Handboltinn í vanda

Nú þegar úrslitakeppnin í handbolta er í fullum gangi er ástæða til að velta fyrir sér stöðu íþróttarinnar. Er þessi „þjóðaríþrótt“ okkar Íslendinga endanlega að syngja sitt síðasta?

Víðir Sigurðsson blaðamaður skrifar beitta grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann gagnrýnir forsvarsmenn handboltans. Víðir dregur ekkert undan í þessari grein en hann segir meðal annars:

„Þór fékk 250 áhorfendur á þennan eina alvöru heimaleik sinn á Íslandsmótinu í vetur, HK fékk 320 og FH, gamla handboltastórveldið, fékk 800. Varla eru gjaldkerar þessara ágætu félaga ánægðir með afraksturinn. Var það þess virði að bíða allan veturinn eftir þessum eina leik?“

Þarna bendir Víðir réttilega á hversu skelfileg mæting hefur verið á nánast alla leiki í vetur. Ekki nóg með að þetta sé leikur í úrslitakeppni heldur er þetta eini heimaleikur liðsins í úrslitum þar sem þau eru fallin úr leik. Áhugi landsmanna á þjóðaríþróttinni er ekki meiri en þetta.

Deildarkeppni í vetur var ákaflega ómerkileg svo ekki sé meira sagt. Fátt kom á óvart, liðin röðuðu sér á töfluna eins og búist hafði verið við og Haukar stóðu uppi sem deildarmeistarar. Og hverjum er ekki sama? Titillinn hefur enga þýðingu nema þá að handhafar hans hafa tryggt sér heimaleikjarétt í úrslitakeppni. Baráttan á botninum skiptir engu máli því keppt er í einni deild og því fellur enginn. Getumunurinn á þessum 14 liðum er ótrúlega mikill, Selfyssingar voru í neðsta sæti með 1 stig eftir 26 leiki og 245 mörk í mínus. Hvað hefur þannig lið að gera í keppni í efstu deild?

Þótt vandamálið sé þekkt virðast forsvarsmenn íþróttarinnar ekki tilbúnir til að breyta fyrirkomulaginu. Víðir heldur áfram:

„Nei, „þjóðaríþróttin“ virðist ætla að halda áfram á sömu villigötunum um ókomin ár. „Nýtt“ keppnisfyrirkomulag verður samþykkt á ársþingi HSÍ. Úrslitakeppninni, sem er að ganga af íþróttinni dauðri, hægt og bítandi, verður haldið gangandi með þeim afleiðingum að næsta vetur verður enn slegið met í fækkun áhorfenda. Handknattleiksforystan þorir ekki að stíga það eina skref sem getur bjargað íþróttinni – að taka upp alvöru deildakeppni þar sem átta félög leika í 1. deild, spila fjórfalda umferð og efsta liðið að henni lokinni er Íslandsmeistari. Þá myndu allir leikir skipta máli og grundvöllur væri fyrir því að fá áhorfendur á leikina allan veturinn og um leið jafnt og þétt peningastreymi í kassann.“

Þessi hugmynd Víðis er vissulega þess virði að skoða hana. Aðalmálið er þó það að handboltaforystan viðurkenni vandamálið. Geri hún það ekki er komin tími til að skipt sé um menn í brúnni.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)