Glæpsamleg afglöp barna?

Glæpsamleg afglöp barnaÓgjörningur getur reynst að ákvarða sökudólga í sakamálum þar sem börn eru gerendur. Fremja börn glæpi, eða verða þau uppvís að afglöpum?

Glæpsamleg afglöp barnaLiðin eru tíu ár síðan að tveir tíu ára drengir urðu valdir að dauða þess þriðja, þá tveggja ára að aldri. Drenginn höfðu þeir numið á brott með sér úr verslunarmiðstöð í Liverpool, og pyntað illþyrmilega áður en þeir tóku hann af lífi. Atburðarrásin öll var svo hroðaleg og sorgleg að því verður vart með orðum lýst.

Það sem greinir þetta ógeðfellda mál, frá öðrum miður geðfelldum er sú staðreynd, að í þessu tilviki höfðu börn tekið líf annars barns. Sökum þess fékk málið heimsathygli, og hugmyndin um að ekki væri lengur hægt að treysta á öryggi barna í félagsskap annarra barna virtist ræna fólk einhverju. Síðasta hálmstráið í sífellt harðnandi heimi. Í sögulegu tilliti eru barnungir morðingjar samt sem áður fyrirbæri sem er síður en svo nýtt af nálinni.

Felmtri sleginn almenningur í Bretlandi, og víðar, tók því strax gríðarharða afstöðu gegn piltunum tveimur. Þeir voru illskan í sinni hreinustu mynd og þeim varð að refsa. Óhætt er að fullyrða að hefði fullorðinn maður, jafnvel faðir eða frændi drýgt glæpinn, hefði málið sjálfsagt aldrei orðið slíkt umfangs, sem raun bar vitni.

Drengirnir voru dregnir fyrir dóm sem fullorðnir menn, og dæmdir sem slíkir. Eftir átta ára afplánun, sem samsvarar um helmingi lífsskeiðs þeirra, var þeim sleppt og þeim fengin ný nöfn og ný fortíð.

Ný líf á silfurfati’ , myndu sumir segja, ef til vill hnussandi um leið, með svipmynd af litla drengnum sér fyrir hugskotssjónum. Lífið sitt til baka’ , myndu aðrir segja, ef til vill fegnir eða jafnvel skömmustulegir fyrir það eitt að lifa í því samfélagi sem dæmdi þá.

Í engu er hægt að fullyrða um þær ástæður sem lágu að baki verknaðinum, en um leið er ekkert sem gæti mögulega afsakað hann. Spurningin snýst í raun og veru um hvort hafi verið ráðandi afl í afleitri hegðun ungra drengja, ytri áhrif eða innri hvatir. Við hverja er að sakast? Er við einhverja að sakast?

Að manneskjan fæðist í heiminn sem óskrifað blað hlýtur að vera nokkuð viðtekin skoðun. Það sem gerist þar á milli, þar til einstaklingur kemst til vits eða þar til að munur á réttu og röngu er greinanlegur, hlýtur að ráðast af umhverfinu. Samspil erfða og umhverfis þykir móta manneskjuna, og ljóst er að fyrir illsku og slælegri dómgreind er ekki kóðað í genamenginu. Það er hinsvegar ógjörningur að ákvarða nákvæmlega hvaðan fordæmanlegt óeðli er komið, eða á hvaða þroskastigi einstaklings er í raun hægt að fordæma það.

Hvort börn fremji glæpi, eða hvort vísa verður til þeirra sem afglapa er ákaflega víðfeðm spurning sem enginn verður öfundaður af að þurfa að svara.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.