Grænar tær

Með hækkandi sól grænkar grasið á túnunum og þá er um að gera fyrir knattspyrnuáhugamenn að taka fram takkaskóna. Íþróttadeild Deiglunnar veltir fyrir sér íslenskri knattspyrnu í sumar.

Það voru gleðileg tíðindi sem bárust úr Laugardalnum fyrir skömmu þegar Atli Eðvaldsson sagði starfi sínu lausu sem þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Deiglan hefur ítrekað bent á lakan árangur liðsins sem hefur verið á hraðri niðurleið undir hans stjórn. Vonandi ber knattspyrnuforystunni gæfa til að ráða þjálfara sem er meira en bara félagi leikmannanna og jafnframt einstakling sem er tilbúinn til að rísa gegn stjórnendum sínum. Auðvitað á að vera gott að vinna með þjálfara en það eru varla góð eftirmæli þegar það eina sem hægt er að segja um hann eftir rúm 3 ár í starfi að hann hafi verið svo þægilegur í umgengni.

Íslandsmeistarar KR?

Í viðtali í Morgunblaðinu við Willum Þór Þórsson, þjálfara Íslandsmeistara KR, segir hann að deildin í sumar verði jafnari en oft áður. Liðin hafi styrkt sig mikið og undirbúningur fyrir Íslandsmótið hafi verið meiri. Liðin komi því betur undirbúin til leiks og því taki skemmri tíma að ná úr þeim vorstyrðleikanum auk þess sem meiðsli verði líklega ekki algeng.

Þetta mat Willums er rétt enda geta íslenskir knattspyrnuáhugamenn búist við skemmtilegu og spennandi sumri frá fyrstu umferð til þeirrar síðustu. Þótt erfitt sé að spá í stöðuna á toppi og botni deildarinnar þegar keppni lýkur í september hljóta KR-ingar að vera líklegir til að halda titlinum. Þeir hafa styrkt lið sitt mikið, til að mynda með tvíburabræðrunum Arnari og Bjarka Guðlaugssonum. Þó má ekki gleyma tímabilinu 2001 þegar KR var með langsterkasta liðið á pappírunum en hræðilega liðsheild. Hættan er sú að einstaklingsframtak ráði ferðinni í Vesturbænum í sumar á kostnað árángurs. Einnig má benda á að með brotthvarfi Þormóðs Egilssonar missti liðið sannan foringja sem verður væntanlega sárt saknað í öftustu víglínu.

Af öðrum liðum sem verða í toppbaráttunni í sumar má benda á Fylki, Grindavík og Skagann. Fylkismenn eru eflaust hungraðir í titilinn eftir síðasta sumar þegar hann flaug úr höndum þeirra í síðustu umferð Íslandsmótsins í orðsins fyllstu merkingu. Skaginn er gamalt knattspyrnustórveldi og með þjálfarann Ólaf Þórðarson í broddi fylkingar er aldrei hægt að afskrifa liðið. Grindvíkingar hafa verið að byggja upp gott lið á síðustu árum og með nýjum mönnum á borð við Lee Sharpe gætu þeir landað titlinum í sumar.

Endanleg niðurröðun liðanna í deildinni verður að mati íþróttaspekúlanta Deiglunnar eftirfarandi:

1. KR

2. Fylkir

3. Grindavík

4. ÍA

5. ÍBV

6. Fram

7. Valur

8. FH

9. Þróttur

10. KA

Baráttan á botni deildarinnar verður spennandi og í rauninni gætu flest lið lent í fallbaráttu. Þrótti og KA spáum við fallsæti en bæði lið gætu komið á óvart. Næsta víst er að Keflvíkingar komast upp úr 1. deild í haust og líklega mun Breiðablik fylgja þeim í úrvalsdeildina.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)