En hver sá sem ákallar nafn Drottins mun frelsast!

Jesú KristurFagnaðarerindið er boðaskapurinn um fæðingu Jesú Krists, dauða hans og upprisu og frelsun alls mannkyns. Það er hægt að boða fagnaðarerindið á margan hátt og á ýmsum stöðum. Umdeildastir hafa líklegast verið þeir sem í daglegu tali eru kallaðir kristniboðar.

Jesú KristurEn hver sá sem ákallar nafn Drottins mun frelsast.

Postulasagan, 2:21.

Fagnaðarerindið er boðaskapurinn um fæðingu Jesú Krists, dauða hans og upprisu og frelsun alls mannkyns. Í þesu birtist kærleikur Guðs, föður okkar á himnum, en hjá honum hefur okkur verið búinn staður þar sem við munum lifa í návist hans að eilífu.

Fyrir þá sem trúa á Jesú Krist eru orð hans nokkuð sem maður vill tileinka sér og fara eftir. Þegar Jesús birtist lærisveinum sínum í síðasta skipti eftir upprisuna, áður en hann steig upp til himna, bauð hann þeim að prédika skyldi nafn hans öllum þjóðum. Í Matteusarguðspjalli 28:18-20 segir: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum mínum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Í hinum guðspjöllunum þremur er að finna svipaðan teta. Jesús segir lærisveinum sínum að boða kristindóminn öllum þjóðum. Hann segir þeim að gera þær að nýjum lærisveinum. Sá sem gerist lærisveinn Krists hlýtur því að gera þessa kristniboðsskipun að sinni köllun og halda áfram að boða Krist. Það er þá bæði skylda og löngun kristinna manna að boða líf með Jesú öðrum til hjálpræðis.

Það er hægt að boða fagnaðarerindið á margan hátt og á ýmsum stöðum. Umdeildastir hafa líklegast verið þeir sem í daglegu tali eru kallaðir kristniboðar, þ.e. fólk sem ferðast til annarra landa til að segja frá Jesú. Ekki eru allir sammála um að það sem þeir gera sé réttlætanlegt. Margir líta á þetta sem nokkurs konar tilraun til að gera heiminn að einu stóru menningarríki. Þeir hinir sömu segja að við höfum engan rétt til að útrýma siðum og menningu gamalla þjóða og reyna að gera úr þeim þjóðfélag sem líkist meira því sem við þekkjum á Vesturlöndum.

Það sem er áberandi í frásögnum kristniboða er gleðin sem fagnaðarerindið færir þeim sem á þá hlýða. Hjá fólki sem lifað hefur í ótta við ill öfl og anda allt sitt líf er fagnaðarerindið raunverulegt fagnaðarerindi sem frelsar þau undan oki andatrúarinnar. Það er engin hamingja sem fylgir því að þurfa að drepa barnið sitt af því tennur þess koma fyrst niður í efri gómi. Heldur ekki umskurn telpna til að gera þær að hæfum eiginkonum. Boðskapurinn um þann Krist sem sigraði sjálfan dauðann til að við mættum lifa er það sem færir þessu fólki lífsgleði.

Kristniboðar stunda ýmis önnur störf en eingöngu að stofna kristnar kirkjur og söfnuði. Starf þeirra í þágu menntunar og heilsugæslu er einnig mjög mikilvægur þáttur. Eitt sinn er kristniboði var að útskýra starf sitt sagði hann: „Ef ég gengi upp að þér og segði þér á ahamarísku hvað Jesús gæti gert fyrir lífið þitt myndirðu ekki hlusta. Ef ég kem með sprautu og lækna þig veistu að það sem ég er að gera er gott.“ Líklegast er þetta ekki svona einfalt en vissulega er það rétt að þörf fólksins er mikil og til þess að það taki orð Guðs trúanleg verður það að sjá einhverja von um að því fylgi betra líf. Menntun bæði karla og kvenna stuðlar að sjálfstæði og meiri lífsgæðum íbúanna. Kristniboðar hafa unnið ómetanlegt starf í grunnmenntun þar sem þeir starfa.

Það er því enginn vafi á að starf kristniboða í þróunarlöndum er mjög þarft. Auk þess að færa hinum innfæddu von um eilíft líf með Guði og vitneskju um elsku kans, færa þeir þeim von um bjartari framtíð og aukið sjálfstæði. Hægt er að hlýða kristniboðsskipun Drottins á ýmsan hátt. Þetta er ein leiðin og jafnframt sá vettvangur þar sem þörfin er mest. Vonandi verður hún til þess að von Krists um lærisveina allra þjóða verði að veruleika.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)