ORFið og uppskeran

Það leynast möguleikar í nekt landsins og sóknarfæri í erfiðum ræktunarskilyrðum þess sem gætu orðið til þess að innan fárra ára klæðast auðnir landsins próteinframleiðandi byggökrum.

Þróunarstarf ungs líftæknifyrirtækis, ORF líftækni hf, hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Markmið fyrirtækisins er að framleiða ákveðin lyfvirk prótein með byggræktun. Þetta hljómar e.t.v fráleitt, en svo gæti þó hæglega farið að innan fárra ára klæði próteinframleiðandi byggakrar auðnir landsins.

Utan þess hversu spennandi tæknin sem slík er, er hvað skemmtilegast að sérstaða Íslands, íslenskrar náttúru og flóru, spilar stórt hlutverk í því forskoti sem ORF líftækni hf hefur á samkeppnisaðila sína í öðrum löndum.

Í stuttu máli mun starfsemin ganga út á það að gen sem skrá fyrir ákveðin prótein eru tekin og þeim erfðabreytt. Í breytingunni felst m.a það að próteinið sem genið skráir fyrir hleðst bara upp í fræi byggsins. Genið er síðan ferjað yfir í byggplöntufóstur og ef að allt gengur eftir og heilar byggplöntur verða til, eru þær plöntur sem tjá genið hvað mest og eru um leið þær sem framleiða hvað mest af þessum tilteknum próteinum, valdar frá og settar í útiræktun á akri.

Íslenska byggið er planta sem erfitt er að fást við í þessu tilliti t.d samanborið við maís sem er algeng í þessum iðnaði. Það var þó valið til verkefnisins því að með því er hægt að tryggja erfðafræðilega einangrun plöntunnar. Byggið getur ekki vaxið án hjálpar mannsins, auk þess sem engar skyldar plöntur er að finna í íslenskri náttúru og byggplantan er ófær um að frjóvga aðrar plöntur. Þetta er mjög mikilvægt til að koma í veg fyrir að erfðabreyttar plöntur dreifi sér, sem er stórvarhugavert þegar um er að ræða lyfvirka próteinframleiðslu. Lokastig vinnslunnar fela svo í sér hreinsun og einangrun próteinsins úr fræjunum.

Á þennan hátt getur ORF hæglega framleitt geysilega mikið magn próteina í einu, en um leið og möguleikar sérvirkra áhrifa próteina sem lyfja eru að verða ljósir, mun eftirspurnin eftir lyfvirkum próteinum aukast gríðarlega. Þau framleiðslukerfi sem hingað til hafa mest verið notuð, þ.e. próteinframleiðsla með aðstoð baktería, gersveppa eða dýrafruma, hafa verið ekki verið að afkasta miklu fyrir utan það að vera bæði dýr, flókin og viðkvæm. Því hafa próteinlyf verið gríðarlega dýr, eða um 80.000 kr grammið. Gangi áætlanir ORF eftir ætti aukin framleiðslugeta og ólíkt einfaldari og ódýrari framleiðsluaðferðir þeirra að geta stuðlað að því að þróun sérvirkra próteinlyfja og framboð þeirra verði eins og best verður á kosið.

Það er von að betur verði hlúð að framþróun þekkingariðnaðar á Íslandi, sem er á skjön við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Þannig verði þróunarstarfi sem þessu greiddur vegur hérlendis, og möguleikar þeir, sem í þessu tilviki leynast í nekt landsins og sérstakri náttúru, verði nýttir.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.