Grafarvogsbúinn

GrafarvogurinnLitla Grafarvogshjartað tekur alltaf kipp þegar ég fer úr hverfinu og sé skilti þar sem stendur 7 km til Reykjavíkur, en alveg síðan undirritaður fór í sveit hefur hann verið áminntur um það að hann býr í úthverfi.

GrafarvogurinnÉg er fæddur og uppalinn í Breiðholtinu, en flutti seinna í Grafarvoginn. Ég áttaði mig fyrst á því að það væri eitthvað öðru vísi við að búa í úthverfi eftir að hafa hjálpað dýralækninum þegar ég var í sveit. Alltaf þegar hann kom lét hann mig bera fyrir sig lyfjaglösin. Eftir nokkurn tíma datt honum í hug að spyrja mig hvaðan ég kæmi. Hann var fljótur að rífa af mér lyfjaglösin sem ég hélt á þegar hann heyrði að ég kæmi úr Breiðholtinu. Seinna tók hann mig í fulla sátt og hvíslaði jafnvel að mér að ég væri öðruvísi en “þeir hinir þarna” og átti þá við Breiðhyltingana.

Næst varð ég var við þennan ókost minn þegar ég ákvað að druslast ekki í úthverfaskólann eins hin skítugu börnin hennar Evu, heldur í MR. Þótt ég væri í bekk sem gat ekki flokkast undir annað en úthverfabekk byrjuðu fljótt að heyrast raddir á morgnana, eins og “Hvernig er að búa fyrir ofan snjólínur?”, “Var fært í bæinn?”, “Hvernig gengur jólasveininum að búa til jólagjafirnar”. Það var þá sem ég áttaði mig á því: “Ég er úthverfabúi”

Félagar mínir annars staðar í bænum hafa orð á því að ég sé of upptekinn af því að vera úthverfabúi. Enda segja þeir að ég hitti varla þá miðbæjarrottu að ég sé ekki tilbúinn að hefja rökræður um kosti og galla þess að búa í úthverfum. En hvað vita vinirnir um þetta, komandi úr “venjulegum” hverfum eins og Heimunum eða Hvassaleiti?

Litla Grafarvogshjartað tekur alltaf kipp þegar ég fer úr hverfinu og sé skilti þar sem stendur 7 km til Reykjavíkur, ég tala nú ekki um þegar ég fæ póst sem er stílaður á 112 Grafarvog en ekki Reykjavík.

Nú er ég búinn að kaupa mér íbúð í úthverfinu mínu og er enn að velta fyrir mér hvort ég eigi að bjóða í innflutningspartí. Ekki ætla ég að leggja vinina í óþarfa hættuför á mörkum byggilegs svæðis, þeir gætu villst.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.