Ayn Rand

Rússneski rithöfundurinn og heimspekingurinn Ayn Rand skilur eftir sig fjölda ritverka um heimspekikenningu sína sem hún kallaði hluthyggju (e. objectivism). Hver var Ayn Rand og hvað er hluthyggja?

Ayn Rand var rússneskur rithöfundur sem var uppi á síðustu öld. Hún fæddist árið 1905 í Rússslandi og upplifði rússnesku byltinguna af eigin raun. Eftir byltinguna bjó hún í Sovétríkjunum, lærði heimspeki, sögu og seinna meir nam hún handritaskrif fyrir kvikmyndir. Ayn Rand var ekki hrifin af alræði kommúnismans, flúði land 1926 og settist að í Bandaríkjunum. Hún lést árið 1982 og skilur eftir sig fjölda verka, bæði skáldskap og fræðibækur sem ganga flestar út á að skýra heimspekikenningu hennar sem hún kallaði hluthyggju (e. Objectivism). Ayn Rand lýsti hluthyggju sem heimspeki til að lifa á jörðinni.

Skrif hennar um hluthyggju einkennast öll af mikilli ást á einstaklingnum og hún hafnar öllum tilraunum til að eyða sjálfstæðum vilja einstaklingsins. Hún predikar að einstaklingar eigi að láta stjórnast af eigin skynsemi en ekki hugmyndum annarra eða „þjóðfélagsins”. Hver sé sinnar gæfu smiður með stöðugu vali í gegnum lífið byggðu á skynsemi sinni. Hluthyggja hafnar því alfarið hvers konar nauðhyggju og trú á að einstaklingurinn sé fórnarlamb aðstæðna sem hann ræður ekki við svo sem guðs, ríkisstjórnar, efnahagsaðstæðna, uppeldis, erfða eða einhvers annars.

Hluthyggja hafnar allri trú á hið yfirnáttúrlega, dulspeki eða hvers konar samþykki á því að trú eða tilfinning sé þekking. Staðreyndir eigi alltaf að ráða ferðinni, að steinn sé alltaf steinn, sama hvaða trú, tilfinningu, hræðslu eða von við höfum gagnvart honum. Menn eiga að skilja veruleikan eins og hann er en ekki búa til nýjan eða færa í stílinn hvernig hann raunverulega er.

Samkvæmt hluthyggjunni eigum við að lifa á jörðinni fyrir okkur sjálf en ekki fyrir aðra. Menn eiga ekki að fórna sér fyrir aðra né krefjast þess að aðrir fórni sér fyrir sig. Menn eiga að vinna fyrir eigin hagsmuni þar sem það að afreka eigin lífshamingju er hæsti siðferðslegi tilgangur í lífinu. Hluthyggja hafnar því algjörlega hvers konar fórnfýsi sem gengur út á að siðferði byggist upp á því að lifa fyrir aðra eða þjóðfélagið.

Grunn þjóðfélagsreglan í hluthyggju er að eignarrétturinn sé friðhelgur og að enginn hafi rétt á að ganga á þann rétt og krefjast verðmæta af öðrum í krafti líkamlegs afls þ.e. enginn hópur manna hefur rétt á því að hefja valdbeitingu á hendur öðrum. Menn mega aðeins beita valdi í sjálfsvörn og þá aðeins gegn þeim sem sem hafa hafið valdbeitingu. Samkvæmt hluthyggju eiga menn að koma fram við hvorn annan sem kaupmenn og láta af hendi verðmæti fyrir verðmæti og báðir aðilar njóta góðs af. Eitt besta stjórnkerfið til að standa undir kenningum hluthyggju er laissez-faire kapítalismi sem gengur út á viðurkenningu á einstaklings- og eignarrétti. Hann byggir á því að allir hlutir séu í eign einhvers og að eina markmið stjórnvalda sé að vernda einstaklingsréttindi þ.e. að vernda menn frá þeim mönnum sem hefja valdbeitingu.

Hluthyggja hafnar því öllum gerðum af sameignarstefnum svo sem fasisma og sósíalisma. Hluthyggja hafnar einnig blönduðum hagkerfum sem gera ráð fyrir því að stjórnvöld stjórni hagkerfinu með reglusetningu og endurdreifi gæðum til manna. Ayn Rand hélt því sjálf fram í ritgerð um hluthyggju að það þyrft að aðskilja ríki og efnahagsmál á sama hátt og ríki og kirkju.

Eins og gefur að skilja þá hefur Ayn Rand og heimspekikenning hennar verið mjög vinsæl hjá íslenskum frjálshyggjumönnum í gegnum tíðina, sérstaklega innan ungliðahreyfingarinnar. Hins vegar er ekki hægt að líta fram hjá því að skoðanir hennar eru oft í mótsögn við þessa aðalfylgismenn hennar hér á landi. Eitt það versta sem Ayn Rand vissi voru málamiðlanir einstaklinga með eigin lífsskoðanir. Erfitt er að sjá að hluthyggja samrýmist stjórnmálastarfi sem byggist algjörlega á ýmiss konar málamiðlunum um allt sem skiptir einhverju máli en Ayn Rand var meinilla við stjórnmálamenn eins og kemur t.d. vel fram í Atlas Shrugged þar sem þeir eru mesta meinsemdin í þjóðfélaginu.

Ayn Rand var afbragðspenni og skilur eftir sig alveg mögnuð verk. Hún kemur boðskap sínum einstaklega vel til skila í gegnum skáldsögur sínar sem eru til þess fallnar að vekja menn til umhugsunar um sjálfan sig og eigið umhverfi. Viðhorf hennar til eigin skrifa endurspeglast best í formála skáldsögunnar The Fountainhead þar sem hún skrifaði um eigin skrif:

It does not matter that only a few in each generation will grasp and achieve the full reality of man´s proper stature-and that the rest will betray it. It is those few that move the world and give life it´s meaning-and it is those few that I have always sought to address. The rest are no concern of mine; it is not me or The Fountainhead that they will betray: it is their own souls.

Ayn Rand skrifaði bækur sínar til að hvetja einstaklinga áfram til mikilla verka. Vonandi tókst henni ætlunarverk sitt.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.