar um friðhelgi eignarréttarins skv. 1. gr. 1. viðauka við MSE, en þar á í hlut sjómaður sem var sviptur rétti til örorkubóta með lögum.

Þá er eitt annað mál Íslendings til skoðunar hjá MDE, en það er mál Sophiu Hansen gegn Tyrklandi. Búist er við að dómur verði kveðinn upp í því máli á þessu ári en það var tekið til efnismeðferðar árið 2001. Skv. heimildum greinarhöfundar er a.m.k eitt íslenskt mál á leið til MDE, mál Jóns Steinars Gunnlaugssonar (um tjáningarfrelsi verjanda sakaðs manns skv. 10. gr. MSE), og hugsanlega annað, s.k. Mólotoff-kokteils-mál (um skýrleika refsiheimilda skv. 7. gr. MSE).

En hverjar skyldu vera ástæður þessa aukna málafjöldi íslenskra mála hjá MDE? Líklegasta skýringin er sú að sífellt fleiri íslensk mál séu kærð til dómstólsins. Það er í samræmi við þróun í öðrum Evrópuríkjum, en málum sem kærð voru til MDE fjölgaði úr rúmum 4.000 árið 1998 í rúm 30.000 árið 2001. Æ fleiri, hérlendis og í öðrum ríkjum Evrópu, gera sér grein fyrir því að MDE er raunhæft úrræði fyrir þá sem telja brotin á sér mannréttindi. Hann er öryggisventill borgarans í viðureign sinni við ríkið. Standi handhafar opinbers valds í heimaríkjunum sig ekki í stykkinu, og fari þeir út af vandrötuðum mannréttindastígnum, fá þeir dóm í hausinn frá MDE.

Ofangreind mál, og önnur mál, sýna að Ísland er ekki laust við mannréttindabrot, frekar en önnur ríki. Íslenska ríkið hefur þegar fengið allnokkrar ádrepur frá Strassborg og ekkert bendir til að þeim fari fækkandi. Af þeim verða menn, og eiga, að draga lærdóm og bæta ráð sitt. Þeir sem fara með opinbert vald, Alþingi, framkvæmdavald, dómstólar, lögregla, verða að fara með vald sitt af virðingu og vandvirkni, með mannréttindi borgarans í huga. Dæmin sýna að í þeim efnum er víða pottur brotinn.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)