Eina færa leiðin

Grimmum harðstjóra hefur verið komið frá völdum í Írak, sennilega með einu færu leiðinni. En stríðinu er ekki lokið. Við vonum þó að því ljúki sem fyrst svo hægt sé að hefja nauðsynlega uppbyggingu svo að þjóðin geti vaxið og dafnað.

Það má segja að bandamenn hafi unnið stríðið í Írak síðastliðinn miðvikudag. Þann dag var Bagdad frelsuð og sjö metra há bronsstytta af Saddam Hussein var felld af stalli. En það er ekki þar með sagt að stríðinu í Írak sé lokið. Íraskir borgarar eru enn í mikilli hættu vegna átaka sérþjálfaða stormsveita Husseins við Bandamenn. Líklegt er talið að stór hluti þessara úrvalssveita hafi hörfað norður á bóginn til fæðingaborgar foringjans, Tikrit. Nú hafa flest vígi Saddams fallið og eftir stendur fæðingaborgin ein. Telja séfræðingar töluverðar líkur á því að finna ummerki um ólögleg efnavopn í borginni og að um hana muni verða hörðustu bardagar stríðsins.

Við eigum ekki að láta okkur standa á sama um harðstjóra og fasistastjórnir sem níðast á þegnum sínum. Ef svo er ekki þá gæti einhver spurt hvort ekki væri nauðsynlegt að koma fleiri harðstjórum frá, t.d í Norður-Kóreu. Auðvitað væri það æskilegt, en hvert tilvik verður að skoða fyrir sig og athuga þarf hvaða möguleikar eru fyrir hendi hverju sinni.

Nú þegar grimmi harðstjórinn í Bagdad er fallinn þá keppist margir við að fagna því, þrátt fyrir þá afstöðu að ekki hefði átt að reyna að honum frá með vopnavaldi.

En hvaða leið er fær í málum sem þessum? Sagan kennir okkur að svona menn verða aldrei talaðir frá völdum, þeir halda þjóðum sínum í heljargreipum óttans og njóta oft stuðnings stjórnvalda í nágrannalöndum sem sumhver eru jafnslæm.

Sú leið að viðhafa vopnaeftirlit að hálfu Sameinuðu þjóðanna getur við fyrstu sýn reynst skynsöm þar sem þá er farið með friði. Reyndar njóta hinir kúguðu borgarar Íraks ekki góðs af því, þeir halda áfram að hverfa sem segja brandara um foringjann. Vopnaeftirlitið fór reyndar ekki að virka fyrr en hótun um valdbeitingu fylgdi með og hersveitir bandamanna komu sér fyrir við Persaflóa.

Frakkar, Rússar og Þjóðverjar grófu þó skipulega undan hótununum með sífelldum yfirlýsingum um að hervaldi yrði aldrei beitt sama á hverju mundi dynja. Við hverja slíka yfirlýsingu minnkaði samstarfsvilji íraskra yfirvalda við vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna, og þeir í raun hafðir að háði og spotti. Þetta eru heldur ekki góð skilaboð til annara harðstjóra að hervaldi verði ekki beitt, sama hvað þeir geri af sér.

Margir hafa velt fyrir hvað hafi hangið á spítunni hjá Þjóðverjum, Frökkum og Rússum. Var það einlægur friðarvilji eða einhverjir aðrir hagsmunir? Voru það kannski víðtækir viðskiptahagsmunir sem lágu þarna að baki? Að minnsta kosti hefur Saddam ekki skort fé við gríðarlega fjárfreka uppbyggingu á höllum og skrauti fyrir fjölskyldu sína og glæpagengi. Á sama tíma létust mörg hundruðþúsund börn, ekki vegna viðskiptabanns Sameinuðu þjóðanna, heldur vegna forgangsröðunar Saddams og gengi hans.

Fall Saddams er því mikið gleðiefni en framundan er vandasöm uppbygging á írösku samfélagi. Það er nauðsynlegt að alþjóðasamfélagið komi að þeirri uppbyggingu og séð verði til þess að hagsmunir fólksins sem byggir landið verði hafðir í fyrirrúmi. Einnig þarf að tryggja efnahagslegan og pólitískan stöðugleika í þessum heimshluta. Í gær samþykktu fulltrúar sjö helstu iðnríkja heims að styðja nýja ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um samræmt alþjóðlegt átak við endurreisn Íraks. Það er því ánægjulegt að Bandaríkjastjórn virðist hafa gefið nokkuð eftir af upphaflegri áætlun sinni um uppbyggingu Íraks án þátttöku Sameinuðu þjóðanna.

Um leið og við gleðjumst yfir því að grimmum harðstjóra hefur verið komið frá óskum við þess að friður komist á sem allra fyrst svo íraska þjóðin geti vaxið og dafnað, frjáls og stolt.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.