Bilið ekki brúað

leiður trúðurÍ dag eru þrjár vikur liðnar frá kosningum og það er kannski eins og að bera í bakafullann lækinn að fjalla um úrslit Alþingiskosninganna. Samfylkingin bæti við sig 4 prósentustigum sem verður að teljast nokkuð gott –en þó ekki nógu gott með tilliti til þeirrar staðreyndar að þetta var eitt af betri sóknarfærum á Sjálfstæðisflokkinn.

leiður trúður

Strax eftir kosningarnar kepptist Samfylkingarfólk við að lýsa yfir stórsigri flokks síns, enda bætti flokkurinn við sig nokkru fylgi og getur verið ánægður með það. Flokkurinn er í dag næststærsti flokkur landsins og hlaut yfir 30% atkvæða, en nú telur þetta sama fólk að ekki hafi tekist nægilega vel upp þar sem ríkisstjórnin situr enn með nokkuð öruggan þingmeirihluta. Þessi niðurstaða hlýtur að teljast nokkur vonbrigði fyrir Samfylkinguna þar sem hún fór fyrir stjórnarandstöðu sem sótti hart að meirihlutanum undir þeim formerkjum að það þyrfti að breyta breytinganna vegna.

Ein mestu vonbrigði Samfylkingarinnar dundu yfir með morgunkaffinu daginn eftir kosningar þegar í ljós kom að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir næði ekki kjöri sem þingmaður. Hún var forsætisráðherraefni flokksins og gekk öll kosningabaráttan út á það, enda héldu sumir að hún væri í forsetaframboði þegar auglýsingar tóku að birtast þar sem hún kom fram í hvítri dragt, í einni hvítustu og best þrifnu stofu landsins. Hún var eins og óspölluð jómfrú. En eins og bent var á hér á Deiglunni í febrúar þá voru möguleikar hennar á því að verða forsætisráðherra ekki miklir. Formaður flokksins tók af allan vafa daginn eftir kosningar þegar hann sagði að Samfylkingin gerði ekki kröfur um forsætisráðherrastólinn, þrátt fyrir að flokkurinn hefði (að hans mati) unnið sögulegan sigur og hann fullyrti að Ingibjörg yrði ráðherra ef Samfylkingin færi í ríkisstjórn þó hún væri utan þings.

En úrslit kosninganna verða að teljast vonbrigði fyrir Samfylkinguna þegar það er skoðað í hversu góðu sóknarfæri flokkurinn var. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með stjórnarforystu samfleytt í tólf ár og í stjórnmálum þykir það yfirleitt gott að sækja að svo þaulsetnum flokkum, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin glímdi við mörg erfið mál á síðasta kjörtímabili. Neikvæðar umræður sköpuðust um prófkjör og uppstillingar hjá Sjálfstæðisflokknum í nánast öllum kjördæmum og gamlir sjálfstæðismenn voru víða í framboði gegn flokknum. Samfylkingin stillti upp helstu vonarstjörnu sinni, sigursælum borgarstjóra og einnig var Ellerti Schram, gömlum þingmanni Sjálfstæðisflokksins og forseta ÍSÍ, stillt upp í framvarðasveit. Öllu var til tjaldað en allt kom fyrir ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins þrátt fyrir að hljóta þriðju verstu útkomu sína frá upphafi og er einnig áfram stærsti flokkurinn í Reykjavík.

Samfylkingin náði ekki að brúa bilið og þess ber að gæta að flokkurinn varð ekki til úr engu, þar sem þeir fjórir flokkar sem stóðu að stofnun hans hlutu tæplega 40% fylgi í kosningunum 1995. Vinstri grænir spruttu einnig upp úr þessum hræringum og eru þeir um 9% flokkur í dag.

Það er óvíst hvort Samfylkingin fá aftur annað eins sóknarfæri og nú. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn muni við lok næsta kjörtímabils hafa setið í ríkisstjórn samfleytt í 16 ár þá verða aðstæður allt aðrar en nú. Að öllu óbreyttu þá mun flokkurinn ekki leiða ríkisstjórn við næstu kosningar og einnig er ljóst að betur verður staðið að prófkjörum og uppstillingum þar sem Sjálfstæðisfólk hefur nú fjögur ár til að endurskoða vinnureglur sínar. Miðað við þær aðstæður sem gert hefur verið grein fyrir hér að ofan þá hefur ríkisstjórnin haldið velli vegna góðrar stjórnunar ríkisfjármála og almennrar hagsældar.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.