Ábyrg blaðamennska

Ábyrg blaðamennskaAðalfrétt vikunnar er eflaust að fjórir ungir menn hafa einn af öðrum verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna meintra fjársvika gagnvart Landssímanum og eru þeir grunaðir um að hafa svikið út allt að 200 millljónir króna. Þrátt fyrir að það sé gömul tugga að fara enn á ný að velta upp friðhelgi einstaklinga sem eru grunaðir um refsiverðan verknað þá getur maður ekki orða bundist vegna meðferðarinnar sem fjórmenningarnir eru að fá núna í fjölmiðlum.

Ábyrg blaðamennskaAðalfrétt vikunnar er eflaust að fjórir ungir menn hafa einn af öðrum verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna meintra fjársvika gagnvart Landssímanum og eru þeir grunaðir um að hafa svikið út allt að 200 millljónir króna. Þrátt fyrir að það sé gömul tugga að velta upp friðhelgi einstaklinga sem eru grunaðir um refsiverðan verknað þá getur maður ekki orða bundist vegna meðferðarinnar sem fjórmenningarnir eru að fá núna í fjölmiðlum.

Fljótlega eftir handtökurnar á þremur mannanna höfðu margir fjölmiðlar birt nöfn þeirra. Í gær var síðan fjórði maðurinn handtekinn og hafa sumir fjölmiðlar birt nægjanlegar upplýsingar um hagi hans til að hægt sé auðveldlega að finna út hver hann er. Í kjölfarið hefur sprottið upp alls kyns umræða í fjölmiðlum og á netinu um fjárfestingar þessara athafnamanna og um fjárreiður þeirra. Þetta hefur gengið svo langt að fluttar hafa verið fréttir af allt niður í skuld eins þeirra upp á 37.000 kr. sem hann greiddi eftir að fjárnámsbeiðni hafði borist.

Fjölmiðlafárið í kringum fjórmenningana er klárlega farið að valda miklu tjóni. Burt séð frá skaðanum fyrir þeirra nánustu þá flytja sumir fjölmiðlar ítrekað fréttir af viðskiptasamningum sem hefur verið slitið eða fréttir þar sem einhver er að sverja fjórmenningana af sér. Öll fyrirtæki sem mennirnir hafa átt aðild að eru dregin inn í umfjöllunina og virðast flestir viðskiptafélagar þeirra liggja undir grun og vera á milli tannanna á fólki þessa dagana.

Fjórmenningarnir hafa hvorki verið ákærðir né dæmdir fyrir meint brot og meirihluti þeirra neitar sök í málinu. Það skiptir engu máli hversu líklegt það sé að þeir verði sakfelldir eða hvort þeir verða það á endanum, þeir eru einfaldlega alltaf saklausir uns sekt þeirra er sönnuð. Með umfjöllun sinni hafa sumir fjölmiðlar valdið fjórmenningunum og aðstandendum þeirra óþarfa sársauka og vanvirðu án þess að nokkur málefnaleg ástæða réttlæti það.

Þetta fjölmiðlafár vekur enn á ný upp áleitnar spurningar um ábyrgð fjölmiðla og getuleysi þeirra til að taka á eigin agamálum. Í 2. mgr. 4 gr. siðareglna blaðamanna kemur fram að í frásögnum af dóms- og refsimálum skulu blaðamenn virða þá meginreglu laga að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Í greininni kemur einnig fram að blaðamenn skuli hafa ríkt í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefst nafnbirtingar. Í 3. gr. reglanna kemur svo fram að blaðamenn skuli vanda upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýna fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Það er nánast útilokað að umfjöllun sumra fjölmiðla á síðustu dögum samrýmist þessum ákvæðum í siðareglunum.

Samkvæmt 6. gr. siðareglanna sér Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands um að úrskurða vegna meintra brota á siðareglunum. Því miður hafa fjölmörg dæmi á síðustu árum sýnt fram á algjört getuleysi siðanefndarinnar til að taka á þessum málum. Samkvæmt heimildum sem Deiglan hefur ástæðu til að treysta er það útbreidd skoðun innan Blaðamannafélagsins að siðareglurnar séu það rúmar og óljósar að ekki sé hægt að refsa blaðamönnum og fjölmiðlum á grundvelli þeirra. Þetta er mikill misskilningur því þar sem reglur eru þannig úr garði gerðar fellur það einmitt í skaut úrskurðaraðilans að túlka þær og fylla með framkvæmd og móta þannig venjur og fordæmi. Með því að aðhafast ekki í ítrekuðum óþarfa innrásum í einkalíf borgaranna og brotum blaðamanna á siðareglunum er siðanefndin að setja það fordæmi að slík háttsemi sé heimil.

Ábyrgðin liggur náttúrulega ekki eingöngu hjá Siðanefndinni því Blaðamannafélaginu hefur verið í lófa lagt að setja ítarlegri og skýrari siðareglur fyrir félagsmenn sína. Sem dæmi má nefna að í Danmörku gilda ítarlegar leiðbeiningarreglur um frásagnir fjölmiðla af dóms- og rannsóknamálum og eru þær hluti af heildar leiðbeiningarreglna um góða fjölmiðlasiði þar í landi. Miðað við þau tilvik sem hafa komið upp á síðustu árum þá er hægt að fullyrða að ekki sé vanþörf á slíkum reglum hér á landi.

Sem betur fer vekur fjölmiðlafárið samt ekki bara athygli á slæmri blaðamennsku. Nýframin afbrot vekja yfirleitt mestan áhuga almennings og þeir fjölmiðlar sem stóðust pressuna og birtu ekki nöfn og myndir af fjórmenningunum eiga heiður skilinn. Það þarf sterk bein til að gera það í bullandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði, sérstaklega þegar eftirlitsaðilinn er lamaður. En sumir stóðust freistinguna og sýndu að enn eru til ábyrgir fjölmiðlar til hér á landi sem stunda vandaða blaðamennsku.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.